Settir út úr landsliðshóp vegna agabrota

  • 24. júní 2023
  • Fréttir
Viðtal við Kristinn Skúlason, formann Landsliðsnefndar LH

Mikil ólga hefur verið í hestaheiminum undanfarna daga og vikur. Mál Jóhanns R. Skúlasonar og brottvikning hans úr íslenska landsliðinu hefur verið á milli tannanna á fólki og nokkur umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum. Í gær birti fyrrum formaður LH, Lárus Ástmar Hannesson, grein þar sem hann skorar á stjórn LH að endurskoða ákvörðun sína varðandi Jóhann.

Í gærkvöldi tilkynnir síðan Landsliðsnefnd og landsliðsþjálfari LH á vefsíðu LH að öðrum knapa, Konráði Val Sveinssyni, hafi verið vikið úr landsliðshópnum. Báðir þessir knapar eru ríkjandi heimsmeistarar frá síðasta móti.

Mörgum spurningum er ósvarað og hafði Eiðfaxi því samband við Kristinn Skúlason formann landsliðsnefndar sem hafði þetta um málið að segja:

“Allir knapar sem keppa undir merkjum Íslands og/eða eru í landsliðshóp skrifa undir knapasamning, siðareglur landsliðsnefndar og hegðunarviðmið ÍSÍ. Þetta á við um ríkjandi heimsmeistara sem og aðra landsliðsknapa. Fari knapar á svig við samninginn fá þeir áminningu eða eru settir úr hóp eftir alvarleika brotanna eins og fram kemur í siðareglum landsliðsnefndar. Samningurinn tekur á ýmsum þáttum meðal annars þátttöku í viðburðum landsliðsins, klæðaburð, íþróttamannslegri hegðun, notkun á öryggisbúnaði, dýravelferð, vímuefnanotkun, framkomu, háttsemi og upplýsingaflæði. Réttur einstaklings til að verja heimsmeistaratitil gengur ekki lengra en skyldur hans við þá samninga sem hann hefur gert við landsliðið. Þá kemur fram í reglum FEIF og LH að heimsmeistarar skulu vera formlega skráðir af viðkomandi landssamtökum, lúta valdi landsliðsþjálfara og fara eftir lögum og reglum landsliðsins í viðkomandi landi.“

Einhugur stjórnar

Báðir aðilar eru reknir úr liðinu vegna þess að þeir gerast brotlegir við aga- og siðareglur landsliðsins. Aðspurður segir Kristinn þó málin ekki tengjast með neinum hætti.

„Ekki nema með þeim hætti að báðir hafa talist gerst brotlegir við aga- og siðareglur landsliðsins á undanförnum misserum og teljast því ekki uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til landsliðsfólks. Að auki liggur til grundvallar eldri dómur sem fjallar um kynferðisbrot gegn barni í tilfelli annars aðilans. Grundvöllur íþróttalaganna er að menn með kynferðisbrotadóm starfi ekki innan hreyfingarinnar, þeir eiga aldrei afturkvæmt.“

Á Konráð Valur afturkvæmt í landsliðið og þá hvenær? „Já svo sannarlega og vonandi sem allra fyrst.“

Féll Konráð Valur á lyfjaprófi? „Ekki samkvæmt okkar upplýsingum.“

Að lokum vill Kristinn benda á að það að koma fram fyrir landslið þjóðar séu forréttindi og heiður sem landsliðsfólk þarf að standa undir.

„Að keppa fyrir hönd Íslands flokkast hvorki undir atvinnuréttindi eða mannréttindi á nokkurn hátt og það er afar sorglegt þegar málsmetandi fólk fer fram með slíkum málflutningi. Landsliðsnefnd hefur nýlega fjallað um mál beggja aðila með landsliðsþjálfara og það er mikilvægt að fram komi að innan hópsins var algjör einhugur um ákvarðanirnar. Að því sögðu hefur landsliðsnefnd ekki heimild til að tjá frekar sig um mál einstakra knapa.“

Auks Kristins sitja í landsliðsnefnd Birgir Már Ragnarsson, lögmaður, Gróa Björg Baldvinsdóttir, lögmaður, Helgi Jón Harðarson, fasteignasali, Sigurður Ágústsson, forstjóri, Sóley Margeirsdóttir, stjórn Landssambands hestamannafélaga, stjórn Meistaradeildar, stjórn Rangárbakka og Rangárhallar, Stefán Logi Haraldsson, fyrrum varaformaður LH og framkvæmdastjóri og Valdimar Grímsson, fyrrum landsliðsmaður í handbolta. Landsliðsþjálfari er Sigurbjörn Bárðarson.

Ítrekuð brot á aga- og siðareglur

Í samtali við Vísi í gær eftir að tilkynning um brottvikningu Konráðs Vals kom út sagði Guðni Halldórsson formaður Landssambands hestamannafélaga að Konráð hefði brotið nokkrum sinnum gegn aga- og siðareglunum.

„Hann var búinn að fá tiltal út af einhverjum öðrum málum en þetta er ákvörðun landsliðsnefndar og landsliðsþjálfara sem við í stjórninni komum ekki að, þannig að við höfum ekki beint um þetta að segja,“ sagði Guðni um málið og vísaði á landsliðsnefnd og landsliðsþjálfara.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar