Köstum ekki steinum úr glerhúsi

  • 19. september 2023
  • Aðsend grein
Undanfarin misseri hefur umræða um dýravelferð stóraukist á meðal fólks og er það vel.

Öll viljum við að komið sé vel fram við menn jafnt sem málleysingja og fagna ég því að vitneskja og umræða um velferð dýra aukist.

Það sem ég hef helst rekist á undanfarið sem tengist þessu á hinum ýmsu miðlum eru hvalveiðar, laxveiðar, blóðmerahald, loðdýrarækt o.s.frv.! Það sem merkilegt er að í hvert sinn sem einhver umræða verður ofan á í umfjöllun fjölmiðla verða nær allir landsmenn sérfræðingar á því sviði og eru tilbúnir að úthrópa þá sem þetta stunda og kalla þá ýmsum ljótum nöfnum nú eða þá öfugt, taka sig til og verja iðjuna með kjafti og klóm og verða kommentakerfi oftar en ekki yfirfull af hverskyns bulli.

Í allri þessari umræðu verður mér oftar en ekki hugsað til okkar hestamanna, hvenær kemur röðin að okkur?

Fósturvísaflutningar hafa stóraukist með bættri tækni, er ekki alveg eins líklegt að einhverjir hópar taki sig til og komi því ofan á í umræðunni einn daginn, hvað ætlum við þá að segja okkur til varnar?

Þyngd knapa og yfirhöfuð ástæða þess að við leyfum okkur að sitja á baki hestsins með tengingu við munn hans í gegnum mél, hver segir að það sé eitthvað sem öðrum þykir í lagi?

Margir taka folöld sín undan mæðrum um áramót og hýsa þau inni, ekki er það gert í náttúrunni?

Við notum hestinn í allskyns keppni og sýningar, setjum á hann hlífar með þyngd, fylliefni í hófa og botna. Það er alveg eðlilegt!?

Svona mætti lengi telja og taka dæmi um það sem okkur finnst eðlilegt, en er það kannski ekki, við skulum því fara varlega í því að úthrópa það sem ekki er okkur að skapi sem dýraníð eða hvert það ljóta lýsingarorð sem okkur dettur í hug, röðin gæti nefnilega komið að okkur einn daginn.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar