Allra sterkustu er á laugardaginn

  • 5. maí 2023
  • Fréttir
Hverjir mæta til leiks og upplýsingar um stóðhestaveltuna

Viðburðurinn Allra sterkustu – leiðin að gullinu verður haldinn í TM reiðhöllinni í Víðidal á morgun, laugardaginn, 6. maí. Mótið er stærsti fjáröflunarviðburður íslenska landsliðsins. Þarna mæta landsliðsknapar ásamt öðrum og etja kappi. Keppnin er með úrslitakeppnisfyrirkomulagi og keppt er í tölti, fjórgangi, slaktaumatölti og fimmgangi.

Í fimmganginn mæta Elvar Þormarsson á Djáknari frá Selfossi, Hans Þór Hilmarsson á Ölri frá Reykjavöllum, Jakob Svavar Sigurðsson á Nökkva frá Hrískoti, Viðar Ingólfsson á Vigra frá Bæ og Ásmundur Ernir Snorrason á Ás frá Strandarhöfði.

Töltið verður firnasterkt en þar mæta til leiks Árni Björn Pálsson á Kastaníu frá Kvistum, Jakob Svavar Sigurðsson á Skarpi frá Kýrholti, Helga Una Björnsdóttir á Bylgju frá Barkarstöðum, Guðmundur Björgvinsson á Fjöður frá Hrísakoti og Ásmundur Ernir Snorrason á Happadís frá Strandarhöfði.

Í fjórganginn eru skráðir Hákon Dan Ólafsson á Halldóru frá Hólaborg, Jóhanna Margrét Snorradóttir á Kormáki frá Kvistum, Eyrún Ýr Pálsdóttir á Blæng frá Hofsstaðaseli, Hinrik Bragason á Sigri frá Stóra-Vatnsskarði og Sara Sigurbjörnsdóttir á Flugu frá Oddhóli.

Teitur Árnason á Nirði frá Feti, Viðar Ingólfsson á Eldi frá Mið-Fossum, Sigurður Vignir Matthíasson á Dýra frá Hrafnkelsstöðum 1, Arnar Bjarki Sigurðsson á Magna frá Ríp og Ragnhildur Haraldsdóttir á Kötlu frá Mörk keppa í slaktaumatölti.

Stóðhestavelta landsliðsins er einnig á sínum stað en miðasala í stóðhestaveisluna hófst í morgun, 5. maí kl. 10:00 og fer hún í gegnum vefverslun LH. Miðaverðið er 65.000 kr. og hver keyptur miði veitir aðgang fyrir eina hryssu á árinu 2023 undir einn af þeim frábæru gæðingum sem eru í pottinum en hægt er að sjá heildarlistann yfir stóðhestana í stóðhestaveltunni HÉR.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar