Þoka frá Hólum fallin

  • 11. nóvember 2024
  • Fréttir

Þoka frá Hólum hjá henni stendur afkvæmi hennar Þökk.

Minningarorð Þórarins Eymundssonar um Þoku

Gæðingurinn og gæðingamóðirin Þoka frá Hólum var felld nú í byrjun nóvember mánaðar heima að Hólum í Hjaltadal. Frá þessu greinir Þórarinn Eymundsson tamningameistari í kveðju til hennar á Facebook.

Þoka kom fyrst til dóms fimm vetra gömul þá sýnd af Agli Þórarinssyni og stóð hún það ár efst í sínum aldursflokki á Landsmóti árið 1998 á Melgerðismelum. Síðar meir tók Þórarinn við þjálfun hennar og sýndi hana í kynbótadómi árið 2002 þar sem hún stóð efst í elsta flokki hryssa á Landsmóti árið 2002 á Vindheimameilum. Hún stóð efst heiðursverðlaunahryssa fyrir afkvæmi árið 2012 og var handhafi Glettubikarsins.

Hér á eftir fylgja minningarorð Þórarins, en saga hennar er samofinn hans sögu.

Í minningu Þoku frá Hólum

Hin merka kynbótahryssa Þoka frá Hólum var felld nú í byrjun nóvember á fæðingarstað sínum Hólum í Hjaltadal. Það er greipt í minningu hugans þegar ég sá Þoku í fyrsta skiptið í hesthúsinu á Hólum veturinn 1997. Hún bar höfuð og herðar yfir öll önnur hross á þeim tíma á Hólum. Glæsileg og fangaði strax athyglina. Mig grunaði auðvitað ekki þá að leiðir okkar ættu eftir að liggja saman nokkrum árum seinna.

Þoka fæddist 1993 og var sjöunda afkvæmi hinnar landsfrægu ættmóður Þráar frá Hólum. Faðir hennar var Vafi frá Kýrholti. Þoka á 13 skráð afkvæmi og eru 12 dæmd og öll þeirra með yfir 8 í aðaleinkunn kynbótadóms, flest hryssur eða 9 talsins. Þoka hefur átt afkvæmi á landsmóti hestamanna allar götur síðan 2008. Þekktustu og hæst dæmdu afkvæmin eru Þóra frá Prestsbæ (8,77), Þota frá Prestsbæ (8,81), sem stóðu báðar efstar á landsmótum, Þórálfur frá Prestbæ (8,94), Þökk frá Prestsbæ (8,63), og Þenja frá Prestsbæ (8,49), Meðaleinkunn allra afkvæmanna er 8,46. Á síðasta landsmóti voru 2 hryssur komnar í beinan kvennlegg út af Þoku og sú frægust sigurvegari A-flokks gæðinga, dóttirdóttir Þoku, Álfamær frá Prestsbæ

Þóra frá Prestsbæ og Þórarinn Eymundsson

Þoka sjálf kom fyrst til dóms árið 1998 og stóð efst í flokki 5 vetra hryssna á landsmóti á Melgerðismelum, sýnd af Agli Þórarinssyni. Hún hlaut á þeim tíma fágætan sköpulagsdóm (8,48) en sætti töluverði gagnrýni og þótti þunglamaleg á tölti. Þá grunaði fáa hversu vel hún ætti eftir að reynast sem kynbótahryssa. Undirritaður tók við þjálfun Þoku haustið 2001 eftir að sænsk sómahjón Inga og Ingar Jensen keyptu hryssuna. Stuttu síðar festu þau kaup á landi í Hegranesi í Skagafirði sem þau nefndu Prestsbæ og kenna hrossin við. Þegar ég tók við Þoku var það fyrsta sem kom mér skemmtilega á óvart hversu viljug og fylgin sér hún var en sumir spekingar höfðu öndverða skoðun á viljanum. Hins vegar var athyglin stundum á öðrum stað en hjá knapanum en það lagaðist mikið þennan eina vetur sem ég þjálfaði hana. Þoka var mikið hross að sitja á, fótahá, stór, sterk með þennan líka háls. Gangtegundirnar voru stórar, mikið skref og gangskilin mikil. Eftir á að hyggja tímamóta hryssa að mörgu leyti. Þarna var komin alhliða hryssa með þetta skrefmikla fet, svifmikið og spyrnugott brokk, stökk og skeið. Töltið var skrefmikið og frekar taktgott en þungstígt og sleðalegt framan af vetri og hennar sísta gangtegund. Hryssan var orðin mikið tamin þegar ég tók við henni og eina markmiðið sem ég setti mér var að bæta léttleikan og virkni á töltinu. Þetta gekk allt eftir og á landsmóti 2002 stóð hún efst allra kynbótahrossa með 8,64 í aðaleinkunn.

Það er mér sérstaklega minnisstætt þegar ég lagði hana til skeiðs á móti öðrum hrossum hversu hratt henni skilaði áfram. Þoka kom vel út í samanburðinum á þessu móti og rak af sér sliðruorðið. MInnistæðaðsti reiðtúrinn á Þoku var eftir fordóminn á landsmótinu en þá reið ég yfir á hina víðáttumiklu Borgareyju sem er stutt frá Vindheimamelum. Þar gat ég hleypt henni á ýtrustu ferð á mjúkum og löngum moldargötum. Þá náði ég að laða fram það besta tölt sem hún bjó yfir. Ég reið því fullur sjálfstraust til yfirlitssýningar og gat nýtt það frjálsræði sem Vindheimamelarnir bjóða upp á. Ég hef verið þeirra gæfu aðnjótandi að eiga nokkur hross út af Þoku og að hafa þjálfað öll afkvæmi hennar. Nú er fjórða kynslóðin farin af stað í tamningu og fleiri yfirburða hross eru væntanleg út af Þoku frá Hólum.

Þoka var við hestaheilsu fram á síðasta dag og hefur raunar aldrei orðið misdægurt. Hún var sterk byggð og hraust. Eftir sumarið var hún ekki eins feit og hún var vön að vera í byrjun vetrar og því var ákveðið að nú væri kominn tími á að Þoka fengi að fara aftur heim að Hólum í sína hinstu ferð.

Þegar slíkur gæðingur er kvaddur kemur upp í hugann erindi úr ljóðinu Fákar eftir Einar Ben.

 

Sá drekkur hvern gleðinnar dropa í grunn,

sem dansar á fákspori yfir grund.

Í mannsbarminn streymir sem aðfalls unn

af afli hestsins og göfugu lund.

Maðurinn einn er ei nema hálfur,

með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.

Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,

kórónulaus á hann ríki og álfur.

 

Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest

og hleyptu á burt undir loftsins þök.

Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.

Að heiman, út, ef þú berst í vök.

Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist

ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist

við fjörgammsins stoltu og sterku tök.

Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

 

Hér nálgast kveðjustund þeirra vina, Þórarins og Þoku. Mynd: Nicki Pfau

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar