Opið bréf til stjórnar Meistaradeildarinnar

  • 16. september 2020
  • Fréttir

Við undirrituð óskum hér með eftir skýrum svörum frá stjórn Meistaradeildar um það hvaða reglur gilda og hvernig útreikningum er háttað þegar keppnislið eru valin í deildina.

Forsaga málsins er sú að við, lið Sportfáka/Austurkots, skipað knöpum með góðan árangur síðustu tveggja ára eins og farið var fram á, lögðum inn umsókn í MD fyrir komandi tímabil. Svar stjórnarinnar var, að samkvæmt hennar útreikningum væri lið okkar með lakari árangur heldur en neðsta lið síðasta tímabils. Okkar liði var sum sé hafnað eins og fram kemur í eftirfarandi svari stjórnar:

„Eftir að stjórn Meistaradeildarinnar hefur farið vandlega yfir árangur knapa og gefið stig í kjölfarið kom annað liðið betur út. Stjórn Meistaradeildar hefur tekið þá ákvörðun að lið Ganghesta/Austurás fær keppnisrétt á næsta tímabili. Stjórnarmeðlimir fóru yfir árangur knapa, reynslu og fjölhæfni. Litið var til árangurs knapa síðustu tveggja ára, einstaka einkunnir og heildarniðurstöður. Hver stjórnarmeðlimur mat hvern knapa fyrir sig og gaf honum stig. Í lokin voru stigin talin saman og varð annað liðið stiga hærra.“

Þarna, og í öðrum sams konar tilvikum hefði stjórn MD átt að senda viðkomandi liði sem talið var vera með færri stig en neðsta lið deildarinnar þá útreikninga sem sagðir eru hafa farið fram og rökstuðning með niðurstöðunni. Þá hefði hún legið kristaltær fyrir umsækjendum. Það var ekki gert. Því förum við fram á að okkar liði verði sendir bæði útreikningar og rökstuðningur fyrir umræddum niðurstöðum. Til dæmis væri athyglisvert að sjá útreikninga stjórnar á „fjölhæfni“ knapa.

Þess í stað voru þær upplýsingar sem við fengum frá stjórn því miður mjög misvísandi um það hvernig reglur deildarinnar meta inn nýtt lið. Fyrst var okkur sagt að það færi fram umspil á milli umsækjenda og neðsta liðs. Nokkrum dögum síðar var okkur sagt að það yrði ekki umspil heldur yrðu liðin metin af stjórn MD og að það væru tvö neðstu lið í pottinum ásamt nýjum umsækjendum.

Enn á ný komu upplýsingar frá stjórn og þá snerist þetta eingöngu um neðsta liðið og nýja umsækjendur.

Það hlýtur að vera krafa, ekki bara knapa sem hyggja á umsókn til inngöngu í MD heldur hestafólks alls, að reglur deildarinnar í þessum efnum séu skýrar, sýnilegar og gagnsæjar. Með öðrum orðum; Meistaradeildin verður að vera hafin yfir allan vafa.

Markmið stjórnar hennar hlýtur að vera að þar keppi þeir bestu hverju sinni. Að deildin sé hvati fyrir knapa til að komast í hana, halda sér inni og vinna sig upp.

Því er óskað skýrra svara stjórnar MD við eftirfarandi spurningum lið fyrir lið:

* Hvaða aðferð var notuð við matið ?
* Hvaða reglur eru um hvernig liðin sem sækja um eru borin saman og með hvaða aðferð er árangur liðanna metinn?
* Liggja ávallt fyrir útreikningar stjórnar í matinu?
* Hvenær var sett regla sem segir að það skuli vera 2 ár sem eru metin varðandi keppnisárangur?
* Hvernig ætlar deildin að haga upplýsingum til umsækjenda til framtíðar litið?

Við bendum jafnframt á að nauðsynlegt er að birta umræddar reglur opinberlega í miðlum sem fjalla um hestamennsku svo knapar/ lið viti að hverju þau ganga áður en sótt er um inngöngu í deildina. Það er óljóst nú.

Virðingarfyllst.
Snorri Dal
Páll Bragi Hólmarsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar