„Ræktunin stækkar jafnt og þétt“

  • 7. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við Ólaf Ásgeirsson

Það hefur ekki farið framhjá mörgum hestamanninum en á Sumarliðabæ 2 í Ásahrepp hefur farið fram gríðarleg uppbygging síðustu árin. Eigendur Sumarliðabæjar eru þau Birgir Már Ragnarsson og Silja Hrund Júlíusdóttir en ábúendur eru Ólafur Ásgeirsson ásamt fjölskyldu sinni og Þorgeir Ólafsson og Birgitta Bjarnadóttir ásamt syni þeirra.

Sumarliðabær 2 er 300 ha. jörð þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar en á bænum eru stórt og rúmgott hesthús, reiðhöll og hringvöllur. “Það eru oftast 35 til 40 hross á húsi og er útigangurinn um 60 hross. Fyrstu hrossin sem eru ræktuð héðan eru frá 2014 en það var ekki stór árgangur. Búið er að bæta við hryssum og ræktunin hefur stækkað jafnt og þétt en í dag erum við að fá um 12 folöld á ári,” segir Ólafur sem er bústjóri á búinu.

Ræktunarhryssur á staðnum eru þær Bylgja (8,45) og Flauta (8,40) báðar frá Einhamri, Anastasía frá Svarfholti (8,62), Spes frá Vatnsleysu (8,44), Þyrnirós frá Þjóðólfshaga (8,33), Sál frá Ármóti (8,35), Alrún frá Langstöðum (8,03), Leia frá Sumarliðabæ 2 (8,34) og Kilja frá Minni-Völlum (8,13). “Síðan á Sumarliðabær helming í nokkrum hryssum þ.á.m. Landsmótssigurvegaranum Völu frá Garðshorni á Þelamörk (8,39), fyrrum Landsmótssigurvegara í B-flokki Kjarnorku frá Kálfholti (8,48), List frá Efsta-Seli (8,36), Dimmu frá Hjarðartúni (8,56), Fold frá Flagbjarnarholti (8,73) og Silkisif frá Hestklett (8,37),” bætir Ólafur við en í sumar héldu þau þessum hryssum þá Þráinn frá Flagbjarnarholti, Spuna frá Vesturkoti, Sindra frá Hjarðartúni, Fróða frá Flugumýri og Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum.

Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2 og Ólafur Ásgeirsson

“Við erum með mörg góð tryppi á járnum en ef ég ætti að nefna einhver þá eru það þær Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2, Aþena frá Þjóðólfshaga, Rauðhetta frá Þorlákshöfn, Nóta og Líf frá Sumarliðabæ 2 og þá Hjaltalín og Skugga frá Sumarliðabæ 2,” segir Ólafur inntur eftir því hvað sé spennandi á járnum hjá þeim.

Aþena frá Þjóðólfshahaga og Birgitta Bjarnadóttir

“Hápunktur ársins hjá okkur er tilnefning til ræktunarbús ársins. Einnig var mjög gaman að fylgjast með hrossum ræktuðum og í eigu búsins standa sig mjög vel í ár. Þær Auðlind frá Þjórsárbakka, Anastasía frá Svarfholti, Mjallhvít frá Sumarliðabæ 2 og Aþena frá Þjóðólfshaga stóðu sig allar frábærlega og Vala frá Garðshorni sem sigraði fjögurra vetra flokkinn á Landsmótinu,” segir Ólafur að lokum.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar