„Mér finnst vera kraftur í ræktunarstarfinu“

  • 2. desember 2023
  • Fréttir

Maron frá Lækarbrekku stóð efstur 4.vetar hesta á FM2023

Viðtal við ræktendur á Lækjarbrekku

Eiðfaxi heldur áfram að kynnast hrossaræktarbúum um land allt. Hrossaræktarbúið Lækjarbrekka er staðsett í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu. Ábúendur eru þau Pálmi Guðmundsson og Elín Magnúsdóttir en þau eiga 5 börn og 14 barnabörn. Fjöldi hrossa á búinu eru í kringum 50 talsins.

”Við fengum þrjú folöld í sumar, tvær af bestu hryssunum okkar þær, Marín og Sara frá Lækjarbrekku, voru teknar úr folaldseign á keppnisvöllinn fyrir afa stelpurnar okkar þær Elínu Ósk og Ídu Mekkín. Við fengum, hest undan Organista frá Horni, hest undan Magna frá Hólum og hryssu undan Spaða frá Stuðlum.”  Segir Pálmi aðspurður um hvaða folöld fæddust í sumar. En undir hvað leiddi hann hryssur sínar í sumar? ”Við héldum fjórum hryssum, þrjár fóru undir Maron frá Lækjarbrekku, 4. vetra fola sem fór í frábæran dóm í sumar og ein hryssa sem var seinköstuð og fór undir stóðhesti á suðurlandi en sónaðist geld.”

Maron stóð efstur á FM

Hvað voru mörg hross sýnd frá búinu í sumar og hvernig gekk það?  ”Við sýndum tvo unga stóðhesta í sumar, bræður undan Marín frá Lækjarbrekku, þá Magna frá Lækjarbrekku, 5. vetra, undan Glæsi frá Lækjarbrekku og Maron frá Lækjarbrekku 4. vetra undan Arion frá Eystra-Fróðholti. Sá eldri var lítið gerður og ekki alveg tilbúinn í sýningu, en sá yngri Maron frá Lækjarbrekku varð efstur í 4. vetra flokki stóðhesta á Fjórðungsmóti Austurlands.”  Maron var sýndur af Hlyni Guðmundssyni og hlaut fyrir sköpulag 7,89 og fyrir hæfileika 8,33 þar af 9,0 fyrir tölt.

Hvernig finnst ykkur ræktunarstarfið í heild sinni vera á Íslandi? ”Bara nokkuð vel, það er mikið framboð af góðum hrossum. Okkur finnst vera kraftur í ræktunarstarfinu, margir áhugasamir ræktendur og við sjáum framfarir á hverju ári. Það má alltaf gera betur, en mér finnst við vera á réttri leið.” 

Hvað verður margt á járnum í vetur?  ”Það verða ca. 10-12 hross á járnum í vetur frá Lækjarbrekku.”

Hvað er spennandi að koma frá búinu?  ”Það eru alltaf einhverjar vonarstjörnur á hverju ári, nú er það Sigursteinn frá Lækjarbrekku, undan Söru frá Lækjarbrekku og Heiðri frá Eystra-Fróðholti, hann er í frumtamningu í vetur í Lækjarhúsum hjá Snæsu og Frikka en þau eiga helmings hlut í honum. Stelpurnar mínar eru að temja tvo geldinga, annar er undan Söru og Hrannari frá Flugumýri. Við erum einnig með tvo tryppi í frumtamningu undan Goða frá Lækjarbrekku (F:Kiljan) úr okkar ræktun. Svo erum við með mjög spennandi fola á Svanavatni, hann Mána frá Lækjarbrekku sem er á 3ja vetra, undan Marín frá Lækjarbrekku og Ský frá Skálakoti, annan fola í Eystra-Fróðholti, jafngamlan undan Nælu frá Lækjarbrekku (systir Marínar) og Óskasteini frá Íbishóli og síðan er þar líka Náttfari frá Lækjarbrekku sem verður tveggja vetra í vor og er undan Nælu og Dagfara frá Álfhólum. Við Ársæll í Eystra-Fróðholti eigum saman þrjú afkvæmi undan Nælu sem er Arions dóttir.”

 Góður árangur í keppni

Hvernig gekk í keppni með hross frá ykkur í sumar?

”Afa stelpurnar okkar voru duglegar að keppa, bæði í gæðingakeppni og íþróttakeppni. Eftir sumarið voru þær í efstu sætum á stöðulista í gæðingakeppni unglinga og gæðingatölti. Þær náðu líka góðum árangri í íþróttakeppni, fjórgangi V2 og tölti T3 og eru að feta sig upp stöðulistana þar. Stóðhesturinn okkar Þórmundur frá Lækjarbrekku, 7. vetra náði góðum árangri í A-flokki gæðinga ásamt knapa sínum Hlyn Guðmundssyni á Svanavatni. Þeir voru í mjög sterkum A-úrslitum á Fjórðungsmóti Austurlands og enduðu í 4 sæti með einkunnina 8,80.“

Pálmi með afastelpunum

Ræktunarrbússýning stendur upp úr

”Ræktunarbússýning á gæðingum frá Lækjarbrekku í Hornafirði á Fjórðungsmóti Austurlands. Frábær hross og knapar sem okkur þykir mjöt vænt um – eins og ein fjölskylda, það augnablik stendur upp úr á árinu hjá okkur.”

Hvernig fannst ykkur Fjórðungsmót heppnast? ”Það voru mjög góðir hestar og knapar, sérstaklega í A-flokki og unglingaflokki gæðinga. Freyfaxamenn eiga hrós skilið fyrir velheppnað mót.”

Landsmót framundan  á næsta ári- hvernig leggst það í ykkur, og eru þið með einhver sérstök markmið fyrir það mót?  ”Það leggst mjög vel í okkur, við ætlum að koma vel undirbúin til leiks. Við verðum vonandi með systkinin Þórmund frá Lækjarbrekku og Nælu frá Lækjarbrekku í A-flokki gæðinga, þau eru bæði undan heiðursverðlaunahryssunni Þulu frá Hólum. Síðan verða afastelpurnar mínar mjög vel ríðandi og stefna á úrslitasæti í unglingaflokki gæðinga með hryssur frá Lækjarbrekku og Kirkjubæ. Unga stjarnan okkar frá í sumar á FM á Austurlandi, Maron frá Lækjarbrekku kemst vonandi á Landsmót í Reykjavík í 5. vetra flokki stóðhesta en annað er óákveðið. Við erum spennt fyrir að sækja um að vera með ræktunarbússýningu frá Lækjarbrekku í Hornafirði, enda verður sterkur hópur 1. verðlauna kynbóta- og keppnishrossa frá okkur á mótinu.”

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar