,,Leggst vel í mig að vera orðinn formaður Meistaradeildarinnar“

  • 12. október 2020
  • Fréttir

Sigurbjörn Eiríksson í keppni í Spretti mynd: Aðsend

Viðtal við Sigurbjörn Eiríksson

,,Það leggst gríðarlega vel í mig að vera farinn að vinna að málum Meistaradeildarinnar, ég hef fylgst mikið með henni utan fá séð og verið mikill aðdáandi hennar. Deildinni var mjög vel skilað af síðustu stjórn og það eru mörg verkefni í gangi og mikið að vinna að í framhaldinu. Samstarfsfólk og meðstjórnendur hafa mikla reynslu og þetta er frábærlega vel samsettur hópur, svo að það er ekki annað en að hlakka til að vinna með þeim, ásamt velunnurum deildarinnar, bestu knöpum landsins og öflugum liðum.“ Þetta segir ný skipaður formaður Meistaradeildarinnar, Sigurbjörn Eiríksson, þegar hann er spurður að því hvernig honum lýtist á þetta nýja hlutverk.

Ný stjórn var skipuð á dögunum eins og fjallað var um á vef Eiðfaxa.

Sigurbjörn, sem yfirleitt er kallaður Sibbi, er alnafni afa síns, Sigurbjörns Eiríkssonar veitingamanns og hrossaræktenda að Stóra-Hofi. ,,Ég er skírður í höfuðið á honum, en hann er móðurfaðir minn, ég var alltaf mikill afastrákur og þvældist með honum flestar helgar og í öllum skólafríum fram yfir unglingsárin mín, hann hafði mikil áhrif á mig á mínum uppvaxtarárum og ég hugsa oft en þann dag í dag hvernig hann hefði tekið á hlutunum sem ég er að stússast í.“

En hver er Sibbi, við hvað starfar hann, bakgrunnur í hestamennsku og hvernig stundar hann hestamennsku í dag?

,,Ég starfa sem forstöðumaður á tækisviði Vodafone. Ég er í raun  fæddur inn í hestamennsku, útreiðar og ræktunarmál,  stundaði hestamennskuna mikið sem barn og alveg fram til 18 ára aldurs, á þeim aldri var ég byrjaður í menntaskóla og það var oft mikið fjör í kringum það allt saman, hugurinn og áhuginn leitaði annað. Allan tímann þá var ég alltaf með það bak við eyrað að byrja aftur í hestum, það var svo fyrir 6 árum að ég fékk mér hest og þá var ekki aftur snúið, svo komu fleiri hestar, hestakerra, hesthús…áhuginn hafði blundað inn í mér  í fjölmörg ár, þannig að ég fór inn með krafti og áhugamálið breytist svo í lífstíll, eins og hjá flestum. Ég fór fyrir þremur árum í námið Reiðmaðurinn, bóklegt á Hvanneyri en tók verklegt á Króki, hjá Reynir Erni, eða Meistaranum eins og ég kalla hann, bæti svo við mig þriðja árinu í fyrra, ég hef auk þess verið að detta inn hjá reiðkennurum reglulega á þessum árum. Ég stunda mína hestamennsku í Spretti, hún miðast við útreiðar, hestaferðir, ræktun, félagskap og lítilega verið að prófa keppa, hef áhuga á að koma meira þar inn.“

Verða einhverjar breytingar á MD eða verður allt með hefðbundni sniði?

,,Við tökum við mörgum verkefnum fyrri stjórnar sem þegar var búið að setja af stað, auðvitað verða alltaf einhverjar breytingar, það er þróun í svo mörgu sem snýr að hestamennsku, keppnum þannig að MD þarf að fylgja vel eftir þeim tækifærum sem kunna að koma upp, áhugi hér innanlands er mikill og erlendis fer eftirspurn á að fylgjast með MD vaxandi. Það verður líka krefjandi að vinna með COVID heimsfaraldurinn, stjórnin, knapar og liðinn þurfa í raun að vera með plan A og B.“

Á hvað leggur ný stjórn áherslu?

,,Þegar við losnum úr COVID þá er stjórnin samhuga með það að  fá áhugafólk hestamennskunnar inn á viðburðina sjálfa, við verðum að finna leið til þess, á þeim mótum sem voru fyrir COVID í ár þá voru hallirnar hálfsetnar, þetta teljum við ekki góða þróun, hestamenn vilja hittast, spjalla og hafa gaman saman, einnig þá er það ekki næg virðing við knapa og lið, sem eru búin að undirbúa sig gríðarlega, með sína allra bestu hesta að það séu tómar hallir.“

Eitthvað fleira sem þú vilt koma á framfæri?

„Mig langar að nota tækifærið og þakka fyrir tækifærið að fá að vinna fyrir MD og með öllu því frábæra fólki sem verður þar með mér, ef einhverjir þarna úti eru með góðar hugmyndir eða vilja fá að leggja sitt af mörkum í einhverjum af þeim fjölda verkefna sem þarf til að gera deildina sem glæsilegasta þá endilega senda upplýsingar á info@meistaradeild.is við höfum svo samband.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar