Nýting keppnisárangurs í kynbótamati

  • 12. apríl 2025
  • Aðsend grein Fréttir

Keppni á íslenskum hrossum er stór hluti af notkun þeirra og nýting keppnisgagna gefur verðmætar upplýsingar fyrir ræktunarstarfið Ljósmynd: úr safni Eiðfaxa

Spennandi nýjung í kynbótamati íslenskra hrossa: Nýting keppnisárangurs

Nú stendur til að nýta keppnisárangur hrossa í kynbótamati fyrir íslensk hross. Fram til þessa hefur kynbótamatið byggt eingöngu á kynbótadómum en framvegis mun það byggja bæði á þeim og keppnisárangri hrossa í völdum flokkum íþrótta- og gæðingakeppni. Hér fyrir neðan eru helstu punktar en nánari skýringar eru í textanum sem fylgir:

  • Keppnisgögn úr íþróttakeppni og gæðingakeppni verða notuð í kynbótamatinu ásamt kynbótadómum.
  • Dómar úr eftirfarandi keppnisgreinum verða nýttir:
    • Töltgreinum (T1, T3, T2 og T4),
    • Fjórgangsgreinum (V1, V2 og B-flokki),
    • Fimmgangsgreinum (F1, F2 og A-flokki) og
    • Skeiðgreinum (250 metra skeiði, 100 metra skeiði og gæðingaskeiði).
  • Keppnisárangur hrossa á alþjóðlegum mótum (e. World ranking) í fullorðinsflokki (meistaraflokki og 1.flokki), stórmótum í gæðingakeppni auk skeiðgreina verða nýtt.
  • Erfðafylgni á milli álíkra greina, eins og T1 og T2 og fjórgangs og B-flokks, er afar há og eru greinarnar því sameinaðar í ofangreinda fjóra keppniseiginleika.
  • Það að bæta keppnisgögnum við útreikning á kynbótamati eykur öryggi kynbótamatsins og gerir okkur kleift að birta kynbótamat fyrir árangur í keppni.
    • Því umfangsmeiri gögn = því meira öryggi kynbótamatsins.
  • Öryggi nýju keppniseiginleikanna verður birt en ávallt þarf að hafa í huga að nýta sér kynbótamatið með hliðsjón af öryggi matsins.
  • Arfgengi keppniseiginleikanna er á bilinu 27-29% og erfðafylgni þeirra við tengda eiginleika í kynbótadómi er afar há.
  • Arfgengi keppniseiginleika er lægra en arfgengi kynbótadóma sem er um 40% og er því mestur þungi á upplýsingar úr kynbótadómi við mat á kynbótamati.
  • Kynbótadómur er afar gott spágildi fyrir keppnisárangur og segir okkur mikið um mögulega nýtingu sýndra hrossa við ræktun keppnishrossa.
  • Nýtt kynbótamat verður birt í WorldFeng um 20. apríl.
Bakgrunnur

Þessi nýjung byggir á doktorsverkefni Elsu Albertsdóttur frá 2010 þar sem hún sýndi fram á háa erfðafylgni á milli metinna eiginleika í kynbótadómi og árangurs í keppni. Í lok ársins 2022 voru það svo dr. Þorvaldur Árnason og Gísli Guðjónsson (meistaranemi við Sænska Landbúnaðarháskólann) sem tóku það að sér að uppfæra niðurstöður og meta aftur arfgengi keppniseiginleika og erfðafylgni þeirra við eiginleika kynbótadómsins.

Arfgengi og erfðafylgni.

Arfgengi eiginleika segir til um hversu mikið þeir ráðast af erfðum (eiginleikar í kynbótadómi og keppni ráðast bæði af erfða- og umhverfisáhrifum). Það gefur því til kynna hversu mikið dómar segja okkur um kynbótagildi gripanna; eftir því sem það er hærra segja dómarnir okkur meira um kynbótagildið.

Arfgengi sameinaðra keppniseiginleika er á bilinu 0.27-0.29, það er því heldur lægra en arfgengi á aðaleinkunn í kynbótadómi (sem er um 0.4). Metið arfgengi keppniseiginleikanna segir okkur að þeir eru vel nýtilegir til mats á kynbótagildi. En vegna þess að arfgengi þeirra er lægra en kynbótadómsins verður meiri þungi á upplýsingar úr kynbótadómum í útreikningi á kynbótamati.
Erfðafylgni á milli tveggja eiginleika gefur til kynna að hvaða marki þeir stjórnast af sameiginlegum erfðavísum. Eftir því sem erfðafylgnin er hærri því meira ráðast eiginleikarnir af sameiginlegu erfðavísamengi.

Þegar erfðafylgni keppniseiginleika við eiginleika í kynbótadómi er skoðuð (sjá töflu) kemur í ljós að erfðafylgnin er afar há á milli sambærilegra eiginleika. Til dæmis er 93% erfðafylgni á milli Tölts í kynbótadómi og Töltgreina, þá er 92% erfðafylgni á milli Skeiðs og Skeiðgreina. Þá er áhugavert að sjá þá háu erfðafylgni sem Fegurð í reið hefur við hringvallargreinar og ljóst að sá eiginleiki er afar gott spágildi fyrir keppnisárangur. Af þessu má sjá að mikill ávinningur er að bæta keppnisgögnum við mat á kynbótagildi hrossa. Verðmætar viðbótarupplýsingar um þá eiginleika sem eru innifaldir í ræktunartakmarki íslenska hestsins munu bætast við núverandi kynbótamatskerfi.

Kynbótadómar Töltgreinar Fjórgangsgreinar Fimmgangsgreinar Skeiðgreinar
Tölt 0.93 0.90 0.85 0.36
Brokk 0.81 0.90 0.78 0.28
Skeið ≥ 5.5 0.35 0.22 0.79 0.92
Stökk 0.83 0.88 0.75 0.23
Fegurð í reið 0.95 0.93 0.91 0.42
Samstarfsvilji 0.90 0.88 0.91 0.71
Fet 0.19 0.53 0.47 0.06
Hægt tölt 0.96 0.95 0.82 0.17
Hægt stökk 0.76 0.86 0.60 -0.13

Erfðafylgni á milli eiginleika kynbótadóms og keppnisgreina. Afar há erfðafylgni er á milli álíkra eiginleika sem bendir til að kynbótadómurinn spái vel fyrir keppnisárangur hrossa og einnig hvað keppnisdómar bæta verðmætum upplýsingum við kynbótamatið. Hvernig gögnin verða nýtt.

Nýja kynbótamatið fyrir alla eiginleika í sköpulagi, hæfileikum, hæð á herðar, aðaleinkunn og aðaleinkunn án skeiðs og kynbótamat fyrir keppnisárangri mun byggja á nýtingu gagna úr kynbótadómum og fyrrgreindum keppnisflokkum. Svo dæmi sé tekið: þegar kynbótamat fyrir tölt er metið fyrir einstakling að þá eru upplýsingar nýttar úr eigin dómi, fyrirliggjandi dómum á foreldrum/forfeðrum og afkvæmum. En einnig eru nýttar upplýsingar um aðra eiginleika (tengda eiginleika) í gegnum erfðafylgni þeirra við tölt; hvort sem það eru aðrir eiginleikar sem eru metnir í kynbótadómi (brokk og skeið til dæmis) eða við þær keppnisgreinar sem ætlunin er að nýta í kynbótamatinu. Þannig eru keppniseiginleikarnir ekki vegnir inní matið með vægistuðlum heldur eru upplýsingar um þá nýttar inn í kerfið í gegnum erfðafylgni við eiginleika í byggingu og hæfileikum.

Hvað kynbótadómana varðar er einn dómur notaður við mat á kynbótagildi; hæsti aldursleiðrétti dómur einstaklings. Allir keppnisdómar einstaklings verða á hinn bóginn nýttir  og öryggi þeirra eykst upp að vissu marki með fjölda mælinga (skráðs keppnisárangurs). Þannig er öryggi kynbótamats keppniseiginleika hross sem hefur skráðan árangur í a.m.k. 4-5 mótum nánast sambærilegt við öryggi kynbótadóms, þrátt fyrir lægra arfgengi einstaks keppnisdóms.

Þá verður keppniseiginleikum bætt inn í Stóðhestaval og Valparanir í WorldFeng þannig að hægt er að fá uppröðun stóðhesta eftir kynbótamati þeirra fyrir valda keppniseiginleika. Það verður fengur að því, sérstaklega fyrir þá sem leggja mikla áherslu á ræktun hrossa til árangurs í keppni.

Mæting til dóms

Í núverandi kynbótamati er eiginleikinn mæting til kynbótadóms einungis skilgreindur fyrir hryssur en í nýju samþættu kynbótamati mun sá eiginleiki ná til beggja kynja og miðast við mætingu til kynbótadóms eða keppni. Öll hross sem eru orðin sex vetra þegar kynbótamatið er reiknað fá skráningu mætingareiginleikans; 0 (ekki mæting) eða 1 (mæting) og hafa þar með áhrif (neikvæð eða jákvæð) á kynbótamat sitt og skyldra hrossa. Áhrifin eru missterk fyrir einstaka eiginleika og ráðast aðallega af því hversu háa erfðafylgni þeir hafa við mætingareiginleikann. Mætingareiginleikinn hefur hátt arfgengi 0.4 og sterkustu fylgnina við samstarfsvilja, fegurð í reið, samræmi, tölt, brokk, háls-herðar og bóga, og stökk (0.39-0.56). Erfðafylgni mætingar og keppniseiginleika er 0.24. Rannsóknir hafa sýnt að mætingareiginleikinn gefur allgóða leiðréttingu fyrir forvali í gögnum sem annars mundi skekkja matið. Að kynbótahross geti af sér afkvæmi sem líkleg eru til að koma til dóms eða keppni segir ákveðna sögu um almenn gæði hrossanna og þær upplýsingar geta styrkt ræktunarstarfið og ákvarðanir ræktenda. Upplýsingar af þessu tagi eru m.a. notaðar við ræktun veðhlaupahrossa með góðum árangri.

Öryggi nýja kynbótamatsins

Öryggi kynbótamatsins, eftir að keppnisgögnum hefur verið bætt við, er að jafnaði að hækka um 10% ef einstök hross eru skoðuð. Að nýta keppnisgögnin bætir miklum upplýsingum um ganghæfni hrossa við núverandi mat. Gagnaskráin með keppnisgögnum eins og hún lítur út núna inniheldur 121,938 færslur fyrir samtals 19,921 hross. Öryggi þeirra hrossa sem hafa kynbótamat í dag sem byggir á litlum upplýsingum hækkar eðlilega mest. Ef afkvæmahestar eru skoðaðir sérstaklega, en kynbótamat þeirra byggir nú þegar á miklum upplýsingum, þá breytast þeir afar lítið í kynbótamati með viðbót keppnisgagna.
Varðandi röðun hrossa í nýja kynbótamatinu samanborið við núverandi mat – þá er fylgnin afar há eða um 99%. Breytingar á hrossum á milli núverandi mats og nýja matsins má sjá hérna fyrir neðan, þ.e. hversu mörg hross eru að hækka eða lækka í aðaleinkunn kynbótamatsins:

  • Hross með hækkun ≥ 5 stig 12,841 (2,97%)
  • Hross með hækkun ≥ 10 stig 1,685 (0,39%)
  • Hross með hækkun ≥ 15 stig 60 (0,014%)
  • Hross með lækkun ≥ 5 stig 8,849  (2,05%)
  • Hross með lækkun ≥ 10 stig 5  (0,001%)
  • Hross með lækkun ≥ 15 stig 0  (0,0%)
Dreifni kynbótamatsins

Ef dreifni nýja kynbótamatsins er skoðuð má sjá að hún dregst aðeins saman og er það eingöngu vegna þess hvernig nýja kynbótamatið er kvarðað. Þess vegna lækka flest hross aðeins í nýja matinu (um 2-3 stig).

Ávinningur

Eins og lesa má í grein þessari er ávinningur þess að bæta keppnisárangri við kynbótamatið afar mikill. Það bætast við verðmætar upplýsingar um ganghæfni og geðslag hrossa og hversu vel þau nýtast sem reiðhross almennt. Við fáum auk þess upplýsingar um mun fleiri hross en við gerum í dag og þar með eykst öryggi til muna. Þá bætast að sjálfsögðu við gagnlegar upplýsingar sem nýtast við ræktun keppnishrossa. Áfram er ráðgjöfin sú að flestar hryssur eigi að fara undir stóðhesta sem standa sig vel sem einstaklingar í kynbótadómi fjögurra, fimm eða sex vetra. Hraðastar erfðaframfarir nást með því enda segja þær upplýsingar okkur mest um kynbótagildi hrossa samanborið við aðrar upplýsingar. Þá er einboðið að velta fyrir sér möguleikanum að bæta við fleiri keppnisflokkum í framtíðinni til að ná til fleiri hestagerða; í raun að nýta keppnisárangur á enn breiðari grunni. Þegar fram líða stundir mætti einnig hugsa sér að nýta gögn um keppnisárangur til að skoða nánar endingu hrossa en í keppnisgögnum höfum við upplýsingar um frammistöðu mun eldri hrossa en algengt er í kynbótadómum. Þannig að það eru spennandi tímar framundan hvað kynbótamat íslenskra hrossa varðar.

Höfundar greinarinnar eru:

Þorvaldur Árnason búfjárerfðafræðingur í Svíþjóð
Gísli Guðjónsson, meistaranemi við Sænska Landbúnaðarháskólann
Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar