Sannkölluð hestaveisla framundan

Það má með sönnu segja að ein stærsta hestaveisla vetrarins sé framundan en dagana 13.-15. apríl næstkomandi verða þrír stórir hestaviðburðir á Suðurlandi sem tilvalið er fyrir hestaáhugamenn að sækja. Ákveðið hefur verið að færa lokamót Meistaradeildar Líflands fram um einn dag og verður því keppt í tölti og skeiði í gegnum höllina föstudagskvöldið 14.apríl og lokamót Uppsveitadeildarinnar færist þá yfir á fimmtudaginn 13. apríl þegar einnig verður keppt í tölti og skeiði í gegnum höllina og krýndir verða sigurvegarar deildanna.
Með þessu er verið að hleypa að einni af skemmtilegustu reiðhallasýningu ársins, Stóðhestaveislunni, á laugardagskvöldinu 15. apríl þar sem við munum eflaust fá að sjá úrval af bestu gæðingum landsins.
Það má því búast við því að hestamenn munu hafa úr nógu að velja þessa daga til að svala þorsta hestaáhugans. Við hvetjum auðvitað alla til að mæta í hallirnar, sjá bestu hestana, hittast og fá stemminguna beint í æð.
Búast má við hörku keppni á lokakvöldum deildanna því barist v erður fram á síðasta dropa um það hver og hvaða lið mun standa uppi sem sigurvegarar eftir virkilega skemmtilegar og spennandi keppnir í vetur.
Þessu verður svo lokað með sýningu á laugardagskvöldinu í HorseDay höllinni með Stóðhestaveislunni sjálfri. Stóðhestaveislan hefur verið einn stærsti og vinsælasti innanhúsviðburður síðustu ár og verður engin svikinn af því að mæta í HorseDay höllina.
Kæru hestamenn, takið dagana frá. Nánari upplýsinga um viðburði má vænta þegar nær dregur.
- Fimmtudaginn 13 apríl Uppsveitadeildin Flúðum
- Föstudaginn 14. apríl Meistaradeild Líflands HorseDay höllin
- Laugardaginn 15. apríl Stóðhestaveislan HorseDay höllin