Landsmót 2024 Landsmót 2024 verður í Fáki í Víðdal

  • 20. maí 2023
  • Fréttir
Sprettur og Fákur munu bera sameiginlega ábyrgð á framkvæmd og undirbúningi mótsins

Tekin hefur verið ákvörðun um að halda Landsmót 2024 á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Hestamannafélagið Sprettur og Fákur munu halda mótið í sameiningu.

“Hestamannafélagið Sprettur hefur óskað eftir heimild til að halda Landsmót 2024 í samstarfi við Hestamannafélagið Fák á félagssvæði Fáks í Víðidal í Reykjavík. Stjórn LH og stjórn LM ehf. hafa fjallað um málið og hafa samþykkt að verða við ofangreindri beiðni Spretts,” kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi hestamannafélaga.

Sprettur og Fákur munu bera sameiginlega ábyrgð á framkvæmd og undirbúningi mótsins, en Fákur leggur til mótssvæði sitt í Víðidal tilbúið til mótahalds. Skipuð verður fimm manna framkvæmdanefnd sem hefur yfirumsjón með framkvæmd og undirbúningi mótsins og gengið verður frá ráðningu framkvæmdastjóra á næstu dögum.

Stjórnir LH og LM ehf. voru einróma í niðurstöðu sinni og vonast til að Landsmót 2024 verði haldið af miklum glæsibrag í samstarfi tveggja stærstu hestamannafélaga landsins á mótssvæði sem þegar hefur sannað sig. Bindur stjórn LH vonir við að hestafólk taki höndum saman um að standa að baki þessum stærsta og mikilvægasta viðburði sem haldinn er á sviði hestamennskunnar á Íslandi, hestaíþróttinni og hrossaræktinni til heilla.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar