Jólakveðja frá formanni Landssambands hestamanna
Í daglegu tali beinist oft athyglin að fjölmörgum keppnum og árangri sem við náum þar en um leið gleymist oft á tíðum að segja hinar fjölmörgu sögur um hvað hestamennskan gefur lífinu mikið gildi almennt.
Það að njóta þeirra forréttinda að umgangast dýr, njóta útiveru og í okkar gífurlega fallegu náttúru er eitthvað sem ekki er hægt að setja verðmiða á. Ég segi það oft þegar ég er spurð að því hvort það taki ekki rosalegan tíma að vera í hestum að jú það gerir það en hins vegar gefur hestamennska manni svo mikla gleði, hugaró og svo líkamsrækt því að um leið og maður tekur til hendinni í hesthúsinu að moka undan þá hvílist hugurinn úr daglegu amstri og svo reynir maður um leið á vöðvana.
Keppnisárið 2024 verður lengi í minnum haft. Aldrei nokkru sinnum hefur mótahald blómstrað meira en í ár. Haldnar voru frábærar innanhús mótaraðir fyrir flesta aldursflokka, frábær útimót voru um land allt, stórglæsilegt Landsmót Spretts og Fáks var haldið í Víðidal í júlí, Íslandsmót þar sem m.a. féll heimsmet 150m skeiði og svo var Norðurlandamót í ágúst í Herning þar sem Íslendingar gerðu frábært mót og uppskáru 4 gullverðlaun þrátt fyrir að vera flest á lánshestum.
Hestaárið 2025 verður spennandi þar sem árið mun einkennast af okkar almennu hestamennsku, keppnum, nýjum mótaröðum og síðast en ekki síst þá verður haldið til Sviss með Landsliðin okkar tvö.
Það eru miklar væntingar til HM enda eigum við marga titla að verja og vinna. Landsliðsþjálfarar A-lið og U21 hafa valið hóp og undirbúningur hafinn en endanlegt lið og hestar munu verða valdir á vormánuðum.
Stuðningur hestamanna á HM er gífurlega mikilvægur og því hvetjum við sem flesta til að mæta til BirmensTorf í Sviss daganna 4-10 ágúst og hvetja okkar fólk úr stúkunni.
Um leið og ég óska ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ár þá þakka ég þann stuðning og heiður að hafa verið kosin sem formaður Landssambandins okkar í lok október. Ég hlakka mikið til að vinna með ykkur öllum og að því að gera hestamennskunni hærra undir höfði. Við erum frábær en um leið ólíkur hópur sem á það sameiginlegt að elska íslenska hestinn og það eitt gefur manni byr undir báða vængi. Tökum höndum saman og munum eftir gleðinni, jákvæðninni og samheldninni.
Jóla- og nýárskveðja,
Linda Björk Gunnlaugsdóttir