Sumarkveðja Eiðfaxa

  • 23. apríl 2020
  • Fréttir

Í gær var síðasti vetrardagur og lauk þar með einhverjum erfiðasta vetri í seinni tíð. Hestamenn, eins og aðrir landsmenn, hafa þurft að glíma við ýmislegt á undanförnum misserum. Norðanlands var veturinn ákaflega snjóþungur og reyndist hann mörgum erfiður við útreiðar en þá komu reiðhallir sér vel þar sem þær voru til staðar. Hamfaraveður gekk yfir norðvestanvert landið dagana 9.-12.desember og lék það búpening grátt og margir bændur á þessum slóðum áttu og eiga um sárt að binda. Kórónaveiran setti svo strik í reikninginn með tilheyrandi samkomubönnum og lokunum á reiðhöllum ásamt því að mótahald hefur legið niðri seinni part vetrar.

Heilsa landsmanna þarf þó alltaf að vera í forgrunni og það hefur sannast á undanförnum vikum að við sem búum hér á Íslandi erum forréttindafólk að fá að lifa í landi þar sem fagfólk hefur haldið um taumana og með samheldnu átaki virðist þessi slæma veira vera á undanhaldi. Öll él styttir upp um síðir og bjartir tímar eru á næsta leyti. Í dag er sumardagurinn fyrsti og færir hann okkur von um betri tíð og nú styttist í að hryssur kasti og færi hrossaræktendum vonina um að þar sé á ferðinni næsta stórstjarna.

Á sama tíma og Eiðfaxi þakkar lesendum sínum samfylgdina í vetur hlökkum við til að halda áfram að flytja ykkur fréttir og fjalla á fjölbreyttan hátt um heim íslenska hestsins og öllu því sem honum tengist. Það er margt spennandi í kortunum hjá Eiðfaxa sem kynnt verður nánar á næstu misserum. Ræktunardagur Eiðfaxa verður haldinn þann 9.maí og mun hann vonandi verða upphafið af mörgum skemmtilegum viðburðum sem framundan eru.

Gleðilegt sumar!

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<