TÍMAVÉLIN – Ekkert mál að eignast þríbura!

  • 7. janúar 2021
  • Fréttir

Svanhvít Kristjánsdóttir situr með Dagmar, Hákon og Magnús Öder Einarsbörn og Einar Öder Magnússon situr með Hildi Öder Einarsdóttur. Mynd: Jens Einarsson

Tímavélin spólar aftur til 1997 í þetta skiptið. Í 12. tölublaði Eiðfaxa það ár var viðtal við öfluga hestakonu og nýorðna móður, Svanhvíti Kristjánsdóttur. Svanhvít og hennar maður, Einar Öder Magnússon, fjölguðu heldur betur í sinni fjölskyldu á því ári þar sem þau eignuðust þríbura, þau Dagmar, Hákon og Magnús Öder Einarsbörn en fyrir áttu þau dótturina Hildi Öder. Þau Einar og Svanhvít ráku á þessum tíma alhliða hestamiðstöð, hrossaræktarbú, tamningastöð og hestasölu, auk þess að stunda reiðkennslu heima og erlendis.

Aðspurð í viðtalinu um það hvort það hefði verið mikið mál að eignast þríbura svaraði Svanhvít: „Strax og ljóst var að ég gekk með þrjú börn heyrði ég útundan mér að nú væri hestamennskan búin hjá mér. Það er fjarri lagi. Auðvitað verð ég ekki mjög virk á næstunni en svo verða börnin bara hluti af tilveru okkar og við sníðum hlutina að breyttum aðstæðum. Ég ætla t.d. að ríða út í næstu viku.“

En fann þessi fjögurra barna móðir fyrir hræslu að setjast aftur í hnakkinn? „Nei, af hverju ætti ég að vera það? Ég veit nákvæmlega hvar mín takmörk liggja, Allar íþróttagreinar eru hættulegar ef því er að skipta og það er líka ákveðin hætta sem felst í því að aka bíl ef út í það er farið. Sumar konur stunda leikfimi og sund – ég stunda hestamennskuna.“

Þess má geta að Svanhvít var í afar skemmtilegu viðtali skömmu fyrir áramót í hlaðvarpsþættinum á Kaffistofunni og hægt er að nálgast þann þátt hér.

Svandís á hryssunni Glódísi frá Halakoti sem hún náði góðum árangri á í keppni

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar