Konráð Valur og Kastor með tvennu

Konráð og Kastor voru óstöðvandi á skeiðdegi KS deildarinnar Myndir: Carolin Giese
Keppt var í gæðinga- og 150 m. skeiði. Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni á Þelamörk halda áfram að sýna mátt sinn og megin og sigruðu báðar greinarnar. Hlutu þeir 8,13 í einkunn í gæðingaskeiðinu og fóru 150 metrana á 14,56 sek. Konráð keppir fyrir lið Íbishóls.
Í 150 m. skeiðinu varð Guðmar Hólm Ísólfsson á Alviðru frá Kagaðarhóli í öðru sæti með tímann 14,88 sek. og í þriðja varð Þórarinn Ragnarsson á Vorsól frá Stóra-Vatnsskarði með tímann 14,99 sek. Guðmar keppti fyrir lið Uppsteypu og Þórarinn fyrir lið StormRider.
Klara Sveinbjörnsdóttir endaði önnur í gæðingaskeiðinu á Gletti frá Þorkelshóli með 7,83 í einkunn og í þriðja varð Jóhann Magnússon á Hetju frá Bessastöðum með 7,75 í einkunn. Klara keppti fyrir lið Líflands og Jóhann fyrir lið Uppsteypu.

Hrímnir vann liðaplattann í gæðingaskeiðinu en liðsmenn voru þau Kristján Árni Birgisson á Súlu frá Kanastöðum, Þórarinn Eymundsson á Lukku frá Breiðholti og Þórgunnur Þórarinsdóttir á Djarfi frá Flatatungu. Í 150 m. skeiðinu var það lið Uppsteypu sem var stigahæst en fyrir liðið kepptu Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á Alviðru frá Kagaðarhóli, Jóhann Magnússon á Pílu frá Íbishóli og Þorsteinn Björnsson á Fálu frá Hólum.
Lokamótið er eftir og þá er keppt í tölti og skeiði í gegnum Svaðastaðahöllina. Fyrir mótið er Guðmar Hólm efstur í einstaklingskeppninni með 78,5 stig, Klara Sveinbjörnsdóttir er önnur með 73 stig og í þriðja er Finnbogi Bjarnason með 71 stig. Mjótt er á munum og stefnir í spennandi keppni á föstudaginn í KS deildinni. Liðakeppnin er einnig spennandi þó er lið StormRider með ágætis forustu fyrir kvöldið, með 245,5 stig, og verður spennandi að sjá hvort þeir nái að landa sigra en á eftir þeim er lið Uppsteypu með 207,5 stig og lið Líflands með 205,5 stig.