Sær frá Bakkakoti felldur í morgun

  • 26. apríl 2024
  • Fréttir

Sær frá Bakkakoti knapi: Þórður Þorgeirsson

Sær frá Bakkakoti var felldur í morgun 27. vetra að aldri

„Sær var heygður við hliðina á móður sinni Sælu á þeim sama bletti og ég sá hann koma í heiminn,“ segir Ársæll Jónsson ræktandi hestsins.

Sær er einn af merkilegri stóðhestum þessarar aldar og hefur í gegnum afkomendur sína fest sig í sessi sem einn af burðarstólpum íslenskrar hrossaræktar. Í honum sameinast tveir af þeim stóðhestum sem einna mest létu að sér kveða á síðari hluta síðustu aldar þeir Orri frá Þúfu í Landeyjum, sem er faðir Sæs, og móðurfaðir hans Ófeigur frá Flugumýri. Sæla frá Gerðum, móðir Sæs, var afar athygliverð hryssa og óvenju hágeng miðað við það sem þá þekktist.

Sær kom fyrst fram í kynbótadómi fjögurra vetra gamall þá sýndur af Hafliða Þ. Halldórssyni og hlaut þá strax 1.verðlaun. 7,83 fyrir sköpulag, 8,23 fyrir hæfileika og 8,07 í aðaleinkunn. Hlaut hann m.a. 9,0 fyrir tölt, hægt tölt og vilja og geðslag. Hann varð annar í flokki fimm vetra stóðhesta á Landsmóti árið 2002 með 8,28 í aðaleinkunn þá einnig sýndur af Hafliða.

Um Sæ hafði Hafliði þetta að segja í viðtali við Eiðfaxa: Verkin tala sínu máli fyrir Sæ í gegnum afkomendur hans og þá dóma sem hann hlaut. Þetta var gæðingur frá fyrsta skrefi. Hann skilur eftir sig djúp spor í ræktunarsögu íslenska hestins um gjörvallan heim.“

Þórður Þorgeirsson sýndi hann svo þrisvar sinnum í kynbótadómi og hæsta dóm hlaut hann árið 2006 á Héraðssýningu á Glaðheimum. Þar hlaut hann 7,96 fyrir sköpulag, 9,05 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,62. Hlaut hann þá m.a. 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið og fegurð í reið og 9,5 fyrir vilja og geðslag.

Þórður lýsir Sæ á eftirfarandi hátt. Ég var búinn að sjá Sæ sýndan af Hafliða og  fannst heilmikið til hans koma. Það er samt ekki fyrr en ég kom á bak honum sem ég áttaði mig á því hvurslags gæðingur hann var. Þetta var úrvals reiðhestur en þegar maður setti hann í gírinn þá gerðist ansi mikið. Það er meitlað í minnið sýning mín á honum í Kópavogi og ég segi það óhikað að hann er einn af albestu hestum sem ég hef verið með. Það sem ég tel að hann hafi bætt í hrossastofninum eru töltgæði og það sést best á þeim fjölmörgu afkomendum hans.“

Þórður á Sæ og Hafliði á syni Sæs, Ás frá Ármóti í afar eftirminnillegum skeiðspretti á Landsmótið árið 2006.

Á Landsmóti árið 2006 stóð Sær efstur stóðhesta með 1.verðlaun fyrir afkvæmi og á Landsmóti árið 2008 varð hann annar í röð heiðursverðlauna stóðhesta fyrir afkvæmi. Í afkvæmaorðum hans segir m.a.  „Gæðingskostir eru ótvíræðir, afkvæmin eru harðviljug og getumikil.“

 

Sær hlaut heiðursverðlaun á LM2008

Samkvæmt WorldFeng átti Sær 937 afkvæmi og þar af 255 sem hlotið hafa fullnaðardóm. Fimm hæst dæmdu afkvæmi hans eru eftirfarandi:

Nafn Aðaleinkunn
Arion frá Eystra-Fróðholti 8,91
Sægrímur frá Bergi 8,75
Sjóður frá Kirkjubæ 8,70
Haukdal frá Hafsteinsstöðum 8,64
Spá frá Eystra-Fróðholti 8,63

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar