Skeifan afhent í 66. skipti.
Áhersla á hestamennskutengda áfanga má rekja til ársins 1954 þegar Gunnar Bjarnason ásamt nemendum stofnuðu hestamannafélagið Grana. Á þem tíma var áhugi meðal nemenda að efla hestamennskutengda áfanga og var Gunnar upphafsmaður kennslu í reiðmennsku og tamningum við skólann. Mikið vatn hefur nú runnið til sjávar síðan þá en hefðin að halda Skeifudag á Sumardaginn fyrsta hefur haldist allar götur síðan 1957.
Skeifudagurinn dregur nafn sitt af verðlaununum sem veitt eru af Morgunblaðinu sem vildi með þessu framtaki sýna hug sinn til þessarar fornu og fögru íþróttar, hestamennskunnar. Skeifuna hlýtur sá nemandi sem efstur stendur á prófi í tamningu og reiðmennsku. Auk Skeifunnar er einnig keppt um Gunnarsbikarinn, Eiðfaxabikar, Ásetuverðlaun Félags tamingarmanna og Framfaraverðlaun Reynis.
Uppskeruhátíð og stóðhestahappadrætti
Skeifudagurinn fer fram í hestamiðstöð skólans að Mið-Fossum og hefst kl 13 með fánareið og setningu. Helgi Eyleifur Þorvaldsson brautarstjóri búfræðibrautar ávarpar gesti. Gestir geta notið þess að kynnast nánar nemendum og hrossum þeirra í vetur ásamt sýningaratriðum og úrslita í Gunnarsbikarnum. Sigríður Bjarnadóttir brautarstjóri hestafræðibrautar lokar dagskrá í reiðhöllinni og verður hægt að kaupa kaffiveitingar til styrktar búfræðinemendum sem stefna í útskriftarferð á staðnum. Verðlaun verða veitt í kaffinu og að lokum dregið í stóðhestahappadrætti Grana.