Um frjósemi íslenskra hrossa

  • 26. ágúst 2024
  • Aðsend grein
Sé tekið mið af stöðu frjósemi annara hrossakynja stendur það íslenska vel að vígi

Þessi grein birtist í tölublaði Eiðfaxa síðasta vetur og er eftir Sigurð Anton Pétursson.

Í BS-lokaverkefninu mínu fór ég yfir fyljunar- og afkvæmaskráningar hryssa í Worldfeng og sænsku skráningarkerfi fyrir íslenska hestinn (Hestur). Frjósemi er grundvallaratriði í allri búfjárrækt en frjósemi íslenska hrossastofnins hefur lítið verið rannsökuð og hafði áður en ég tók að mér þetta verkefni síðast verið skoðuð árið 2000.

Gagnasöfnun

Gögnin sem ég fékk úr Worldfeng náðu til 96.257 folalda og mæðra þeirra (28.424 hryssur) fædd árin 1990-2018. Gögnin sem ég fékk úr skráningarkerfinu Hesti (sifavel.se) voru upplýsingar um íslenskar hryssur sem fóru undir stóðhesta árin 2015-2020. Íslensku gögnin nýttust einna helst í að rannsaka hvernig áhrif ýmsir þættir hafa á frjósemi og endingu hryssa í ræktun. T.d. áhrif af aðaleinkunn kynbótamats og -dóms, skyldleikaræktarstuðuls hryssu og aldurs við fyrsta folald eru á fjölda fæddra folalda yfir ævi hennar (ending). Sænsku gögnin nýttust betur til að rannsaka eiginlega frjósemi, t.d. fanghlutfall stóðhesta og fanghlutfall með mismunandi aðferðum og áhrif aldurs hryssu á fang.

Fyrri athuganir

Í rannsókninni sem kom út árið 2000 (Davies Morel og Víkingur Gunnarsson, 2000) var frjósemi (fanghlutfall (fertility rate)) 27 íslenskra stóðhesta skoðuð. Leiðrétt var fyrir aldri hestanna, þjálfunarstigi, tíma sem þeir höfðu með merunum, aðferð við fyljun (á húsi eða í haga), aldri hryssa, ástandi meranna og stöðu (með folaldi, ekki haldið árið áður og folaldslaus en hafði verið haldið en misst fang eða ekki fest fang). Allir þessir eiginleikar höfðu marktæk áhrif á fanghlutfall. Lokaniðurstaða rannsóknarinnar var að fanghlutfall var tæplega 70% að meðaltali hjá þeim hestum sem rannsóknin náði til eftir að búið var að leiðrétta fyrir ofangreindum áhrifaþáttum.

Í rannsókn Kristins Hugasonar og félaga frá árunum 1978-1979 var fanghlutfall (fertility rate), kynjahlutfall og bil milli foreldrakynslóðar og afkvæma skoðað og þannig lagt gróft mat á frjósemi íslenskra hrossa. Fjöldi hryssa hjá hverjum stóðhesti virtist hafa ofurlítil neikvæð áhrif á fanghlutfall stóðhesta, þ.e. margar hryssur ollu aðeins lakara fanghlutfalli. Áhrifin voru þó ekki marktæk. Rúmlega 80% hryssanna festu fang og áttu lifandi folald sumarið eftir fyljun (Hugason og fl., 1985). Svipaðar niðurstöður komu annars fram í þessari rannsókn samanborið við hina frá árinu 2000; aldur mera og stóðhesta hafði neikvæð áhrif á frjósemi og sömuleiðis veðurfar. Í rannsókn Kristins Hugasonar og félaga (1985) var meirihluti stóðhesta í hólfi og hryssum því ekki haldið á húsi. Það eitt og sér gæti mögulega útskýrt aðeins betri frjósemi en í rannsókninni frá 2000. Þá er einnig um takmarkaðan fjölda hesta að ræða í báðum rannsóknum sem gæti útskýrt muninn að einhverju leyti.

Íslenskar hryssur hafa talsvert meiri endingu í ræktun en hryssur af mörgum öðrum hestakynjum sem hafa verið til rannsóknar. Til dæmis hefur Thoroughbred kynið mikið verið rannsakað og er þekkt fyrir aldurstengda frjósemishrörnun hryssa. Samkvæmt rannsókn á fylfullum hryssum kom í ljós að einungis 63% hryssa á aldrinum 2-8 vetra héldu fangi fram yfir 42 daga. Hlutfallið var síðan orðið 51% hjá hryssum 14-18 vetra. Til samanburðar má nefna að meðalaldur íslenskra hryssa sem köstuðu árið 2018 var 13,8 ár (íslensku gögnin). Þá var fanghlutfall íslenskra hryssa (óháð afdrifum fyls) 88% hjá yngsta aldurshópnum í sænska gagnasafninu (3-4 vetra) en reyndist 63,2% hjá elsta aldurshópnum (22 vetra og eldri). Hins vegar voru líkur á því að fyljun skilaði sér í lifandi afkvæmi mestar hjá aldurshópi 5-10 vetra eða 77,6%. Afrakstur (köstun lifandi afkvæma) var lakastur hjá elsta hópnum eða 41,2%. Dauðfædd afkvæmi voru algengust hjá yngstu hryssunum eða í 3,4% tilvika áttu þær dautt folald. Þar á eftir fylgdi elsti aldurshópurinn með 2,9%.

Niðurstöður úr íslenska gagnasafninu

Við yfirferð íslensku gagnanna var ákveðið að skoða áhrif aðaleinkunnar kynbótamats og kynbótadóms hryssa á fjölda afkvæma og aldur við köstun. Niðurstöður þeirrar athugunar ættu ekki að koma neinum á óvart en því hærra mat eða dóm sem hryssur hlutu því fleiri afkvæmi áttu þær og var haldið lengur í ræktun. Þar að auki voru þessar hryssur fyrr settar í ræktun en lakari merar, líklega til að eiga möguleika á að fá fleiri afkvæmi undan þeim.

Aldur hryssana við fyrstu köstun hafði töluverð áhrif á heildarfjölda afkvæma þeirra. Það sem helst var forvitnilegt við þá athugun var að hryssur sem köstuðu fyrst 1-4 vetra gamlar áttu að jafnaði 2,6 afkvæmi yfir ævina en hryssur sem köstuðu fyrst 5-9 vetra áttu að meðaltali 3,6 afkvæmi, sem jafnframt var hæsta meðaltal aldurshópanna. Þar á eftir kom aldurshópurinn 10-14 vetra með 3 afkvæmi að jafnaði. Það sem er forvitnilegt við þessa athugun er að yngstu mæðurnar sem ættu að eiga meiri möguleika á að eignast fleiri afkvæmi eiga færri folöld en tveir næstu aldurshópar. Það væri verðugt rannsóknarefni að athuga hvað veldur því.

Það ber að hafa í huga að frjósemi er fremur erfiður þáttur í ræktun þar sem hann skýrist ekki síst af þáttum í umhverfinu, s.s. fóðrun, ástandi, aldri, veðri o.fl. Arfgengi frjósemi hefur verið rannsökuð í nokkrum hrossakynjum og hefur jafnan mælst undir 10%. Arfgengi þýðir í raun hve mikill hluti svipgerðar (útlit og eiginleikar) einstaklinga eru tilkomnir vegna erfðaþátta. Að ekki nema 10% af erfðamenginu stýri frjósemi segir okkur því að frjósemi stýrist að 90% af ytri þáttum, s.s. aldri, fóðrun, veðráttu o.fl. Því þyrfti að reyna að velja þætti sem eru minnst undir áhrifum af ytri aðstæðum ef meta á frjósemi. Hægt væri að meta frjósemi stóðhesta að vissu marki með því að fylgjast vel með fanghlutafalli þeirra frá ári til árs en svo mætti einnig skoða nokkra gæðaþætti í sæði þeirra. Þessir eiginleikar eru til dæmis: sæðismagn í sæðistöku (á að vera um 50-150 ml), þéttleiki sæðis (á að vera um 25-200 milljón sáðfrumur/ml), hreyfanleiki (að lágmarki eiga 80-90% sáðfrumna að vera á hreyfingu) og fjöldi vanskapaðra eða gallaðra sæðisfrumna (á ekki að vera meira en 5-15%). Að sama skapi mætti meta frjósemi hryssa nokkuð vel með því að sinna skráningum í Worldfeng. Með því að gera sér nokkuð grein fyrir því hvað það tekur hryssu mörg gangmál að fyljast og skoða árangur hennar við að geta af sér lifandi afkvæmi er maður strax kominn með nokkuð trausta mynd á frjósemi hennar. Þá gæti ending hrossa í ræktun einnig vegið inn í kynbótamat þeirra.

Samkvæmt íslensku gögnunum úr Worldfeng voru hryssur að eignast sitt fyrsta afkvæmi á mjög mismunandi aldri, allt frá veturgömlum og upp í 32 vetra. Aldur við fyrsta afkvæmi virtist hafa áhrif á mætingu hryssa til dóms. Um 18,5% hryssa í safninu voru fullnaðardæmdar. Aldurshópar 2 og 3 (5-9 vetra og 10-14 vetra við fyrstu köstun) voru með hæst hlutfall sýndra hryssa og voru jafnframt einu hóparnir sem náðu yfir 20% hlutfalli sýndra hryssa innan hóps. Langlægsta hlutfall sýndra hryssa átti yngsti hópurinn eða 12,5%. Meðalfjöldi afkvæma fyrir alla hópa voru tæplega 3 afkvæmi á hryssu en meðalfjöldi afkvæma undan sýndum hryssum voru 4,9.

Meðalaldur allra hryssa við síðasta folald reyndist vera rétt liðlega 13,2 ár fyrir öll árin og meðalaldur úrvalshóps með 7,80 og hærra í aðaleinkun var 16,4 ár. Í þessum lið útreikninga var bætt við einum úrvalshópi til viðbótar: hryssur með að lágmarki 7,80 í aðaleinkunn kynbótadóms og 6 eða fleiri afkvæmi. Meðalaldur þessa hóps við síðasta afkvæmi var 21 ár. Frá 1990 hefur meðalaldur úrvalshópanna við síðustu köstun lækkað en meðalaldur allra hryssa þó hækkað. Meðalaldur allra hryssa við síðustu köstun var 11,5 ár árið 1990 en var orðin tæp 13,8 ár árið 2015.

Kynbótamat aðaleinkunnar, aðaleinkunn kynbótadóms og skyldleikaræktarstuðull voru áhrifsþættir sem reyndust allir hafa marktæk áhrif á fjölda afkvæma sem hryssur eignuðust á æviskeiði sínu. Að meðaltali áttu allar hryssur 2,97 afkvæmi yfir ævina en lægstu gildi voru 1 afkvæmi en hæstu 19 afkvæmi (ein hryssa). Hryssur með yfir 100 í aðaleinkunn kynbótamats (BLUP) áttu að meðaltali 4,5 afkvæmi. Þá áttu hryssur með undir 79 í kynbótamati að jafnaði 2,8 afkvæmi. Hækkun eða lækkun um eitt stig í kynbótamati virtist skila sér í 0,06 fleiri eða færri afkvæmum á hverja hryssu. Þannig er hægt að segja að hryssa með 110 stig í aðaleinkunn kynbótamats ætti að eiga að meðaltali 0,6 fleiri afkvæmi (5,1 afkvæmi) en hryssa með 100 stig.

Að meðaltali áttu hryssur sem hlutu 8,00 eða hærra í kynbótadómi 6,4 afkvæmi á meðan hryssur sem hlutu 7,00 eða lægra áttu 2,8. Ósýndar hryssur áttu fæst afkvæmi að jafnaði eða 2,6.

Því hærri skyldleikaræktarstuðul sem móðir hafði því færri afkvæmi voru að jafnaði eftir hryssuna. Hryssur með skyldleikaræktarstuðul upp á 30 eða meira (meira skyldar en sem nemur því að vera afkvæmi hálfsystkina) áttu að jafnaði 3,13 afkvæmi (8 hryssur) og hryssur með skyldleikaræktarstuðul 20-29,9 (120 hryssur) áttu að meðaltali 2,97 afkvæmi. Hryssur með skyldleikaræktarstuðul upp á 0,1-0,2 (2.405 merar) 3,5 afkvæmi að jafnaði. Hryssur án ætternisupplýsinga (enginn skyldleikaræktarstuðull) áttu fæst afkvæmi eða 1,38 að jafnaði. Hækkun um 1% í skyldleikaræktarstuðli reyndist fækka skráðum afkvæmum eftir hverja hryssu um 0,05. Það þýðir að hækkun um 10% í skyldleikaræktarstuðli móður fækkar skráðum afkvæmum um 0,5 að meðaltali.

Niðurstöður úr sænska gagnasafninu

Í sænska gagnasafninu var meðalaldur hryssa sem áttu afkvæmi árin 2015-2019, 12,5 ár. Meðalaldur hryssa sem áttu lifandi afkvæmi árin 2015-2019 var nokkru lægri eða 11,9 ár á meðan meðalaldur hryssa sem voru geldar var tæplega 14,1 ár.

Í sænsku gögnunum var mun betur haldið utan um skráningu á fyljunaraðferð, þ.e. hvort hryssu var haldið á húsi, í hólfi eða sædd. Flestum hryssum var haldið á húsi en langfæstar voru sæddar. Fyljunaraðferð hafði ekki marktæk áhrif á það hvort hryssur fyljuðust eða ekki. Hlutfall hryssa sem festu fang (burtséð frá afdrifum fyls) á húsi var 82,8% á meðan hlutfall hryssa sem festu fang í stóðhestahólfi var 82,9%. Hlutfallið var aðeins lægra hjá hryssum sem voru sæddar eða 80,1%. Hlutfall hryssa sem áttu lifandi afkvæmi var lægst hjá hryssum sem haldið var á húsi eða 69,7%, reiknaðist 70,4% hjá hryssum úr stóðhestahólfi en 71,7% hjá hryssum sem voru sæddar. Tíðni fósturláta hjá hryssum var hæst hjá merum sem hafði verið haldið á húsi (10,2%) en lægst hjá sæddum hryssum (6,5%). Tíðnin var 9,2% hjá hryssum úr stóðhestahólfi. Hlutfall dauðfæddra folalda var lágt í öllum hópum eða á milli 0,7-2,5%. Það var lægst hjá hryssum sem voru sæddar en hæst hjá hryssum sem höfðu fyljast í stóðhestahólfi.

FLOKKUR SKYLDLEIKARÆKTAR- STUÐULL FJÖLDI HRYSSNA MEÐAL SKYLDLEIKAR.STUÐULL
1 0,0-0,9 2.344 0,33
2 1,0-2,9 1.493 1,81
3 3,0-4,9 699 3,70
4 5,0-9,9 381 6,56
5 10,0-14,9 41 12,72
6 15,0+ 8 20,04
MEÐALT.   5.416 1,86

Tafla 1 – Flokkun hryssa úr sænska gagnasafninu, raðað eftir skyldleikaræktarstuðli.

Áhrif árs á afrakstur reyndust vera marktæk í gögnunum frá Svíþjóð. Hlutfall hryssa sem fyljuðust (burtséð frá afdrifum fylsins) var 83,1-84,4% árin 2016-2018 en var í niðursveiflu árin 2015 (77,7%) og 2019 (78,9%). Hlutfall hryssa sem eignast lifandi afkvæmi var undir 70% árin 2015 og 2017 (65,7% og 68,1%) en náði 70,4% árið 2019 þrátt fyrir fremur lágt fyljunarhlutfall. Árið 2016 var hlutfall hryssa sem eignast lifandi afkvæmi 71,2% en árið 2018 hafði besta útkomu með 72,2% fyljana sem leiða til fæðingar lifandi afkvæmis. Tíðni fósturláta var hæst árið 2017 þegar hún mældist 13,7% en lægst 2019 í 5,8%. Árin 2015-2016 og 2018 var hlutfallið frá 8,7-10,6%.

Sömu sögu er að segja af áhrifum skyldleikaræktarstuðuls á afrakstur hjá sænskfæddu hryssunum. Skyldleikaræktarstuðull hefur marktæk áhrif á það hvort hryssur fyljast eða ekki. Hryssum í gagnasafni var skipt í hópa eftir skyldleikaræktarstuðli þeirra (sjá mynd 1). Fanghlutfall fyrstu fjögurra hópanna var aðeins sveiflukennt en var á milli 80,6-86,1%. Fanghlutfallið féll hratt eftir það og var orðið 73,2% í flokk 5 en ekki nema 50% hópnum með hæstan stuðul. Þess ber þó að geta að hryssurnar í þeim hópi eru ekki nema 8 svo gögnin eru takmarkandi þáttur. Þetta segir okkur þó að þróun frjóseminnar við aukna skyldleikarækt er neikvæð. Í því samhengi er vert að benda á að við getum notað betur þá tækni sem Worldfengur býður nú þegar upp á. Með því að para hross saman í „valpörun“ má sjá útreiknaðan skyldleikaræktarstuðul afkvæmis (F%). Í BS-ritgerð Elínborgar Árnadóttur frá 2022 um erfðafjölbreytileika íslenskra hrossa, kom fram að erfðafjölbreytileiki íslenskra hrossa hefur dregist töluvert saman og meðalskyldleikaræktarstuðull hækkað á undanförnum árum. Þetta ættu ræktendur að hafa í huga við val á stóðhestum fyrir sínar hryssur. Framboð efnilegra graðhesta hefur sjaldan verið meira og óþarft að para saman skyldum einstaklingum.

Greinilegur munur var á fanghlutfalli eftir aldri stóðhesta í sænska gagnasafninu. Hestar sem voru 2-3 vetra höfðu aðeins lakara fanghlutfall en 4-21 vetra stóðhestar en það munaði þó afar litlu. Fanghlutfall hjá yngstu hestunum var 81% en hjá 4-21 vetra hestunum var það 81,9-84,7%. Hjá hestum eldri en 22 vetra var greinilega lakari fangprósenta og þeir höfðu að meðaltali 68,2% fanghlutfall. Þessar niðurstöður voru metnar úr frá niðurstöðum sænsku gagnanna en marktækni var ekki mæld og aldur stóðhesta ekki metinn sem áhrifaþáttur í niðurstöðum. Niðurstöðurnar voru því eingöngu teknar fram til umræðu í verkefninu.

Umræða og staðan í dag

Eitt af því sem erfiðast var að vinna með í þessu verkefni var án efa sú staðreynd að fyljunar- og fangskráningar í Worldfeng eru ekki mjög áreiðanlegar. Oft hafa ræktendur ekki skráð fyljun í kerfið þó hryssu hafi verið haldið, heldur skrá þeir bara afkvæmið (ef folald fæðist). Við það týnast mikilvæg gögn sem mætti nýta til að meta og fylgjast með frjósemi stofnsins. Neikvæð niðurstaða sónarskoðunar er líka oft ekki skráð sem einnig veldur því að mikilvægar upplýsingar glatast. Þá eru margar dagsetningar (komu- og brottfarardagur hryssa, dagsetning fangskoðunar, köstunardagsetning o.fl.) ekki nákvæmlega skráðar en þessar upplýsingar mætti einmitt nýta til að leggja nokkuð nákvæmt mat á frjósemi hrossa. T.d. með því að sjá hve lengi hryssa er hjá stóðhesti þar til hún festir fang má áætla með talsverðri nákvæmni hve mörg gangmál hún hefur þurft til að fyljast. Afdrif fangs er líka skráningarþáttur sem ætti klárlega að huga betur að. Líkt og sést á niðurstöðum verkefnisins hefur t.d. aldur mikil áhrif á þennan þátt og með því að skrá og fylgjast með honum mætti hafa það í huga við ræktun og viðhalda eða lengja endingu hryssa í ræktun. Líklegt er að einhver munur sé einnig á milli stóðhesta í afdrifum fangs og lifun afkvæma sem mjög áhugavert væri að skoða sérstaklega en nýlega var byrjað að reikna sérstakt kynbótamat fyrir lifun kálfa í nautgriparækt hér á landi. Auk ofangreindra vankanta við skráningu í skýrsluhaldskerfin rakst ég einnig á ósamræmi í skráningum milli sænsku og íslensku gagnanna. T.d. voru sumar skráningar í sænska gagnagrunninum bara til í því en ekki í Worldfeng.

Sé tekið mið af stöðu frjósemi annara hrossakynja stendur það íslenska vel að vígi og hefur lítið breyst síðan á síðari hluta 20. aldar. Það þýðir þó ekki að ekki borgi sig að fylgjast með og með viðeigandi aðgerðum viðhalda þessari ágætu frjósemi. Skráning í Worldfeng er grunnforsenda þess að við getum fylgst með og lagt mat á frjósemi stofnsins hverju sinni og hana mætti bæta mikið, á því er enginn vafi. Við þyrftum að ná utan um raunverulegt fanghlutfall hrossa, lifun afkvæma og margar fleiri upplýsingar sem gætu gert okkur kleift að styðja við frjósemi íslenskra hrossa til framtíðar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar