Sögusetur íslenska hestsins hlýtur styrk úr Hvata

Þetta kemur fram á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins en alls hlutu 19 verkefni styrk að þessu sinni, alls að upphæð 19.880.000 kr.
Eitt af þeim verkefnum sem hlaut styrk er Sögusetur íslenska hestsins en var þetta rekstrarstyrkur til að halda úti starfsemi. Styrkurinn hljóðar uppá 3.000.000 kr. og var þetta jafnframt hæsti styrkurinn.
Sögusetur íslenska hestsins var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001 af Hestamiðstöð Íslands, Byggðasafni Skagfirðinga og Hólaskóla. Sögusetrið var gert að sjálfseignarstofnun árið 2006 og eru stofnaðilar hennar Byggðasafn Skagfirðinga og Hólaskóli. Markmið Söguseturs íslenska hestsins er að vera alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um íslenska hestinn og halda úti sýningarstarfi um hvaðeina sem lýtur að íslenska hestinum.