Minningarorð um Stefán í Hrepphólum
Stefán Jónsson bóndi að Hrepphólum í Hrunamannahreppi lést sunnudaginn 29.september. Útför hans fer fram frá Skálholtskirkju í dag, föstudaginn 11.október, og hefst hún klukkan 13:00.
Hann var fæddur þann 13.apríl árið 1937 og var því 87 ára að aldri er hann lést, eftirlifandi eiginkona hans er Katrín Ólafsdóttir og saman eiga þau fjögur börn þau Ólaf, Guðbjörgu, Lárus og Huldu Hrönn. Barnabörnin eru níu talsins og barnabarnabörnin tólf.
Stefán var mikilsvirtur bóndi og metnaðarfullur ræktandi á búfé. Hann setti svip sinn á ræktun íslenska hestsins og vert er að nefna að í girðingu til sín, heim að Hrepphólum, fékk hann tvo af máttarstólpum íslenskrar hrossaræktar þá Hrafn frá Holtsmúla og Sörla frá Sauðárkróki. Með því tryggði hann aðkomu sunnlendinga að þeim og þar komu undir margir frábærir gæðingar.
Úr ræktun hans að Hrepphólum komu mörg eftirtektarverð hross, skemmst er að minnast stóðhestanna Nasa, Gnýs og Hrynjanda. Sá síðastnefndi er þeirra hvað þekktastur en hann átti 429 afkvæmi og 123 þeirra með fullnaðardóm. Út af honum eru kominn mörg af úrvalshrossum samtímans, nægir því til stuðnings að nefna heiðursverðlauna hryssuna og landsmótssigurvegarann Eldingu frá Haukholtum, gæðingamóðurina og heiðursverðlaunahryssuna Eldingu frá Hóli og hinn margverðlauna töltara og heimsmeistara, Hnokka frá Fellskoti.
Blessuð sé minning Stefáns. Starfsmenn Eiðfaxa votta aðstandendum hans samúðar.