Keilir frá Miðsitju fallinn

Keilir frá Miðsitju og Vignir Jónasson Ljósm: Jens Einarsson
Stóðhesturinn Keilir frá Miðsitju er fallinn 31. vetra að aldri frá þessu greinir fjölmiðilinn Hestamagasin í Svíþjóð. Keilir er ræktaður af Jóhanni Þorsteinssyni en eigendur hans voru Van Blitterswijk fjölskyldan, Erik Spee auk Sigurðar Vignis Matthíassonar og Eddu Rúnar Ragnarsdóttur. Meðan Keilir var staðsettur hér á Íslandi var hann lengst af í eigu Gunnar Jóhannssonar í Árbæ og var aðal stóðhestur búsins. Hann var svo fluttur af landi brott árið 2009 og skilur eftir sig 628 afkvæmi og stóran ættboga.
Keilir er undan Ófeigi frá Flugumýri og Kröflu frá Sauðárkróki sem bæði hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og er Keilir hæst dæmda afkvæmi beggja foreldra sinna. Hæstan dóm hlaut hann á Landsmóti árið 2002 þá sýndur af Vigni Jónassyni heitnum. Hlaut hann fyrir sköpulag 8,42 með einkunnina 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og bak og lend, fyrir hæfileika 8,77 með 9,5 fyrir fegurð í reið og 9,0 fyrir skeið og vilja og geðslag var aðaleinkunn hans 8,63.
Það var svo á Landsmóti árið 2006 sem hann hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og Sleipnisbikarinn víðfræga. Alls hafa 194 afkvæmi hans skilað sér til kynbótadóms og fjöldi þeirra og fleiri til í keppni. Af nafntoguðum afkvæmum hans má fyrsta nefna þá albræður Álfastein frá Selfossi og Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum en Álfarinn er hæst dæmda afkvæmi Keilis og Álfasteinn hefur hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Auk Álfasteins hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi þau Ísar frá Keldudal, Blika frá Nýjabæ og Sunna-Rós frá Úlfljótsvatni. 1.verðlaun fyrir afkvæmi hafa hlotið Víðir frá Prestsbakka, Glymur frá Flekkudal, Sævar frá Hæli og Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum.
15 hæst dæmdu afkvæmi Keilis

Keilir frá Miðsitju hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2006. Keilir er lengst til vinstri á myndinni setinn af Guðmundi Bæringssyni. Ljósm: Jens Einarsson