Kynbótasýningar fara vel af stað – Jökull í 8,81

  • 3. júní 2020
  • Fréttir

Fyrstu kynbótasýningar ársins hófust í gær með dómum á félagssvæði Spretts í Kópavogi og einnig á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Efst eftir fordóma og yfirlit í Spretti er Ómsdóttirin Pollí frá Mið-Fossum, sýnd af Viðari Ingólfssyni. Hún hlaut 8,36 fyrir sköpulag og  8,41 fyrir hæfileika, aðaleinkunn upp á 8,39.

Stóðhesturinn Jökull frá Breiðholti í Flóa stendur efstur eftir daginn á Gaddstaðaflötum með risaeinkunn, 8,75 fyrir sköpulag og  8,84 fyrir hæfileika, aðaleinkunn upp á 8,81.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Árna Björns Pálssonar, sýnanda hestsins og spurði hann hvernig honum hefði fundist ganga. „Sýningin á Jökli gekk mjög vel. Þetta er hestur sem leysir verkefnin auðveldlega, þjáll en burðarmikill með miklum fótaburði og nýtir afturpartinn sérlega vel. Þetta er algjör snillingur, hann hefur verið hjá okkur Sylvíu í Oddhól alveg frá frumtamningu líkt og önnur afkvæmi Gunnvarar frá Miðsitju.“

Eins og eflaust margir þekkja þá er Kári Stefánsson, jafnan kenndur við Íslenska Erfðagreiningu, eigandi Jökuls. Hvernig brást hann við dómnum á hestinum? „Hann sagði að þetta væri sæmilegt“ segir Árni Björn „sæmilegt en ekki súper þar sem tvö systkyni Jökuls að móðurinni, þau Villingur frá Breiðholti með 8,93 og Kolka frá Breiðholti með 9,10 hafa hlotið hærri hæfileikadóm.“

Og telur Árni Björn sig eiga eitthvað að sækja í yfirlitinu á föstudag? „Hesturinn á meira inni á skeiði, gæðin í skeiðinu, skeiðsniðið og skrefið er allt saman hreint afbragð svo það er aldrei að vita nema það sé hægt að sækja ögn meira á þeim vængnum“ segir Árni Björn Pálsson að lokum.

Yfirlitssýningin á Hellu á föstudag verður sýnd ókeypis í beinu streymi hér á eidfaxi.is

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<