Landsamband hestamanna Landssambandið fær rúmar 11 milljónir úr Afrekssjóði ÍSÍ

  • 2. janúar 2025
  • Fréttir
Styrkur Landssambandsins úr Afrekssjóði ÍSÍ lækkar á milli heimsmeistaramóts ára

Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2025, en úthlutun nemur alls 519,4 milljónum króna. Sagt er frá úthlutuninni í ár á heimasíðu sambandsins.

Alls sendu 33 sérsambönd umsókn til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna afreksíþróttastarfs og landsliðsverkefna. 32 sérsambönd hljóta styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ við þessa úthlutun fyrir árið 2025.

Landssamband hestamannafélaga er eitt af þeim sem sendi inn umsókn og hlaut 11.260.761. Stórt landsliðsverkefni er framundan á árinu eða Heimsmeistaramótið í Sviss í ágúst. Árið 2023 hlaut LH 12.450.000 kr. í styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ. Styrkurinn er rúmum milljón krónum lægri í ár.

Við úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna ársins 2025 var í annað sinn unnið eftir þeirri reglugerð um Afrekssjóð ÍSÍ sem samþykkt var í nóvember 2023 þar sem sérsamböndum er skipt í tvo afreksflokka, Afrekssérsambönd og Verkefnasérsambönd. Við ákvörðun á styrkupphæðum til sérsambanda er horft til flokkunar þeirra í afreksflokka. Hljóta þau styrki vegna ákveðinna áhersluþátta eftir því hvaða flokki og þrepi þau tilheyra. Þannig hljóta sérsambönd styrk eftir fjölda stöðugilda í afreksstarfi, þátttöku og árangri fullorðinna og ungmenna í stórmótum, vegna hæfileikamótunar, heilbrigðisteymis og menntunar þjálfara og dómara. Að auki eru sérsamböndin styrkt vegna mögulegrar þátttöku á Ólympíuleikum og vegna framúrskarandi einstaklinga. Til viðbótar eru svo Afrekssérsambönd styrkt um hluta af ferðakostnaði þeirra í mót og keppnir þar sem styrkfjárhæð fer eftir stærð móta.

Samkvæmt Vísi er heildarkostnaður afreksstarfs hjá þeim sérsamböndum sem sóttu um til Afrekssjóðs ÍSÍ vegna ársins 2025 áætlaður um 3,4 milljarðar króna og er stuðningur sjóðsins um fimmtán prósent af áætluðum heildarkostnaði afreksstarfs þeirra sérsambanda sem sóttu um.

Samkvæmt ársreikningi Landssambands hestamannafélaga fyrir árið 2023 var kostnaður afreksmála hjá LH 62.120.547 kr. Styrkurinn sem afrekssjóður ÍSÍ veitti í ár er 18% af þeim kostnaði.

 

Hluti af þeim samböndum sem fá styrk í ár, raðað eftir upphæð styrksins:

  1. Handknattleikssamband Íslands 72.542.905
  2. Fimleikasamband Íslands 46.358.660
  3. Skíðasamband Íslands 44.485.120
  4. Körfuknattleikssamband Íslands 39.198.044
  5. Golfsamband Íslands 34.690.423
  6. Sundsamband Íslands 33.505.037
  7. Frjálsíþróttasamband Íslands 33.065.133
  8. Kraftlyftingasamband Íslands 24.786.230
  9. Íþróttasamband fatlaðra 24.344.066
  10. Lyftingasamband Íslands 16.968.633
  11. Bogfimisamband Íslands 16.596.730
  12. Keilusamband Íslands 15.716.142
  13. Dansíþróttasamband Íslands 12.994.377
  14. Badmintonsamband Íslands 12.568.447
  15. Íshokkísamband Íslands 11.801.750
  16. Skotíþróttasamband Íslands 11.751.032
  17. Landssamband hestamannafélaga 11.260.761

Hér má sjá allan lista yfir styrk til ákveðinna íþróttasambanda.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar