Lið Hringdu í 1.deildinni

  • 9. febrúar 2025
  • Fréttir
Liðakynning á liðum í 1. deildinni í hestaíþróttum
Liðakynning er hafin hjá 1. deildinni í hestaíþróttum og annað liðið sem kynnt er til leiks er lið Hringdu. Liðsmenn eru Játvarður Jökull Ingvarsson liðstjóri, Ylfa Guðrún Svafarsdóttir, Reynir Örn Pálmason ný inní liðið koma Haukur Tryggvason og Thelma Dögg Tómasdóttir.
Haukur Tryggvason er hestaþjálfari og reiðkennari, útskrifaður frá Háskólanum á Hólum. Hann var búsettur í Þýskalandi í tæp 20 ár þar sem hann starfaði sem reiðkennari, þjálfari og tamningamaður. Haukur er nýlega fluttur aftur heim til Íslands og starfar nú á Hvoli í Ölfusi. Haukur hefur víðtæka reynslu og notið velgengni í keppni í gegnum árin. Helstu titlar Íslandsmeistari, þýskur meistari, Norðurlandameistari og var nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu, sem og þjálfari hjá þýska landsliðinu.
Játvarður Jökull Ingvarsson stundar hestamennsku að kappi ásamt fjölskyldu sinni í Herði í Mosfellsbæ. Hann stofnaði fyrirtækið Hringdu á sínum tíma og starfar þar í dag sem framkvæmdastjóri. Játvarður hefur keppt þó nokkuð í gegnum tíðina en hefur ekki verið sýnilegur síðastliðin ár en hyggst nú gera breytingar á því.
Reynir örn Pálmason hefur verið viðloðin keppnisvöllinn til margra ára og hefur unnið til margra verðlauna í ýmsum greinum. Reynir er meðal annars blikksmiður að mennt ásamt því að hafa gengið í Hólaskóla. Í dag rekur hann hrossaræktarbúið Margrétarhof í Ásahrepp með miklum sóma.
Ylfa Guðrún Svafarsdóttir er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og rekur tamningastöð í hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði. Ylfa hefur verið áberandi á keppnisvellinum frá unga aldri og var meðlimur U21 landsliðsins á árunum 2016-2021. Hún er þrefaldur Íslandsmeistari í T2 og F1 og á marga Reykjavíkurmeistaratitla á bakinu ásamt því að hljóta silfur á Norðurlandamóti 2016 og vera í úrslitum 2018.
Thelma Dögg Tómasdóttir er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún rekur tamningastöð á Kálfhóli þar sem hún býr ásamt því að taka að sér kennslu. Thelma hefur verið áberandi á keppnisvellinum frá unga aldri og staðið sig með miklum sóma þar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar