Prófgráða frá Háskólanum á Hólum lítils metin í Þýskalandi?

  • 2. mars 2020
  • Fréttir

Óðinn frá Habichtswald var glæsilegur fulltrúi Þýskalands á HM 2019 Ljósmynd: Sofie Lahtinen Carlsson

Í byrjun mars verður haldið alþjóðlegt námskeið fyrir nýja kynbótadómara á vegum FEIF. Hvert aðildarland hefur rétt á því að senda tvo fulltrúa í prófið. FEIF gerir ákveðnar kröfur til allra þátttakenda. „Þær kröfur sem gerðar eru til menntunar eru BS-gráða í búvísindum, hestafræði eða dýralækningum, reynsla af þjálfun hrossa og að umsækjendur hafi lokið áfanga í kynbótadómum“ (sjá frétt Eiðfaxa, 13.11.2019). 

Þó er hverju landi frjálst að velja sína fulltrúa samkvæmt eigin reglum til að tryggja að hæfustu umsækjendurnir verði fyrir valinu. Á Íslandi var t.d. lagt fyrir úrtökupróf þar sem aðeins þeir tveir hæstu fengu innangengt á námskeiðið. En svo virðist vera að mikið ósamræmi sé á milli landa hvernig þetta val fer fram.

Tveimur umsækjendum frá Þýskalandi var neitað um þátttökurétt á námskeiðinu þrátt fyrir að þeir uppfylli allar kröfur sem gerðar eru frá FEIF. Báðir umsækjendur eru útskrifaðir með BS gráðu frá Háskólanum á Hólum og hafa unnið við tamningar og þjálfun hér á landi í fjölda ára.

Þegar þeir sóttu um í haust hjá IPZV (Íslandshesta samtökin í Þýskalandi) um þátttökurétt sótti IPZV um framlengingarfrest hjá FEIF til að þess athuga málið og ræða við stjórnina um það hvort umsækjendurnir uppfylltu kröfur IPZV, en samtökin setja upp sérskilyrði fyrir þáttöku þar sem umsækjendum er gert að hafa unnið sér inn dómararéttindi í Þýskalandi fyrir unghross (IPZV material judge) til þess að verða gjaldgengir á alþjóðleg námskeið fyrir kynbótadómara.

Niðurstaðan var sú að umsókn þeirra beggja var samþykkt á endanum þar sem námið við Hólaskóla uppfyllir allar kröfur fyrir FEIF.

Þýska kerfið er umfangsmikið og erfitt að greina því skil en til þess að öðlast dómararéttindi í stuttu máli þarftu að sitja tvö tveggja daga námskeið og eitt þriggja daga námskeið og ljúka síðan verknámi og aðstoða á einni kynbótasýningu. Til þess að verða gjaldgengur til þess að sitja þessi námskeið þarftu að hafa öðlast annaðhvort „Þjálfari B“ eða „Gull reiðmennskumerki“ sem er veitt af IPZV en það er eitthvað ákveðið samansafn af námskeiðum.

Myndin sýnir menntunaskal IPZV. Mynd: Fenginn af heimasíðu IPZV

Eðlilega var veitt undanþága þar sem Bakkalárnám við Háskólann á Hólum er viðameira og ítarlega en nokkur helgarnámskeið út í Þýskalandi. Einnig hafa umsækjendurnir sótt námskeið og leiðbeiningar frá knöpum í fremstu röð hér á Íslandi. Báðir umsækjendurnir fengu heimild og skráðu sig á námskeiðið hjá FEIF og greiddu skráningargjöldin um 150 þúsund krónur.

En núna í Janúar, nánar tólf dögum eftir að endanlegi skráningarfresturinn hjá FEIF rann út, fengu báðar aðilar tölvupóst þar sem þeim var tilkynnt það að stjórn IPZV hafi endurskoðað málið og dregið samþykki sitt til baka. Þýsku samtökin komust að þeirri niðurstöðu að nám þeirra á háskólastigi væri ekki nægjanlegt til þátttöku og undanþágan felld úr gildi og umsækjendum gert skylt að hafa unnið sér inn dómararéttindi í Þýskalandi fyrir unghross (IPZV material judge) til þess að vera gjaldgengir á alþjóðleg námskeið fyrir kynbótadómara.

Maður spyr sig hvernig þetta getur haft meira vægi heldur en þriggja ára háskólanám undir handleiðslu nokkurra af færustu og virtustu reiðkennara innan Íslandshesta heimsins auk nokkurra áfanga sem snúa sérstaklega að kynbótadómum, kynbótafræði og kynbótasýningum.

Báðir umsækjendurnir eru ekki lengur með lögheimili í Þýskalandi þar sem þeir eru búsettir hér á landi og ekki á dagskránni að flytja aftur út á næstunni. Það er ekki hægt fyrir þá að nálgast þessa auka menntun sem IPZV talar um nema að flytja aftur út í lengri tíma, sem mundi þýða að þeir þyrftu að hætta í sínu starfi hér á landi auk þess að leggja út fyrir miklum aukakostnaði sem flutningunum og atvinnumissi fylgja.

En allt þetta sem nefnt er hér á undan dugar IPZV ekki til þess að veita þeim undanþágu – sem samkvæmt IPZV á að vera til. Það er spurning hvað þarf til þess að fá þessa undanþágu en það var ekki hægt að fá upplýsingar um það.

Það sem er mjög erfitt að skilja er að þessum tveimur er hafnað að fara á námskeiðið en samnemendum þeirra sem luku námi í Hólaskóla frá öðrum löndum FEIF, t.d. Austurríki, Svíþjóð eða Ítalíu, mega fara. Þegar þessir umsækjendur ljúka námskeiðinu mega þeir síðan fara og dæma kynbótasýningar í Þýskalandi. Hvernig getur það verið að IPZV leyfi ekki sínum eigin félögum að ná sér í þessa frekari menntun? Af hverju ætti maður sem Þjóðverji að mennta sig við Háskólanum á Hólum ef það kemur manni síðan ekkert á framfæri og er greinilega ekki metið neitt í Þýskalandi?

Hvernig getur það verið að FEIF haldi alþjóðlegt námskeið en leyfir síðan löndunum að velja eða hafna umsækjendum eins og þeim sýnist, þó að þeir uppfylli kröfur FEIF og þó það sé pláss á námskeiðinu? Þar sem það er alþjóðlegt námskeið fyrir alþjóðleg réttindi er það spurning af hverju það eru ekki bara til alþjóðlegar reglur og kröfur frá FEIF sem gilda.

Auðvitað er það skiljanlegt að hvert land þarf að hafa einhverskonar kerfi til þess að finna sína bestu fulltrúa. En það ætti að vera eitthvað sem er réttlætt, eins og að fara í próf til þess að sigta úr þeim bestu.

Fyrir þessa tvo Þjóðverja er bara tvennt í stöðinni til þess að fá tækifærið til að ná sér í þessa auka menntun; það er að flytja aftur út í lengra tíma eða bara hreinlega að skipta um ríkisborgararétt. Er það eðlilegt?

 

 

 

Pistlahöfundur er Hanifé Müller-Schoenau annar af umsækjendum

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar