Miðbæjarreiðin fer fram 29. júní
Nú styttist í miðbæjarreiðina sem fram fer næsta laugardag kl 12:00. Reiðin hefst við BSÍ og þaðan verður haldið upp á Skólavörðuholtið og svo áfram í gengum miðbæinn, að Tjörninni og endar reiðin aftur á BSÍ.
Fánaberar með fána Landsmóts munu fara fyrir hópunum og minna alþjóð á að einn stærsti og skemmtilegasti íþrótta- og menningarviðburður landsins er rétt við það að hefjast. Á eftir þeim koma svo fulltrúar hestamannafélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
„Miðbæjarreiðin er skemmtileg hefð og minnir okkur á það fjölbreytta hlutverk sem hestar hafa haft innan borgarmarkanna. Mjög mikil hestamennska er stunduð innan höfuðborgarsvæðisins og þar eru starfrækt risastór hestamannafélög sem líkt og hin ýmsu íþróttafélög stuðla að bættri lýðheilsu og standa fyrir öflugu barna og unglingastarfi.“ segir í tilkynningu frá Landsambandi hestamannafélaga.
„Miðbæjarreiðin minnir okkur einnig á nálægð borgarinnar við hestamennskuna og mikilvægi þess að gert sé ráð fyrir hestum í borgarskipulaginu. Það er velferðarmál fyrir knapa og hesta auk þess sem hestatengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu gerir borgina að spennandi áfangastað og þá eru ótalin þau menningarverðmæti sem liggja að baki þegar við tölum um íslenska hestinn og allt það sem hann stendur fyrir.“
Þeir knapar sem vilja taka þátt í viðburðinum, skulu endilega setja sig í samband við sitt hestamannafélag sem allra fyrst. Hægt er að fylgja viðburðinum á facebook.