Heimsmeistaramót Lokabreyting á landsliðshópnum

  • 28. júlí 2025
  • Tilkynning

Herkúles frá Vesturkoti og Þórarinn Ragnarsson Mynd: Henk Peterse

Það styttist í heimsmeistaramótið í Sviss

Nú er heldur betur að styttast í Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem að þessu sinni fer fram í Sviss 5.-10. ágúst. Ferlið að velja landslið til leiks fyrir Íslands hönd var heilmikið en nú er skráningarfrestur liðinn og öll lönd hafa því skráð staðfest lið til leiks ásamt varaknöpum. Hestarnir okkar fljúga út í kvöld, mánudag og knaparnir á þriðjudagsmorgun.

Breyting hefur orðið á A-landsliðshópnum en því miður mun Ölur frá Reykjavöllum ekki geta keppt fyrir Íslands hönd í þetta skiptið vegna meiðsla og hefur þessi ákvörðun verið tekin með velferð hestsins í huga. Þetta er stórt skarð að fylla fyrir íslenska liðið þar sem Ölur og Hans Þór Hilmarsson hafa verið virkilega sterkir saman í fimmgangsgreinum síðustu ár og urðu meðal annars Íslandsmeistarar í fimmgangi sumarið 2024. Fall er fararheill og vonumst við til að fá að fylgjast með þessu frábæra pari áfram hér á landi og sendum hlýjar kveðjur á þá félaga.

Inn í liðið kemur þó par sem ekki er af verri endanum en það eru Þórarinn Ragnarsson & Herkúles frá Vesturkoti. Herkúles er níu vetra gamall undan Spuna frá Vesturkoti og Heklu frá Miðsitju. Þeir félagar hafa verið að gera það gott saman í keppnum síðustu misserin og unnu m.a. fimmganginn á Reykjavíkurmeistaramóti í vor með einkunnina 7,57 þar sem þeir fengu meðal annars upp í 8.5 fyrir tölt & 8.0 fyrir brokk. Þeir munu verða skráðir til leiks í fimmgangsgreinar; F1, T1 og gæðingaskeið.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar