Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum „Sjóður er afrekshestur á skeiði“

  • 30. mars 2024
  • Fréttir

Efstu knapar í 150 metra skeiði í Meistaradeild Líflands

Viðtal við Gústaf Ásgeir Hinriksson

Gústaf Ásgeir Hinriksson á Sjóði frá Þóreyjarnúpi varð hlutskarpastur í keppni í 150 metra skeiði í Meistaradeild Líflands í hestaíþróttum í dag. Tími þeirra var frábær, 14,18 sekúndur. Heildarniðurstöður frá keppni í 150 metra skeiði má kynna sér nánar með því að smella hér.

Sjóður er undan Blæ frá Miðsitju og Kolfinnu frá Þóreyjarnúpi sem er undan Oddi frá Selfossi. Sammæðra Sjóði er m.a. Sæla frá Þóreyjarnúpi sem Charlotte Cook hefur gert garðinn frægan á í skeiðgreinum.

„Það náðust frábærir tímar hér í dag sem sýnir hversu mikill metnaður er í knöpum að gera vel og hversu breiddin er orðin mikil í knapavali og hestakosti. Sjóður er í toppformi og ég var búinn að gera mér nokkrar ferðir hingað á Selfoss til að undirbúa okkur fyrir þennan keppnisdag. Við Sjóður höfum fylgst að núna í nokkur ár ég hef alltaf vitað að þetta væri afrekshestur á skeiði og þegar okkur tekst vel til þá getur útkoman orðið sú sem hún varð í dag.“ Segir Gústaf Ásgeir sem nú er kominn í toppbaráttuna í Meistaradeildinni fyrir lokamótið sem framundan er eftir tæpan hálfan mánuð.

„Það stefnir í frábært lokamót. Ég sjálfur og lið okkar Hestvit/Árbakki er vel hestað fyrir lokamótið þannig við horfum björt fram á það. Ég sjálfur reikna með því að mæta með Sjóð í skeiðið í gegnum höllina og svo er Assa frá Miðhúsum frábært töltkeppnishross þannig að ég er spenntur fyrir lokakvöldinu.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar