Ritstjórapistill úr Eiðfaxa Vetur
Það er í raun merkilegt að Eiðfaxi hafi lifað í tæpa fimm áratugi. Rekstrarumhverfi prentmiðla hefur verið alls konar og nú á síðustu árum er rekstur prentmiðla orðinn þannig að hver prentmiðillinn á fætur öðrum þarf að lúta í gras.
Hér er Eiðfaxi þó mættur með fyrsta tímarit ársins, Eiðfaxa vetur. Þar fáum við að kynnast ferðalagi Söru Sigurbjörnsdóttur og Flóka frá Oddhóli sem afrekuðu það að vinna heimsmeistaratitil í fimmgangi, titil sem hafði ekki farið til Íslands í 16 ár. Hestamannafélagið Sörli varð 80 ára á þessu ári og fá lesendur smá innsýn inn í starfsemi félagsins sem er í mikilli sókn.
Hinrik Bragason er flestum hestamönnum kunnur og hefur margann gæðinginn setið. Hann fer með lesendur aftur í tímann þar sem hann rifjar upp gamla tíma og sögur um gamlar hetjur. Við minnumst Vignis Jónassonar og Loka frá Selfossi. Hægt er að lesa niðurstöður Sigurðar Antons Péturssonar sem rannsakaði frjósemi íslenskra hrossa og einnig ferðasögu Huldu Maríu Sveinbjörnsdóttur sem ferðaðist til Ameríku til að kynna sér aðrar reiðmennskuhefðir.
Framtíð Eiðfaxa á að vera björt en í hvaða formi það verður mun tíminn leiða í ljós. Það er mín skoðun að mikill missir væri ef að geirfuglinn í íslenskri hestablaðamennsku hyrfi og ekkert efni um íslenska hestinn væri gefið út hér á landi. Í dag er Eiðfaxi bæði prent- og vefmiðill og má segja að Eiðfaxi standi einn eftir á markaði fagtímarita sem fjalla um hrossarækt en áður hafa verið gefin út blöð eins og Hesturinn okkar, tímaritið Hestar og dagblaðið Hestar og hestamenn en þessi síðustu tvö sameinuðust útgáfu Eiðfaxa á sínum tíma. Eiðfaxi stendur fremstur af vefmiðlum sem fjalla einvörðungu um íslenska hestinn en sem dæmi var vefurinn með rúma 35.000 lesendur og yfir 380.000 flettingar í janúar.
Eiðfaxi hlýtur styrk sinn af velvild þeirra sem lesa hann og auglýsenda sem koma vöru sinni og þjónustu á framfæri. Áskrifendahópur blaðsins hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár og viljum við Eiðfaxamenn byrja nýtt ár á því að koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem unnið hafa fyrir blaðið í gegnum 47 ára sögu þess, velunnurum blaðsins og ekki síður áskrifendum sem haldið hafa mikilli tryggð við blaðið í gegnum tíðina.
Eiðfaxi Vetur ætti að vera kominn til allra áskrifenda. Hægt er líka að lesa blaðið HÉR