Takk fyrir mig!

  • 31. ágúst 2021
  • Fréttir

Það að taka að sér að vera ritstjóri Eiðfaxa en hafa litla reynslu af fjölmiðlun var ærið verkefni og mikil áskorun. Þetta verkefni tók ég að mér í ársbyrjun árið 2019 og rann ég nokkuð blint í sjóinn að flestu leyti nema því að ég hef og hafði endalausan áhuga á íslenska hestinum og öllu því sem honum tengist. Með þetta í hnakktöskunni var lagt upp í vegferð sem nú er að taka enda, því þessi pistill er minn síðasti í því starfi. Ég hóf nám við Landbúnaðarháskóla Íslands nú í haust þaðan sem ég hyggst útskrifast með Mastersgráðu í Búvísindum. Ástæðan fyrir því er sú sama og varð til þess að ég gerðist ritstjóri Eiðfaxa, þekkingarleit og áhugi á hestinum.

Á tíma mínum sem ritstjóri Eiðfaxa hef ég þroskast gífurlega að mínu mati, gert mistök, lært af þeim, reynt að gera betur og öðlast dýrmæta reynslu sem mun án vafa standa með mér í öðrum þeim verkefnum sem ég tek að mér á lífsleiðinni. Á þessum tíma hefur Eiðfaxi gefið út 17 tímarit og ég hef skrifað 2557 fréttir og greinar á vefinn.

Þó svo að ég segi nú skilið við Eiðfaxa sem ritstjóri blaðsins eru spennandi tímar fram undan hjá honum og hestamönnum öllum. Hestamennskan er á fleygiferð og í stöðugri þróun. Fagmennsku fleytir fram á öllum sviðum hennar og skemmtilegir viðburðir eru á næsta leyti. Vetrardagskráin í vetur verður þéttskipuð líkt og undanfarin ár og á næsta ári verður Landsmót Hestamanna haldið með pompi og prakt á Hellu, þar sem veisluborðið verður vonandi hlaðið allsnægtum af öllu því besta sem íslenski hesturinn hefur upp á að bjóða

Ég vil nýta tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa starfað með mér á þessum tíma á ýmsan hátt hvort sem það voru samstarfsmenn mínir daglega líkt og Gylfi Þór Þorsteinsson, Magnús Benediktsson og Snorri Kristjánsson eða þá greinahöfundar, ljósmyndarar, umbrotsmenn og starfsfólk prentsmiðja. Marga vini eignaðist ég á þessum tíma og þá vil ég einnig þakka þeim sem hafa gagnrýnt mig og þannig gefið mér tækifæri til að gera betur, því sanngjörn gagnrýni er jú undirstaða framfara.

Eiðfaxi er að mínu viti mikilvægur hestamönnum því ef ekki væri fyrir hann kæmi ekkert rit út á prenti sem eingöngu fjallar um íslenska hestinn, hér á landi. Á sama tíma og ég þakka þér lesandi góður fyrir samfylgdina að þá óska ég Eiðfaxa alls hins besta og megi næstu ritstjórar gera betur en ég gerði og halda merki þessi sögufræga tímarits á lofti.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar