„Skil ekki þessa uppgjöf að aflýsa HM“

  • 23. apríl 2021
  • Fréttir

Jói fagnar sigri á HM í Berlín mynd: Sofie Lahtinen Carlsson

Viðtal við Jóhann Rúnar Skúlason
Ég bara get ekki skilið þessa uppgjöf í forystu okkar hestamanna að aflýsa Heimsmeistaramótinu á þessum tímapunkti og mér líður eins og verið sé að fresta atvinnugreininni í heild sinni, allavega fyrir okkur knapa sem erum í Evrópu og ég get bara ekki sætt mig við það.“  Segir Jóhann Rúnar Skúlason í samtali við Eiðfaxa. Jóhann er þrefaldur ríkjandi heimsmeistari frá síðasta móti og átti því þátttökurétt á mótinu í ár, þar sem hann hugðist gera tilraun til að verja titla sína. En alls hefur hann orðið heimsmeistari nítján sinnum.

 

Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fara átti fram í Herning í Danmörku var aflýst nú í vikunni eins og flestir þekkja. Eiðfaxi tók viðtal við Gunnar Sturluson, forseta FEIF, þann sama dag þar sem hann útskýrði nánar ástæður aflýsingarinnar auk þess að hægt er að kynna sér yfirlýsingu FEIF á heimasíðu þeirra.

Jóhanni lýst ekki á stöðuna í Evrópu í ljósi þessara frétta. „Hingað til hafa allir verið að leggja sig fram um það að finna leiðir til að halda úrtökumót og önnur mót svo af HM verði en núna er ég ansi hræddur um að þetta verði keðjuverkandi og sá kraftur hverfi og af þeim völdum verði engin mót hér í sumar. Þá verð ég líka að segja að mér finnst þetta einkennilegur tímapunktur, að taka þessa ákvörðun núna þegar bólusetningar eru víðast hvar komnar á gott skrið og eftir 1-2 mánuði verði allt annað upp á teningnum. Ég trúi ekki öðru en ef að vilji hefði verið fyrir hendi að þá væri hægt að semja við staðarhaldara í Herning um að fá að bíða með þær greiðslur sem framundan eru. Það er ekki eins og það bíði fjöldi annarra viðburða eftir því að fá svæðið leigt og staðarhaldarar myndu græða á því að eiga möguleika á því að fá tekjur af heimsmeistaramótinu.“

Jóhann hefur nítján sinnum orðið Heimsmeistari í hestaíþróttum

Telur of snemmt að taka ákvörðun

„Ég er ansi hræddur um að það verði súrt bragð í munni margra í ágúst þegar að við gætum verið að halda HM í hestaíþróttum og búið verður að halda EM í knattspyrnu á sama svæði, þar sem nú þegar og ég endurtek nú þegar er búið að selja 10.000 miða. Það er því betra að halda möguleikanum opnum á að halda mótið í stað þess að fara að ræsa vélina seinna í sumar þegar það verður of seint. Á morgun hefst mót í stórhestaheiminum í Þýskalandi þar sem 24 mismunandi þjóðir eiga fulltrúa og það er mun stærra mót en HM.“  Mótið sem Jóhann vitnar í mun standa yfir 24.-28.apríl en heimasíðu þess er hægt að nálgast hér ef fólk vill lesa meira um mótið.

„Ég skora hér með á forystufólk greinarinnar að endurskoða ákvörðunina um að aflýsa og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Það er kjánalegt að líklega verði haldnir ólympíuleikar og Evrópumót í knattspyrnu en við getum ekki haldið okkar heimsmeistaramót.“ Segir Jóhann Rúnar að lokum sem greinilega er mikið niðri fyrir með aflýsinguna.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<