Opið bréf til Jóns Þ. Steindórssonar, formanns GDLH
Sæll Jón.
Með pistli þínum sem birtur var í Eiðfaxa 2. febrúar sl. dregur þú í efa heilindi stjórnar LH, nefndafólks, mótshaldara, íþróttadómara og ekki síst starfsfólks LH, og það eru býsna alvarlegar aðdróttanir sem ekki er hægt að láta ósvarað.
Hlutverk Keppnisnefndar LH og starfsmanns hennar, er m.a. að fjalla um mál sem stjórn LH vísar til hennar og hefur nefndin einnig frumkvæðisrétt að málefnum sem undir hana heyra. Nefndin skal einnig fara yfir skýrslur yfirdómnefnda og framkvæmdanefnda móta til glöggvunar og yfirsýnar á ágreiningsefnum sem upp kunna að koma svo og vandamálum sem verða á mótaframkvæmd.
Hlutverk Úrskurðar- og aganefndar er að úrskurða um brot á lögum og reglum LH á grundvelli mótsskýrslna frá yfirdómnefnd og ákvarða viðurlög í samræmi við reglur Úrskurðar- og aganefndar og lög og reglur LH. Heimilt er að kæra til Úrskurðar- og aganefndar ákvarðanir yfirdómnefndar um áminningar og keppnisbann.
Keppnisnefnd LH er fagnefnd skipuð meðal annars af Gæðingadómarafélagi LH, Hestaíþróttadómarafélagi Íslands og Félagi tamningamanna. Þá skipar stjórn fulltrúa úr sínum röðum auk þess sem nefndarmenn Íslands í Sportnefnd FEIF sitja í nefndinni, en yfirlit yfir nefndarmenn má sjá á heimasíðu LH.
Samkvæmt reglum um íþróttakeppni skal fjöldi dómara og hlaupagæslumanna í skeiðgreinum vera eftirfarandi á löglegum mótum:
- Í 100. m. skeiði þarf 4 dómara (mega vera íþrótta-, gæðinga- eða kynbótadómarar)
- Í 150 m. skeiði þarf 7 dómara (5 verða að vera með dómararéttindi og 2 mega vera hlaupagæslumenn)
- Í 250 m skeiði þarf 9 dómara ( 5 verða að vera með dómararéttindi og 4 mega vera hlaupagæslumenn)
- Í gæðingaskeiði þarf 6 dómara með dómararéttindi
Hlaupagæslumenn þurfa ekki að hafa dómararéttindi en skulu hljóta nauðsynlega þjálfun sem samþykkt er af LH. LH hefur hingað til ekki vottað þjálfun hlaupagæslumanna, en yfirdómarar hafa valið reynslumikið fólk til að sjá um hlaupagæslu, en það stendur til bóta. Námskeið í hlaupagæslu verður haldið í mars á vegum LH þar sem hlaupagæslumenn munu fá þá þjálfun sem þarf til.
Á WR-mótum gilda sömu reglur og á öðrum mótum um heildarfjölda dómara og hlaupagæslumanna í skeiðgreinum. Á WR mótum þurfa hins vegar þrír af dómurunum í öllum greinum að vera með alþjóðleg réttindi.
Vetrarleikar Sörla sem ganga undir nafninu „Sjóvámótaröð Sörla“ er í heild sinni ólögleg mótaröð, að meðtalinni greininni 100m skeið sem fór fram á þriðju vetrarleikum Sörla. Ónægur fjöldi dómara var við dómstörf (í 100m skeiði þarf 4 dómara en voru einungis 3), engin búnaðarskoðun fór fram og aðstæður samræmast ekki reglum um lögleg mót, enda eru vetrarmót hestamannafélaganna alla jafna haldin til gamans og er ekki ætlað að falla í flokk löglegra móta keppnisársins.
Við skoðun á mótsskýrslu í Sjóvámótaröð Sörla III voru keppnisnefnd LH og starfsmaður hennar, einfaldlega að sinna sínu hlutverki þegar farið var fram á að keppnisgreinin 100m skeið yrði skráð ólögleg í Sportfeng, eftir yfirferð á mótsskýrslu mótsins. Stjórn LH fjallaði um málið þann 7. júní 2023 og staðfesti að skeiðgreinin á Sjóvámótaröðinni væri ólöglegt mót. Eftir ábendingu formanns GDLH óskaði stjórn LH einnig eftir því að skrifstofa LH gengi úr skugga um að skráning dómara í skeiðgreinar á ákveðnum mótum væri rétt; Hafnafjarðarmeistaramóti Sörla, Íþróttamóti Spretts, Íþróttamóti Sleipnis og Hólamóti Skagfirðings og UMSS.
Mótastjóri og framkvæmdarstjóri LH ræddu við mótshaldara þeirra móta sem um ræðir og öfluðu upplýsinga um mönnun og framkvæmd greina á þessum mótum.
Dómarar á þeim mótum sem um ræðir voru þessir:
Hafnarfjarðarmeistaramót Sörla 4-7 maí
Brynja Viðarsdóttir
Hrefna María Ómarsdóttir
Sigríður Pjetursdóttir
Sigurður Kolbeinsson yfirdómari
Þórir Örn Grétarsson
Skeiðgreinar á mótinu voru PP1 (gæðingaskeið) og P2 (100 m skeið).
Opið íþróttamót Spretts 12-14 maí
Gunnar Eyjólfsson
Ketill Valdemar Björnsson
Ragnar Stefánsson
Sigurður Ævarsson yfirdómari
Svafar Magnússon
Svanhvít Kristjánsdóttir
Skeiðgreinar á mótinu voru PP1 (gæðingaskeið) og P2 (100 m skeið).
Jón Ólafur Guðmundsson var kallaður inn sem 6. dómari í gæðingaskeiði
Opið WR mót Sleipnis 17-21 maí
Alexander Sgustav
Friðfinnur Hilmarsson
Halldór Gunnar Victorsson yfirdómari
Karl Áki Sigurðsson (6. dómari í gæðingaskeiði)
Kristinn Bjarni Waagfjörð
Páll Briem
Skeiðgreinar á mótinu voru PP1 (gæðingaskeið), P2 (100 m skeið), P1 (250 m skeið) og P3 (150 m skeið).
Hlaupagæslumenn voru auk dómara í 150 og 250 m skeiði.
Hólamót 19-21 maí
Ann Winter
Heimir Þór Guðmundsson
Hinrik Már Jónsson yfirdómari
Pia Andreasson
Þórir Magnús Lárusson
Skeiðgreinar: P1 (250 m), P2 (100 m), P3 (150 m) og PP1 (gæðingaskeið)
Egill Már Vignisson var kallaður inn sem 6. dómari í gæðingaskeiði.
Hlaupagæslumenn voru auk dómara í 150 og 250 m skeiði.
Það er ljóst að mótshaldarar ofangreindra móta hafa staðið rétt að framkvæmd greinanna í þessum tilgreindu mótum að því undanskildu að sjötti dómari virðist ekki hafa verið í gæðingaskeiði í Hafnarfirði, sem ógildir þá keppnisgrein á mótinu. Aftur á móti er skráningu dómara og starfsmanna í mótaskýrslum oft á tíðum ekki sinnt á nægilegan hátt. Til dæmis hefur það tíðkast hjá mótshöldurum að skrá einungis einn dómara á skýrslu í 100m skeiði til þess að þurfa ekki að slá inn tímana í öll dómsæti en það þykir tímafrek handavinna í skeiðgrein sem gengur hratt fyrir sig. Námskeið á vegum LH verður haldið í mars þar sem farið verður yfir það hvernig skuli fylla út mótsskýrslur.
Það að mótsskýrsla í Sportfeng sé ekki útfyllt á fullnægjandi hátt gerir ekki keppnisgrein ólöglega. Það er fullkomlega eðlilegt að fara fram á við mótshaldara að lagfæra mótsskýrslu þannig að hún sé í samræmi við hvernig mótið fór fram enda á mótsskýrsla að varpa ljósi á framvindu mótsins og eru mörg dæmi um að slíkt hafi verið gert ef ljóst þykir að mótsskýrsla er ekki útfyllt á fullnægjandi hátt.
Af skrifum þínum er erfitt að ráða hver á að hafa orðið fyrir og/eða hagnast á meintum brotum starfsmanna og sjálfboðaliða LH og hvaða annarlegu hagsmunir eiga að hafa þar ráðið för. Þá er ekki gott að átta sig á því hvaða brot á aga- og siðareglum eiga að hafa átt sér stað. Erfiðast er þó að átta sig á tilgangi þess að koma fram með svo alvarlegar ásakanir.
Höfundur er Berglind Karlsdóttir, framkvæmdastjóri LH, f.h. stjórnar LH.