Reyni að halda í gamla stofninn

  • 21. mars 2021
  • Fréttir
Viðtal við Jón Elvar Hjörleifsson

Jón Elvar Hjörleifsson er hrossaræktandi á Hrafnagili í Eyjafirði.

Aðspurður segir Jón Elvar að veðrið sé alltaf gott fyrir norðan, eins og lógóið hjá þeim í „Stallion North“ gefi til kynna.

„Við höfum sent frá okkur nokkur tryppi í tamningu og þjálfun í vetur. Tamningarmennirnir Tryggvi Björnsson, Egill í Hvalnesi, Egill í Skriðu og Hans þór Hilmarsson og Arnhildur eru með eitt hver. Svo eru einhver í sameign sem eru í þjálfun annars staðar.“

Brúnstjarna frá Hrafnagili

Hástíg frá Hrafnagili

Ræktunin á Hrafnagili
Jón Elvar talar um að 1. verðlauna hryssan Hástíg frá Hrafnagili beri af þeim hrossum sem eru í þjálfun frá búinu í vetur. Hún er hátt dæmd klárhryssa með sex níur fyrir hæfileika, undan Blæ Forsetasyni og Perlu frá Hrafnagili. „Hún er í léttri þjálfun á Skriðu en er búin að vera hjá meistara Leó Geir síðustu ár og stefnan er að halda henni snemma í vor. Annars bind ég sérstakar vonir við gráa hryssu, Hraunu frá Hrafnagili, 4v hryssu undan Söru og Hrímnir frá Hrafnagili. Tryggvi Björnsson er með þessa hryssu á Björgum í vetur. Það er best að segja ekkert meira, enda hógvær maður.“

Hrauna frá Hrafnagili á 4 vetur

Þau folöld sem komu síðasta sumar voru undan Auð frá Lundum II og segir Jón Elvar að þau séu gullfalleg og sömu sögu má segja um tryppin undan Dagfara frá Álfhólum. „Svo fengum við flotta hryssu undan Söru frá Víðinesi og Auð og líka fallega hesta undan Dögun frá Blönduósi og Gígju frá Búlandi. Síðast en ekki síst fengum við hestfolald sem kom undan Auð og Hrymdísi í september í fyrra.“

Auðsdóttir fædd 2020 undan Söru Víðinesi

Auðssonur fæddur 2020 undan Dögun frá Blönduósi

Þeir stóðhestar sem voru notaðir á búinu í fyrrasumar voru Hnokki frá Eylandi, sem var mikið notaður „sá úrvalshestur“ að sögn Jóns Elvars, Þór frá Torfunesi, Hannibal frá Þúfum og Nói frá Saurbæ.
„Næsta sumar langar mig að nota Hraunar frá Hrafnagili, undan Loka frá Selfossi og Söru frá Víðinesi Þokkadóttur. Fenrir frá Feti, Kjerúlf frá Kollaleiru, Organista frá Horni, Ljósvaka frá Valstrýtu en þrír þeir síðastnefndu verða á okkar vegum hjá Stallion North, stóðhestamiðlun Norðurlands.“

Hraunar ungfoli undan Söru og Loka

Markmið
Það er nauðsynlegt að hafa skýr markmið með sinni ræktun og Jón Elvar er með sínar áherslur:
„Ég legg mesta áherslu á fótaburð og fas, háar herðar og gott geðslag. Ég þoli yfirleitt ekki 4wd skriðdrekahross. Þau eiga að setjast á rassinn. Annars er þetta allt gott í bland. Flestar mínar hryssur eru alhliða þó ég noti oftast klárhesta. Annars er ég að reyna að halda í gamla stofninn hér á Hrafnagili sem Hjalti Jósefsson og Pálína áttu. Flottustu hryssurnar mínar eru allar af þeim stofni, til að mynda Sara frá Víðinesi 8,29, Hástíg undan Blæ með 8,07, Fífa 8,11 undan Blæ Sörusyni, Klettagjá með 8,22 sem klárhryssa (Auðsdóttir). Allar eru þær með 9,0 fyrir hægt tölt og allar undan hryssum frá Hjalta og Pálínu og meistari Leó Geir Arnarson er búinn að vera mér betri en enginn í þessu. Hann sýndi bæði Hástíg og Klettagjá og það er mjög gaman að spjalla við hann um hrossarækt.“

Fold Fenrisdottir

Fenja Fenrisdottir

Að lokum: „Fenrir frá Feti er yfirburðahestur og eini hesturinn sem ég sé eftir úr landi.“

Fenrir frá Feti og Árni Björn Pálsson

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar