Umræður um útflutning á sæði úr stóðhestum ratar inn á Alþingi

  • 23. maí 2025
  • Fréttir
Þorgrímur Sigmundsson, þingmaður Miðflokksins, vakti athygli á málinu í gær á Alþingi íslendinga

Umræða um útflutning á sæði úr íslenskum stóðhestum hefur verið áberandi síðustu misseri. Var meðal annars um þetta málefni fjallað í umræðuþætti á sjónvarpi Eiðfaxa sem Telma L. Tómasson stýrði og voru gestir hennar þau Guðmundur Viðarsson, Sigurður V. Matthíasson og Sigríður Björnsdóttir.

Nú hefur málið ratað inn á Alþingi Íslendinga undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Þorgrímur Sigmundsson, þingmaður Miðflokksins, vakti þar athygli á málefnum íslenska hestsins og þá sérstaklega útflutningi á sæði.

Sagði Þorgrímur  m.a. í málflutningi sínum. „Það eru hrossaræktendur, þeir sem taka að sér að ala upp, temja, halda undir stóðhesta og halda hryssur fyrir erlenda eigendur, en nú er í farvatninu, og virðist vera alllangt komið, undirbúningur fyrir útflutning á frystu sæði úr íslenskum stóðhestum inn á meginlandið. Við getum svo haft einhverjar skoðanir á því, en það sem hræðir mig er m.a. það að þetta virðist vera að eiga sér stað án þess að hér hafi verið mörkuð nein pólitísk stefna um málið heldur virðist embættismannakerfið eingöngu geta gefið þetta leyfi eitt og sér að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þess aðila er tekur málið að sér.“

Þá bætti hann við að það væri nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að ræða hvernig best væri farið með framtíðarmöguleika íslenska hestsins. „Þetta er, ásamt íslenskri tungu og bókmenntunum, einn okkar dýrasti arfur. Það eru miklar hættur sem eru þessu samfara, vissulega tækifæri líka, en það eru miklar hættur til að mynda gagnvart þessari atvinnugrein sem ég nefndi, þeim hópi sem tekur að sér að sinna þessum erlendu kaupendum. Það er hætta á því að þetta skaði sölu á stóðhestum úr landi og það er hætta á því að þetta tryggi jafnvel í framtíðinni fólki og ræktendum á meginlandinu forskot, genetískt forskot í ræktun á íslenskum hesti þar sem þetta snýst um að leyfa útflutning en við munum ekki geta flutt inn,“ sagði þingmaðurinn ennfremur.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar