Konráð Valur og Kastor með tvennu
Konráð og Kastor voru óstöðvandi á skeiðdegi KS deildarinnar Myndir: Carolin Giese
Keppt var í gæðinga- og 150 m. skeiði. Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk halda áfram að sýna mátt sinn og megin og sigruðu báðar greinarnar. Hlutu þeir 8,13 í einkunn í gæðingaskeiðinu og fóru 150 metrana á 14,56 sek. Konráð keppir fyrir lið Íbishóls.
Í 150 m. skeiðinu varð Guðmar Hólm Ísólfsson á Alviðru frá Kagaðarhóli í öðru sæti með tímann 14,88 sek. og í þriðja varð Þórarinn Ragnarsson á Vorsól frá Stóra-Vatnsskarði með tímann 14,99 sek. Guðmar keppti fyrir lið Uppsteypu og Þórarinn fyrir lið StormRider.
Klara Sveinbjörnsdóttir endaði önnur í gæðingaskeiðinu á Gletti frá Þorkelshóli með 7,83 í einkunn og í þriðja varð Jóhann Magnússon á Hetju frá Bessastöðum með 7,75 í einkunn. Klara keppti fyrir lið Líflands og Jóhann fyrir lið Uppsteypu.
Hrímnir vann liðaplattann í gæðingaskeiðinu en liðsmenn voru þau Kristján Árni Birgisson á Súlu frá Kanastöðum, Þórarinn Eymundsson á Lukku frá Breiðholti og Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu. Í 150 m. skeiðinu var það lið Uppsteypu sem var stigahæst en fyrir liðið kepptu Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á Alviðru frá Kagaðarhóli, Jóhann Magnússon á Pílu frá Íbishóli og Þorsteinn Björnsson á Fálu frá Hólum.
Lokamótið er eftir og þá er keppt í tölti og skeiði í gegnum Svaðastaðahöllina. Fyrir mótið er Guðmar Hólm efstur í einstaklingskeppninni með 78,5 stig, Klara Sveinbjörnsdóttir er önnur með 73 stig og í þriðja er Finnbogi Bjarnason með 71 stig. Mjótt er á munum og stefnir í spennandi keppni á föstudaginn í KS deildinni. Liðakeppnin er einnig spennandi þó er lið StormRider með ágætis forustu fyrir kvöldið, með 245,5 stig, og verður spennandi að sjá hvort þeir nái að landa sigra en á eftir þeim er lið Uppsteypu með 207,5 stig og lið Líflands með 205,5 stig.
Konráð Valur og Kastor með tvennu
Minningarorð um Ragnar Tómasson
Sörli heldur Íslandsmót 17. til 21. júní
Afrekssjóður styrkir ungmenni á HM