Tippari vikunnar Tippari vikunnar – Eiríkur Jónsson

  • 3. október 2020
  • Fréttir

Eiríkur Jónsson er tippari vikunnar, á myndinni er hann í Moskvu vorið 2008 er Manchester United vann Meistaradeildina í leik gegn Chelsea

Fjórða umferð ensku úrvaldsdeildarinnar hefst í dag.

Þá er komið að fjórðu umferð Tippara vikunnar í boði Sport og Grill Smáralind.

 

Í síðustu viku var það Steindór Guðmundsson sem var með fimm rétta.

Tippari fjórðu umferðar er hestaljósmyndarinn góðkunni Eiríkur Jónsson. Eiríkur hefur verið stuðlastjóri Íslenskrar getspár frá því í desember 1999 og hann sá um ljósmyndasafn Vísis og DV frá því í maí 1978 til desember 1999, auk þess að skrifa um hestamennsku og aðrar íþróttir í þessa miðla og getraunir í áratugi.

Þess má geta að Eiríkur valdi getraunakerfin, sem hafa prýtt getraunaseðla íslenskrar getspár.

Spá Eiríks er eftirfarandi:

Chelsea 2-0 Crystal Palace, laugardag 11:30

Það er ekki oft sem Crystal Palace er ofar Chelsea í stigatöflunni, en þeir kristalhallarmenn hafa komið vel undan sumri og hafa unnið tvo leiki og tapað einum, en Chelsea hefur unnið, gert jafntefli og tapað sitthverjum leiknum. Chelsea á heimavelli er þó of stór biti fyrir hitt Lundúnarliðið og vinnur 2-0.

Everton 3-0 Brighton & Hove Albion, laugardag kl 14:00

Everton hefur byrjað leiktíðina mjög vel og unnið alla þrjá deildaleiki sína og auk þess deildabikarleik. Brighton á á brattann að sækja og munu Evertonmenn vinna leikinn 3-0.

Leeds 1-2 Manchester City, laugardag kl 16:30

Á Íslandi eru margir stuðningsmenn Leeds og hafa þeir beðið lengi eftir að liðið kæmist í toppdeildina á ný og láti af sér kveða eins og fyrir og eftir 1970.

Þeir skora mikið strákarmir í Leeds, en fá einnig á sig mörg mörk. Manchester City hefur ekki byrjað mótoð eins vel og búist var við og er nauðsynlegt fyrir þá bláklæddu að taka stig í þessum leik og spái ég City sigri 1-2.

Newcastle 2-1 Burnley, laugardag kl 19:00

Newcastle og Burnley eiga erfiðan vetur fyrir höndum og fótum. Bæði lið hafa verið í basli undanfarin ár.

Þarna skilur heimavöllurinn að og vinnur Newcastle 2-1.

Leicester City 3-0 West Ham,  sunnudag kl 11:00

Leicester spilar ákaflega skemmtilega knattspyrnu og skora leikmenn grimmt. Þeir Leicestermenn stóðu sig vel í fyrra, en gáfu eftir undir lok mótsins, en nú eru þeir efstir í stigatöflunni með níu stig úr þremur leikjum. Það er ekki hægt annað en að spá liðinu 3-1 sigri gegn West Ham, eftir að hafa rústað Manchester City á útivelli 2-5.

Southampton 1-0 West Bromwich Albion, Sunnudag kl 11:00

W.B.A. komst upp í úrvalsdeildina á ný í sumar, en er spáð lóðbeinu falli. Southampton er miðlungslið, sem vinnur og tapar óvænt á víxl.  Í þessum leik verður ekki mikið skorað og vinnur Southampton 1-0, væntanlega eftir aukaspyrnu eða hornspyrnu.

Arsenal 3-0 Sheffield United, Sunnudag kl 13:00

Arsenal er skárra en í fyrra. Meira líf í leikmönnum og vinnur liðið Sheffield United örugglega 3-0.

Hnífaborgarmennirnir eru stigalausirn og hafa ekki skorað mark í fjórum leikjum, en fengið á sig fjögur.

Wolverhampton 2-0 Fulham, sunnudag kl 13:00

Wolves – Fulham. Fulham kom upp ur 1. deild í sumar og er á leiðinni niður aftur ef leikmenn fara ekki að girða sig í brók. 0 stig eftir þrjá leiki, skoruð þrjú mörk, en áfengin tíu. Það er hrikalega staða að vinna sig úr og í þessum leik munu Úlfarnir ná í þrjú stig með 2-0 sigri.

Manchester United 2–1 Tottenham, Sunnudag kl 15:30

Mínir menn í Manchester hafa oft verið frískari í upphafi leiktíðar, en nú. Alls konar heimavandamál eru að trufla leikmennina í að gera það sem þeir gera svo vel, að skora mörk og vinna leiki. Nú kemur fyrrum stjóri Manchester United Jose Mourinho með lið sitt Tottenham, svo að spennustigið verður hærra en fyrr. Þetta verður svakalegur leikur, en heimaliðið sigrar 2-1.

Aston Villa 0-2 Liverpool, Sunnudag kl 18:15

Það er haf og himinn milli getu þessara liða, en þó hefur Aston Villa verið að spjara sig í þeim tveimur deildaleikjum sem liðið hefur spilað án þess að fá á sig mark og er með sex stig. Ríkismeistararnir í Liverpool (þeir sóttum um styrk frá enska ríkinu), hafa gert enn betur en Villamenn og unnið alla þrjá deildaleikina. Það er ekki hægt annað en að spá þeim sigri og markatalan verður 0-2, eitt mark í hvorum hálfleik.

 

 

Staðan:

Þórir Örn Grétarsson 6 réttir

Ingibjörg Guðmundsdóttir 6 réttir

Steindór Guðmundsson 5 réttir

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar