„Slökkti á símanum og þorði ekki að fylgjast með hvar ég stæði“
Starfsfólk Eiðfaxa vinnur nú hörðum höndum að útgáfu Árbókar Eiðfaxa sem er 300 blaðsíðna rit sem kemur út í lok þessa árs. Þar er farið yfir kynbóta og keppnisárið í máli og myndum. Þar er m.a. að finna viðtöl við þá knapa sem hlutu útnefningar í ár auk ræktenda og umfjallanna um 10 efstu hross ársins í hverjum aldursflokki kynbótadóma.
Við gripum hér niður í viðtal við efnilegasta knapa ársins, Matthías Sigurðsson, sem vann m.a B-flokk ungmenna á Landsmóti á Tuma frá Jarðbrú.
Leið þeirra Tuma að sigri í B-flokki ungmenna var svo kölluð fjallabaksleið, því hann rétt komst inn í B-úrslit en endaði sem sigurvegari. „Sýning okkar í milliriðlum fór ekki eins og ég ætlaði mér. Við gerðum mistök á brokki sem leiddi til þess að ég kom ekki á sama hátt inn í fetið og ég lagði upp með. Þar af leiðandi var ég ekkert viss um að við næðum í úrslit. Ég settist því í brekkuna á kynbótabrautinni, slökkti á símanum og þorði ekki að fylgjast með hvar ég stæði. Þegar það varð hins vegar ljóst að ég væri kominn í úrslit setti ég stefnuna á sigur. Tumi er einstakur gæðingur, ég hef aldrei komið á bak hesti sem býr yfir jafn miklu rými á gangtegundum. Vissulega getur verið erfitt að fá hann til þess að slaka á og feta en það hefur samt alveg tekist stundum hjá okkur. Hann er með frábært geðslag og er frábærlega þjálfaður af frábærum knöpum, það er því magnað að fá að þjálfa hann og læra af honum.“
Viðtalið í heild sinni við Matthías og marga aðra verður að finna í Árbók Eiðfaxa.