Töltkeppni, gæðapróf í hverju?

  • 10. júlí 2020
  • Fréttir

Hraunar frá Hrossahaga þótti flinkur á tölti þegar hann kom fram fjögurra vetra á LM 2016 knapi: Helgi Þór Guðjónsson

Ein af grunnforsendum þess að hestar hljóti háa einkunn í keppni og kynbótadómum hlýtur að vera sú að þeir séu á hreinum takti, en það er undir knapanum komið að laða fram réttan takt á þeirri gangtegund sem sýnd er hverju sinni. Þá er það hlutverk dómara að gefa einkunn sem samsvarar því sem knapi og hestur framkvæma og vera ófeimnir við að verðlauna það sem vel er gert en á sama tíma hafa sjálfstraust til þess að gefa því lægra sem miður fer.

Gangtegundir íslenska hestsins hafa mismunandi takt og hljómfall og það er takturinn sem skilgreinir gangtegundina. Þessu til stuðnings má nefna það að skeið er tvítakta, hliðstæð gangtegund með svifi, á meðan t.d. brokk er tvítakta, skáskæð gangtegund með svifi. Sú gangtegund sem þó hefur skapað íslenska hestinum hvað mestar vinsældir er án efa töltið.

Tölt er fjórtakta gangtegund án svifs en þó er um hálfsvif að ræða bæði framan og aftan og er hrynjandi gangtegundarinnar reglulegur og jafn og jafnt tímabil skal vera á milli niðurkomu allra fjögurra fóta, á hvaða hraða sem riðið er. Hesturinn hreyfist bæði fyrir framan knapa og aftan hann sem skapar ásetugæði sem verða aldrei nema töltið innihaldi mikla mýkt.

Töltkeppni er gjarnan sú keppnisgrein sem vekur hvað mesta athygli á stórmótum. Þar mætast oft á tíðum bestu töltarar landsins hverju sinni og spennan fyrir úrslitum í þessari grein er yfirleitt mikil. Knapar mæta prúðbúnir með hrossin í toppstandi vel böðuð og tilhöfð. Verkefnin sem þeir eiga að leysa á sínum hestum er hægt tölt, hraðabreytingar á tölti og greitt tölt.

Undirbúningurinn leynir sér ekki, hestarnir eru alla jafna tilbúnir í verkefnið og þegar að best tekst til er ytra form þeirra glæsilegt og þeir ganga upp í herðarnar með löngum skrefum í réttum takti. Því miður er það mín upplifun að takturinn er of oft fyrir borð borin við myndun einkunnar í töltkeppni og knapar hljóta oft á tíðum háar einkunnir á hestum sem ekki eru gegnum mjúkir á tölti heldur eru fremur stirðir í hreyfingum.

Í leiðara íþróttadómara segir þó að til þess að hljóta 6,5 eða hærra þarf m.a. að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Góður taktur og hrynjandi, gott jafnvægi, jöfn skreflengd. Öruggur, heldur gangi.

Í leiðara íþróttadómara segir einnig að til þess að hljóta hinar hæstu einkunnir 8,0 eða hærra þarf m.a. að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Mikil mýkt, fjöðrun, óheftar hreyfingar.

Að sjálfsögðu þurfa fleiri hlutir að koma til en réttur taktur til þess að hestar hljóti hinar hæstu einkunnir sama hver keppnisgreinin eða tilefnið er. Þetta vandamál er þá ekki einskorðað við íþróttakeppni eða gangtegundina tölt því bæði í gæðingakeppni og kynbótadómum hafa hestar einnig sloppið í gegn á varhugaverðum takti á öllum gangtegundum.

En eins og áður segir í greininni er töltið eitt af aðalsmerkjum íslenska hestsins og það ber að varðveita, það gerum við best með því að hafa takt og mýkt gangtegundarinnar í forgrunni við myndun einkunnar sama hver keppnisgreinin eða tilefnið er.

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<