Til minningar um Sölva Sölvason

  • 29. desember 2021
  • Fréttir

Sölvi Sölvason lést þann 19. desember síðastliðinn einungis 23 ára að aldri eftir hetjulega baráttu við krabbamein, útför hans fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag.

Það er skrýtið að setjast niður og ætla sér að rita minningarorð um svo ungan, glæsilegan og efnilegan mann líkt og Sölvi var en skorta orð til þess að segja í raun og veru hvað okkur býr í brjósti. Þannig líður líkast til ansi mörgum sem voru það heppnir að fá að kynnast honum.

Leiðir okkar lágu saman þegar við hófum nám við hestafræðideild Háskólans á Hólum haustið 2018. Við vorum hluti af frábærum hópi ungs fólks sem átti þann draum stærstan að fræðast meira um íslenska hestinn og öðlast meiri færni og skilning í því að halda hann og þjálfa. Mikil samstaða ríkti innan bekkjarins og fljótlega tókst á með okkur öllum vinskapur og virðing sem mun endast okkur sem eftir stöndum út ævina. Breitt bros einkenndi Sölva frá fyrsta degi og smitandi hlátur hans ómaði um hvar sem hann var staddur, samstundis varð okkur ljóst að þarna væri á ferðinni ungur maður með mikla persónutöfra enda urðu vinsældir hans strax miklar. Síða hárið og skeggið skemmdu ekki fyrir og það var líkt og kvikmyndastjarna væri mætt á svæðið hvar sem hann fór. Hann var mann- og dýravinur og allt lék í höndum hans.

Flest kvöld voru nýtt til þess að bralla eitthvað skemmtilegt hvort sem það var að hittast á nemendagörðunum, spila körfubolta, skreppa á rúntinn eða þjálfa hross alltaf var Sölvi til í grín og glens og ekki brást það að hann var hrókur alls fagnaðar. Hann setti sig þó aldrei á háan hest og tókst á við allt með passlega miklu kæruleysi. Þessi persónueinkenni hans nýttust vel þegar hann tókst á við sjúkdóminn. Sölvi tókst með sínum töffaraskap á við þennan vágest sem Því miður hafði að lokum betur. Jákvætt viðhorf Sölva og hvernig hann tókst á við veikindin með æðruleysi er öllum til eftirbreytni í dagsins amstri hvort sem verkefnin eru stór eða smá. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að Sölvi hafi verið tekinn svo fljótt frá okkur en það er sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska og það er trú okkar að Sölvi sé nú á öðrum og betri stað með síða hárið sitt og smitandi hláturinn að heilla alla upp úr skónum. Við treystum því að á þeim sama stað sé gæðingaúrval og Sölvi haldi þeim í góðri þjálfun þar til okkar tími kemur.

 

Í morgunljómann er lagt af stað.

Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.

Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,

þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.

Menn og hestar á hásumardegi

í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi

með nesti við bogann og bikar með.

Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

Við viljum votta fjölskyldu, ættingjum og vinum Sölva okkar dýpstu samúð. Minningin lifir um fallegan ungan mann.

Þínir vinir og bekkjarfélagar.

Gísli Guðjónsson, Gunnlaugur Bjarnason, Guðbjörn Tryggvason og Nick Zoon

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar