„Landsmót er eitt af þessu sem við lifum fyrir“
Eiðfaxi heldur áfram að kynnast hrossaræktarbúum um land allt og nú snúum við sjónum okkar að Kirkjubæ.
Hrossaræktarbúið Kirkjubær er mörgum kunnugt en þar hefur verið stunduð markviss hrossarækt frá því um miðja síðustu öld. Kirkjubær er staðsett á Rangárvöllum og telur jörðin alls 1500 hektara. Ábúendur á jörðinni eru þau Hjörvar Ágústsson, Hanna Rún Ingibergsdóttir og dóttir þeirra, Lilja Rún Hjörvarsdóttir. Þau reka búið í samvinnu við foreldra Hjörvars þau Ágúst Sigurðsson og Unni Óskarsdóttur sem búa á Hvolsvelli. Hjörvar og Hanna Rún sjá um daglegan rekstur og reka vinsæla tamningastöð. „Við erum með 27 eins hesta stíur og verða þær að sjálfsögðu allar í notkun í vetur líkt og áður“. Þau eru auk þess reiðkennaramenntuð og hafa í nógu að snúast í kennslu. „Að vetrarlagi eru í kringum 80 hross á búinu en á sumrin eru þaui vel yfir 150 talsins. Bæði frá okkur og einnig erum við með í uppeldi fyrir erlenda aðila. Einnig reynum við að hafa 1-3 vinsæla stóðhesta hjá okkur á sumrin sem við viljum nota sjálf og tökum að okkur hryssur frá öðrum“. Segja þau Hjörvar og hanna aðspurð um hrossafjölda í Kirkjubæ.
Það er því í nógu að snúast á bænum en hvað er verið að brasa þessa dagana? „Frumtamningar eru á fullu um þessar mundir og það sem þessi tími er skemmtilegur. Labba út í hesthús í lopapeysu (prjónaðri af Unni Óskarsdóttir) ná í snúrumúlinn og vaðinn og skoða stjörnur framtíðarinnar. Við tömdum hryssurnar okkar í ágúst og erum langt komin með graðhestana okkar núna. Einnig erum við að temja heilmikið frá öðrum núna í september og fram í október“.
Eins og áður hefur komið fram hefur markviss ræktun verið stunduð lengi að Kirkjubæ en hvað fengu þið mörg folöld í sumar og undan hverjum eru þau? „Við fengum 9 folöld. 3 undan Hrannari frá Flugumýri 2, Draum frá Feti, Ljúf frá Torfunesi, Spaða frá Stuðlum, Sólfaxa frá Herríðarhóli og Safír frá Hjarðartúni“ Hvaða stóðhestar urðu svo fyrir valinu þetta árið?
„Við erum að halda tveimur hryssum með öðrum og þær fóru undir Kná frá Ytra-Vallholti og Hannibal frá Þúfum. Síðan fóru tvær undir Þór frá Stóra-Hofi (önnur þeirra sónaðist fengin daginn sem Þór fór úr landi, sem voru miklar gleðifréttir), tvær eru fengnar við Sjóði en hann var hjá okkur í sumar. Tvær eru ósónaðar þegar þetta erskrifað en voru báðar hja Seiði frá Hólum sem var hér hjá okkur í sumar einnig. Ein fór undir Adrían fráGarðshorni og önnur undir Bjarma frá Litlu-Tungu.“ Segja þau Hjörvar og Hanna Rún en hvað er spennandi í tamningu um þessar mundir? „Árgangurinn er óvenju lítill þetta árið eða 7 hross í það heila. Í því er mjög skemmtileg hryssa undan Sigri frá Stóra-Vatnsskarði og Lilju frá Kirkjubæ , hún var alveg einstaklega einföld í tamningu og verður gaman að vinna með hana, það segir ýmislegt um hana að Hjörvar fær varla að teyma hana út í gerði. Síðan er stór og öflugur hestur undan Skýr frá Skálakoti og Dögg frá Kirkjubæ, þetta er bróðir t.d Dropa okkar frá Kirkjubæ sem fór til Sviss. Þessi tvö eru frekar þroskuð og verður gaman að sjá hvernig þau þróast í vetur, einnig tömdum við t.d. efnilega Kveiksdóttir og Pensilsson.„
Hátíð í heila viku þegar nían var í húsi
„Það voru heil tvö hross sýnd frá búinu í ár. Annars vegar Öld frá Kirkjubæ sem Hjörvar er búinn að margsýna og jafnvel meira þjálfuð á Hellu en heima hjá sér, ástæðan fyrir þeirri þráhyggju knapans var að honum langaði svo að hún fengi 9 fyrir tölt. Það gekk eftir í sumar og var haldin hátíð í Kirkjubæ í viku á eftir. Hitt hrossið er bráðefnileg hryssa undan Kiljan frá Steinnesi og Fenju frá Kirkjubæ. Sú heitir Salka og höfum við mikla trú á henni, við sjáum mikið eftir Kiljan hér í Kirkjubæ en hann blandaðist vel hér. Salka fór nú bara í svona ágætis dóm en á mikið inni og stefnum við ótrauð á næsta ár og síðan í ræktun með hana.“ En hvað er það sem er mest spennandi í húsinu í vetur? „Við erum alveg ótrúlega spennt fyrir næsta vetri. Mikið af hrossum frá okkur 4-6 vetra sem við stefnum með í kynbótadóm og svo líka með mikið af góðum hrossum frá öðrum sem gekk vel að sýna í sumar og fáum að vera áfram með. Til að kannski telja eitthvað upp sérstaklega þá eru t.d 3 folar sem verða 5 vetra sem voru mjög skemmtilegir í fyrra. Þeir eru undan Dropa, Ljúf og Trymbli. Síðan er það áður nefnd Salka ásamt mörgu öðru skemmtilegu. Eigum líka með vinum okkar í Brautarholti alveg frábæran 5 vetra hest undan Arion og Örðu frá Brautarholti sem fór í flottan dóm í sumar og við höfum mikla trú á, sá heitir Hvarmur.“
„Hjá okkur stóð að sjálfsögðu upp úr fæðing dóttur okkar henni Lilju Rúnar. En kannski hestatengt að þá fórum við á alveg frábært fjórðungsmót fyrir austan með góðum vinum okkar í Strandarhjáleigu og höfðum alveg óskaplega gaman að. Við upplifðum það aftur að það væri gaman að sýna og brasa í kynbótasýningum. Við áttum frábærar stundir sem áhorfendur á HM og Ísrún frá Kirkjubæ kastaði sinni fyrstu hryssu sem er rauðskjótt undan Ljúf frá Torfunesi sem var mikil gleðistund. Það sem hins vegar stóð algjörlega uppúr var þegar pabbi/tengdapabbi Ingibergur Árnason var valinn í landsliðið á aðal keppnishrossi búsins Sólveigu frá Kirkjubæ. Þó að þau hafi ekki komist út að þessu sinni vorum við alveg gríðarlega stolt af þeim. Og að sjálfsögðu árangur Elvars Þormassonar frænda og vinar okkar í Hollandi“
Þið fjölskyldan skelltuð ykkur á HM í Hollandi, hvernig fannst ykkur mótið takast? „Algjörlega frábært. Stemmingin var frábær, mótsvæði til fyrirmyndar. Það var unun að fylgjast með framgöngu Íslenska liðsins. Hvílíkt íþróttafólk og fagmenn ! vá , takk fyrir okkur.“
Landsmót framundan -hvernig leggst það í ykkur, og eru þið með einhver sérstök markmið fyrir það mót?
„Landsmót er eitt af þessu sem við lifum fyrir. Covid gerði það að verkum að maður trúir því varla að maður sé svo heppin að á hverju sumri sé annað hvort HM eða Landsmót sem er svo sannarlega ekki sjálfsagt. Við að sjálfsögðu mætum í Víðidalin og hlökkum til að sjá oghitta hestamenn og hesta. Markmið okkar eru að sjálfsögðu að reyna að koma einhverjum hestum inn“