Fjórðungsmót Austurlands Planaðu Fjórðungsmótið rétt

  • 26. mars 2023
  • Fréttir
Fjórðungsmót Austurlands er haldið við Egilsstaði dagana 6. – 9. júlí í sumar.

Mótshaldarar hafa lofað góðu veðri þess daga og því ekki seinna vænna fyrir hestafólk um allt land að undirbúa sig vel strax fyrir ferðalagið.

Mótssvæðið í Stekkhólmi er staðsett 12 kílómetra frá Egilsstöðum. Mikilvægt er að kynna sér strax hvaða gistimöguleikar eru í boði, því viðbúið er að eftirspurn verði mikil á þessum tíma vegna aukins ferðamannastraums á ný eftir kórónuárin.

Fyrsti möguleikin á gistingu er að sjálfsögðu gamla góða tjaldið, en í Stekkhólma félagssvæði Freyfaxa eru ágætis tjaldstæði með pláss fyrir mikinn fjölda. Hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar eru að sjálfsögðu algengari og að sjálfsögðu nóg pláss fyrir þau líka. Tjaldstæði á mótssvæðinu eru mjög hagkvæm lausn enda innifalið í miðaverði.
Fyrir utan tjaldstæðið í Stekkhólma eru prýðistjaldstæði í grenndinni, sem hægt er að bóka fyrirfram. Brögð hafa verið á því á heitum sumrum að uppselt hefur verið á betri tjaldstæðunum á Fljótsdalshéraði og því betra að plana fram í tímann.

– Á Egilsstöðum 12km er prýðistjaldstæði sem hægt er að bóka fyrirfram á www.tjalda.is
– Í Hallormsstað sem er jafn langt frá mótssvæðinu í hina áttina er einnig rómað tjaldstæði sem einnig er hægt að bóka fyrirfram. Svo mætti nefna aðra nálæga staði eins og Mjóanes, Stóra Sandfell og Skipalæk.

Félagar í hinum ýmsu Verkalýðsfélögum og starfsmannafélögum gætu einnig kannað með möguleika á sumarbústað á Fljótsdalshéraði í eigu orlofsdeilda. Hótel, gistihús og íbúðaeiningar á ferðamannamarkaði eru þegar mikið umsetnar og því ráðlegt fyrir þá sem hafa huga á að næla sér í gistingu á þeim markaði að vera með mjög vakandi auga. Að sjálfsögðu er hægt að vakta bændagistingu, airbnb, booking, expedia og allar þær bókunarþjónustur sem eru í boði. Sérstakur gistifulltrúi hefur verið tilnefndur af framkvæmdanefnd Fjórðungsmóts og ef einhverjar spurningar, upplýsingar eða sem hægt er að veita varðandi gistingu mun sá aðili svara því samviskusamlega – endilega hafið samband í gegnum netfangið fm@freyfaxi.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar