Rúmlega 9 milljónir söfnuðust á Stóðhestaveislunni
Stóðhestaveisla Eiðfaxa er orðin árlegur viðburður og í ár var hún haldin 16. apríl í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli. Viðburðurinn hefur notið mikilla vinsælda og eins og síðustu ár hafa færri komist að en vilja.
Sú hefð hefur skapast að ágóði af Stóðhestaveislunni hefur verið látinn renna til góðgerðarmála og hægt væri að birta langann lista yfir góðgerðarsamtök sem notið hafa velvilja þeirra sem sótt hafa Stóðhestaveisluna á undanförnum árum.
Stóðhestaveislan í ár var engin undantekning. Að þessu sinni var hún tileinkuð börnunum og ekkjunni á Syðri – Hömrum í Rangárvallasýslu sem misstu föður sinn og eiginmann, Guðjón Björnsson, í hörmulegu slysi fáeinum vikum áður. Stuðningur hestafólks og fyrirtækja sem tengjast hestaheiminum sem og annarra var að þessu sinni hreint ótrúlegur. Þessi mikli stuðningur við fjölskyldu Guðjóns sýnir enn og aftur hvað við sem samfélag stöndum saman og erum tilbúin til að leggja af mörkum þegar sárir og hörmulegir atburðir verða. Í ár söfnuðust 9.360.000 kr.
Fjöldinn allur af frábærum hrossum komu fram á Stóðhestaveislunni og þökkum við ræktendum, eigendum og knöpum þessara hrossa fyrir velvildina en án þeirra hefði sýningin aldrei orðið að veruleika. Við viljum einnig þakka öllum þeim sem keyptu sér miða á veisluna, lögðu til frjáls framlög í söfnunina eða komu að söfnuninni með öðrum hætti.