Landsamband hestamanna „Afrekssjóðurinn er alltof magur“

  • 15. maí 2024
  • Fréttir

Landslið Íslands á Heimsmeistaramótinu í Hollandi Mynd: Jón Björnsson

Hestaíþróttin ekki undanskilin háum útgjöldum landsliðsmanna

Af og til kemst í umræðuna kostnaður afreksíþróttafólks við að taka þátt í landsliðsverkefnum. Nú nýlega vakti Jóhanna Gunnlaugsdóttir, sem á dóttir í U18 landsliði kvenna í handbolta, athygli á því í viðtali á Vísi að dóttir hennar þyrfti að greiða 600.000 kr. úr eigin vasa til að keppa á heimsmeistaramóti í Kína í ár.

Jafnframt telur Jóhanna stuðning ríkisins við afreksíþróttafólk vera ábótavant og bendir á að staðan sé sú sama í öðrum íþróttagreinum og nefnir körfubolta, blak, fimleika og frjálsar íþróttir.

Hestaíþróttin er ekki undanskilin en samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi hestamannafélaga greiddu knapar í landsliði hestaíþrótta 350.000 kr. knapagjald og er sama gjaldið hvort um sé að ræða A-landsliðið eða U21-landsliðið. Aukalega þurfa hesteigendur að greiða 850.000 kr. fyrir hestinn. Þannig að ef að sami einstaklingurinn var knapi og eigandi hestsins þurfti hann að greiða 1.200.000 kr. fyrir þátttöku sína á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi í fyrra.

Styrktaraðilar og stóðhestaveltan gríðarlega mikilvæg

„Afrekssjóðurinn er alltof magur en við, eins og önnur sérsambönd, erum að fá of lítinn pening úr sjóðnum. Ef ekki væri fyrir okkar frábæru styrktaraðila, stóðhestaeigendur og alla þá sem hafa komið að því að styrkja okkur á einn eða annan hátt veit ég ekki hvernig þetta væri. Það er ótrúlega snúið að halda þessu batteríi saman en við erum með í kringum 60 krakka í hæfileikamótun LH og U21-landsliðinu. Það er ekki sjálfgefið að það takist að fjármagna svo mikið starf en blessunarlega höfum við hestafólk staðið saman þegar kemur að landsliðsstarfinu og stutt vel við bakið á því, annars væri þetta ekki hægt,“ segir Guðni Halldórsson formaður LH og bætir við að hingað til hefur framlag stóðhestaeigenda í stóðhestaveltu LH, ásamt hóflegum þátttökugjöldum, dugað til að fjármagna t.d. hæfileikamótun LH.

„Í afreksstarfi yngri flokkanna hafa styrktaraðilarnir og stóðhestaveltan verið okkur afar mikilvæg. Hæfileikamótunarstarfið skiptir okkur gríðarlega miklu máli og er mjög mikilvægt að tala fyrir því að efla yngri flokka starfið sem hefur sýnt mikinn árangur síðastliðin ár,“ segir Guðni og bendir á árangur U21 landsliðsins á síðasta heimsmeistaramóti sem aldrei hefur verið betri.

Munur á framlögum úr afsrekssjóð milli ára

Á síðasta ári fékk Landssamband hestamannafélaga 12.450.000 úr Afrekssjóði ÍSÍ og fyrir árið 2024 var LH úthlutað 9.338.000 kr. Aðspurður í hverju munurinn á framlögunum liggi segir Guðni vera munur á landsliðsverkefnum.

„Afrekssjóðurinn er mjög góður svo langt sem það nær, en þetta er eins og Arnar bendir á kannski 20% af því sem sérsamböndin þurfa. kannski rétt rúmlega 20% af því sem sérsamböndin þurfa. Stjórnvöld bara verða að koma að fjárfestingu í afreksstarfi íþróttahreyfingarinnar með myndarlegri hætti og hef ég fulla trú á að það verði raunin á næstu árum. Það er mikill munur á framlögum til okkar úr afrekssjóði um hvort er að ræða heimsmeistaramótsár eða norðurlandamótsár. Afrekssjóður lítur ekki á norðurlandamót sem stórmót, en ég hef verið að berjast fyrir því að norðurlandamótið sé sameinað t.d. Miðevrópumótinu og haldið sé stórt Evrópumót á þeim árum sem ekki er Heimsmeistaramót,“ bætir Guðni við en staðan hefur verið þannig á árum sem Norðurlandamót eru haldin hefur afreksstarfið skilað tapi en hagnaði á Heimsmeistaramótsári.

„Svona árangur kemur ekki til af sjálfu sér“

Að lokum vill Guðni koma því að framfæri að sú stefna sem unnið hefur verið eftir í afreksmálum var mörkuð í framhaldi ítarlegrar stefnumótunarvinnu sem landsliðsnefnd vann ásamt utanaðkomandi fagaðila. „Fól sú vinna meðal annars í sér samtöl við knapa og aðra hagsmunaaðila. Þessi stefna er alltaf til endurskoðunar og ef skortur á fjármagni og/eða almennur vilji bendir til þess að skera þurfi niður í afreksstarfinu þá verður það að sjálfsögðu gert en það væri, að minnsta kosti fyrir mína parta, afar sorglegt ef svo yrði. Sá árangur sem náðst hefur á undanförnum árum og sýndi sig á tveimur síðustu heimsleikum er undraverður. Hefur þessi árangur vakið athygli langt út fyrir raðir okkar hestafólks og út fyrir landssteinana. Ég held að það sé öllum ljóst að svona árangur kemur ekki til af sjálfu sér og mikilvægt sé að halda áfram á sömu braut og reynt að finna leiðir til þess að svo geti orðið.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar