Skráðum eigendaskiptum hrossa fækkar

  • 6. janúar 2025
  • Fréttir
Verkefnin framundan eru sölu- og markaðsmál

Það er óhætt að fullyrða að árið 2024 hafi verið hestamönnum gott og að framfarir í reiðmennsku og ræktun hafi ekki farið framhjá neinum sem fylgdist með Landsmótinu í Víðidal síðastliðið sumar. Framundan er þó stór áskorun fyrir forsvarsmenn greinarinnar og hrossaræktendur alla en það eru sölu- og markaðsmál.

Það er gömul saga og ný að hrossaræktendur hafi áhyggjur af dræmri sölu hrossa og þá sérstaklega þeim gripum sem eru ekki í fremstu röð keppnis- eða kynbótahrossa. Á hrossaræktarbúum er nú til fjöldinn allur af vel tömdum reiðhestum sem erfitt er að koma í verð. Slík uppsöfnun söluhrossa hefur áhrif á allt okkar starf og ef sá snjóbolti nær fullu skriði er ljóst að einungis eitt blasir við og það er að draga úr umfangi ræktunarinnar. Slíkt hefur áhrif á alla greinina, frá sölu á folatollum til kaupa á hvers kyns annarri þjónustu.

Þróunin á sama veg

Á myndinni hér að neðan má sjá skráð eigendaskipti hrossa í Worldfeng í fjórum stærstu aðildarlöndum FEIF á tíu ára tímabili frá 2014 til 2024. Þessi lönd eru Ísland (IS), Danmörk (DK), Þýskaland (DE) og Svíþjóð (SE). Í öllum þessum löndum má sjá að skráðum eigendaskiptum fækkaði árið 2024 miðað við árin á undan og á Íslandi í Svíþjóð og í Danmörku voru fæst eigendaskipti gerð á síðasta ári miðað við þetta tímabil. Einungis í Þýskalandi er árið 2024 ekki það versta þegar að þessu kemur, þó svo að þróunin þar sé sú sama.

Ástæður þessarar niðursveiflu eru eflaust margar en þar hefur stríðsástand í heiminum, með hækkandi vöruverði, ef til vill mest að segja. Neikvæð umfjöllun fjölmiðla um reiðmennsku og þá sérstaklega í fimikeppni (e. dressage) hefur einnig áhrif á nýliðun í hestamennsku almennt. Sú umræða teygir anga sína til keppni á íslenskum hestum þar sem stækkandi hópur fólks fylgist með því sem fram fer innan okkar raða. Það er því mikilvægt að halda vel utan um ímynd íslenska hestsins og þar hefur markaðsverkefnið Horses of Iceland m.a. staðið vaktina í því að kynna íslenska hestinn og íslenska menningu. Þar tel ég að mikilvægast sé að sýna frá gleðinni sem fylgir því að eiga íslenska hest og hversu einfaldir og aðgengilegir þeir eru sem reiðhestar. Útflutningur hrossa frá Íslandi hefur tekið breytingum á síðustu árum þar sem einungis er flogið til eins lands í Evrópu, Belgíu. Þangað þarf svo að flytja hrossin til annarra landa, hér áður fyrr var flogið til fleiri staða og þ.a.l. styttra að koma hestinum til síns heima. Fyrir kaupendur í Evrópu gæti þetta virkað fráhrindandi og óaðgengilegt.

Hverjar sem ástæður þess að sífellt færri hross skipta um eigendur eru, er það ljóst að þessari þróun þarf að snúa við. Því verður að nýta árið 2025 vel og taka umræðu um þessi mál og sporna við þessari þróun, greininni allri til heilla.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar