Skeifur og hjátrú

  • 22. desember 2024
  • Fréttir
Elstu heimildir um notkun á járnskeifum á hross eru frá 5. öld.

Elstu heimildir um notkun á járnskeifum á hross eru frá 5. öld. Á Norðurlöndum fóru menn þó ekki að járna hesta fyrr en snemma á 9. öld og samkvæmt heimildum munu Íslendingar fyrst hafa kynnst skeifum á 11. öld. Skeifur hafa lengi verið taldar lukkutákn og það þykir happafengur að finna skeifu á förnum vegi. Það er talið betra snúi skeifan sem menn finna í sömu átt og þeir eru að fara, þeim mun slitnari sem hún er því betra. Margir hafa fyrir sið að taka slíka skeifu með sér heim og hengja hana upp fyrir ofan dyr. Þar teljast þær vera góðar fjandafælur, öflug vörn gegn draugum og öðrum illum vættum.

Tvennum sögum fer þó af því hvernig skeifurnar eigi að snúa yfir dyragatinu. Ýmist halda menn því fram að þær eigi að snúa eins og U, en þá séu þær skál sem hamingjan safnast í, eða þá að hún eigi að snúa öfugt, eins og hlið sem gæfan fer í gegnum en fjandinn ekki. Víða í Evrópu var til siðs hér áður fyrr að láta búsmalann stíga yfir skeifu þegar hann var tekinn í hús á haustin. Skeifur voru því oft negldar á þröskulda á útihúsum. Þess eru einnig dæmi að skeifur hafi verið settar í rúm hjá fæðandi konum fyrir vandalausri fæðingu. Skeifur voru líka festar til dæmis á strokkbotna, mastur skipa, yfir kirkjudyrum og annars staðar þar sem þótti þurfa verndar við.

Í seinni tíð hafa hjátrúarfullir haft fyrir sið að festa skeifur framan á bíla eða talið það gæfumerki að hafa bókstafinn U í bílnúmerum.

Í annarri þjóðsögu segir að einu sinni hafi Drottinn og Sankti-Pétur verið á gangi á góðum degi og fundið skeifu. Drottinn bað Pétur að taka hana upp en hann sá engan tilgang í því að hirða staka skeifu. Drottinn tók þá sjálfur skeifuna til handargagns. Ekki höfðu þeir félagar gengið lengi þegar Pétur tók að þyrsta. Loks komu þeir að smiðju einni og þar seldi Drottinn smiðnum skeifuna fyrir nokkra aura og kirsuber. Þeir héldu síðan áfram ferð sinni.

Á leiðinni lét Drottinn eitt og eitt kirsuber falla á jörðina en Pétur tíndi þau upp enda var hann að drepast úr þorsta. Um leið og Drottinn kastaði síðasta berinu sagði hann: „Hefðir þú hlýðnast mér og beygt þig niður eftir skeifunni hefðir þú ekki þurft að beygja þig margsinnis eftir berjunum.“ Pétur varð að viðurkenna að Drottinn hafði nokkuð til síns máls. Eftirfarandi saga er svo sögð um danska eðlisfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann Niels Bohr (1885- 1962), en hefur einnig verið hermd upp á aðra þekkta raunvísindamenn: Yfir dyrum í sumarhúsi Bohrs hékk skeifa. Gest bar að garði og undraðist hann að rekast á slíkt hjátrúartákn hjá virtum raunvísindamanni. „Hvernig stendur á því að þér trúið á lukkuskeifu?“ spurði gesturinn. „Ég trúi alls ekki á lukkuskeifu,“ svaraði Bohr, „en mér hefur verið sagt að hún verði manni til gæfu þótt maður hafi ekki trú á því.“

Grein úr 10. tölublaði Eiðfaxa árið 2018

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar