Sigurvilji Sigurbjörns Bárðarsonar hestamanns

Sigurbjörn Bárðarson hestaíþróttamaður er kominn á hvítatjaldið. Verðlaunaðasti íþróttamaður Íslandsögunnar. Bikarar og verðlaunagripir sem hann hefur hlotið á sextíu ára ferli þurfa heilt félagsheimili til að allt verðlaunaféð njóti sín. Myndin greinir allan ferilinn frá rauðhærðum og frekknóttum strák í Reykjavík sem lagður er í einelti en býr yfir sigurvilja til að yfirstíga mótlæti svona eins og Óliver Twist forðum. Hesturinn og fákskarlarnir verða vinir hans, þar er hann heimagangur og kynnist öllum frægustu hestamönnum Reykjavíkur og Íslands. Strákurinn er duglegur að moka skít og kemba hestunum, karlarnir taka hann að sér og hann gerist þeirra besti vinur langt fyrir fermingu. Sigurbjörn fer ekki troðnar slóðir og skynjar ungur að peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal. Hann verður strax reglumaður meðan félagar hans kaupa sígarettur leggur hann sama andvirði fyrir. Hann kaupir fyrsta gæðinginn á Landsmóti á Hólum 1966, fermingarárið sitt, fyrir fermingarpeningana. Fram kemur í myndinni að strax sem ungur drengur gerist hann dúfnabóndi og byrjaði að græða pening. Það er mikið hlegið þegar hann segir frá því að hann hafi grætt mest á dúfnabúskapnum, því í eðli dúfna býr það að þegar þeim er sleppt út á nýju búi fljúga þær heim og Sigurbjörn seldi þær aftur og aftur og eina dúfuna seldi hann t.d. átta sinnum.
Það er farið yfir glæstan feril meistarans sem spannar sextíu ár og enn er hann að og keppir við börn sín og nemendur sína og í dag er hann einvaldur Landsliðs Hestamanna. Kvikmyndin er einstök heimild um hæfileika íslenska hestsins sem fjölskyldu og íþróttahests og þess yfirburða gæðings sem hann er.
Sigurbjörn er heimsfrægur í Íslandshestaheiminum en auðvitað eins og allir yfirburðamenn einnig umdeildur og umtalaður, annaðhvort væri nú. Hann og Fríða kona hans sem hefur staðið við hlið hans í öllum sigrum á sinn stóra þátt í ævintýrinu, án hennar hefði þetta ekki gerst. Sigurbjörn hefur gert hestamennskuna að ævistarfi og svo þetta mikla viðskiptavit að eiga viðskipti með hesta land og dúfur. Einhverntímann nefnt „hrossabrask,“ í dag guðsgjöf og viðskiptavit með tilfinningum og tárum.
Þessi kvikmynd segir sögu manns sem er áræðinn og kann að mæta mótlæti og fara betur með sigra en gerist og gengur. Hann þekkir sál hestsins sem náttúrubarn og á stóran þátt í hinni miklu sigurgöngu íslenskra hestamanna sem hentu bæði úlpunni, stígvélunum og brennivíninu. Sigurbjörn hefur riðið sparibúinn til kappleikja og hrifið fólkið með sér.
Sigurvilji hans hefur færst yfir á Íslandshestaheiminn. Ég vil minnast á eitt atrið enn í kvikmyndinni sagan af vinskap og átökum Sigurbjörns og Kára Stefánssonar um gæðinginn Stakk frá Halldórsstöðum. Kári var sannfærður um að hann væri Sleipni Óðins betri. Svo gerðist það á Landsmóti á Hellu að Sigurbjörn var með Stakk í keppni og báðir trúðu að hann hlyti A verðlaun gæðinga en Sigurbjörn laumaði á leynivopni sem var Kolskeggur frá Oddhóli. Þarna stóð Sigurbjörn frammi fyrir því að velja á milli þessara miklu gæðinga. Nú veðjaði hann á Kolskegg og sagði Stakk frá keppni. Blekberi greinarinnar var við hlið Kára í brekkunni sem líktist Skarphéðni beit í skjaldarrendur. Kári mælti með sinni Rimmigýgju: „legg ég á og mæli um að helvítið hann Sigurbjörn ríði skeifuna undan Kolskeggi.“ Skeifan flaug í næstu beygju þar með fóru úr höndum Sigurbjörns einu verðlaunin sem hann hefur ekki enn unnið til á Landsmóti, A verðlaun gæðinga.
Svo endar myndin á yndislegum kafla um Stakk sem var dæmdur skaddaður á vöðva 17 vetra gamall, í átta ár var hann í stóði þegar þeir fóstbræður ákváðu að taka hann á ný til kostanna og koma honum á Landsmót. Stakkur var enn besti hestur Íslands 26 ára gamall að mati Kára, alheill og Sigurbjörn fremstur meðal knapa 70 ára að aldri. Kári var orðinn hvíthærður öldungur eineygður eins og Óðinn sjálfur og fullviss að Stakkur færi yfir láð og lög eins og Sleipnir.
Þessi saga segir allt um hversu íslenski hesturinn er gæddur yndislegum hæfileikum eftir þúsund ára baráttu í landi elds og ísa. Svo hitt að hestamaðurinn getur verið sem tvítugur það sannar goðsögnin um Sigurbjörn Bárðarson. Sigurbjörn hefur verið tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ trúlega sá eini sem enn er að og í fullu fjöri. Frábær heimildarmynd um hestaíþróttamann og íslenskahestinn.