Undir hvern fóru þær?

  • 5. október 2024
  • Fréttir

Arney frá Ytra-Álandi, sýnandi Agnar Þór Magnússon. Mynd: Kolla Gr.

Undir hvaða stóðhest var hæst dæmdu hryssunum í ár haldið í sumar.

 „Undir hvern fóru þær?“ hefur alltaf verið vinsælar greinar hér á vefnum. Ræktendur virðast hafa mikinn áhuga á því að sjá hvaða stóðhesta aðrir eru að velja á hryssurnar sínar.

Fjórar hryssur stóðu efstar í hver sínum flokki á Landsmótinu í sumar. Allar þessar hryssur eiga mæður og hér fyrir neðan er smá umfjöllun um þær og undir hvaða stóðhest þeim var haldið í sumar. Í hópnum eru tvær heiðursverðlaunahryssur ásamt tveimur minna reyndum ræktunarhryssum.

Kría frá Árbæ hæst dæmda fjögurra vetra hryssan í ár. Kría hlaut í aðaleinkunn 8,38 og er undan Spaða frá Stuðlum og Keilu frá Árbæ. Kríu var ekki haldið í sumar en hún verður áfram í þjálfun í vetur. „Hún fór ekki undir hest í sumar og mun verða áfram í þjálfun í vetur. Það er stefnt að því að sýna hana aftur að vori og staðan tekin aftur eftir það,“ segir Maríanna Gunnarsdóttir, dóttir eiganda og ræktanda Kríu, Vigdísar Þórarinsdóttur.

Efsta fimm vetra hryssan er hestagullið Arney frá Ytra-Álandi en hún setti heimsmet í vor þegar hún hlaut 8,98 í aðaleinkunn. Arney er undan Skýr frá Skálakoti og Erlu frá Skák en Arneyju var haldið undir Feyki frá Stóra-Vatnsskarði sem er hæst dæmdi fjögurra vetra stóðhesturinn í ár með 8,57 í aðaleinkunn. „Arney var í mjög góðri umsjón Huldu Jónsdóttur dýralæknis og starfsfólksins í Hjarðartúni. Við notuðum Feyki frá Stóra-Vatnsskarði. Það hjálpaði til við valið að hann sé út af gæðingnum henni Lukku. Feykir er stórstígur, gullfallegur, lofandi hestur og það sem skipti allra mestu máli með alveg sprell fjörugt sæði,“ segir Úlfhildur Ída Helgadóttir, ræktandi og annar eigandi Arneyjar.

Stikla frá Stóra-Ási stendur efst sex vetra hryssna í ár með 8,60 í aðaleinkunn. Stikla er undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hendingu frá Stóra-Ási. Stiklu var haldið undir Hannibal frá Þúfum sem er með 8,68 í aðaleinkunn. „Við leituðum eftir hesti með góða frambyggingu, háar herðar. Stikla er mjög fallega byggð en má ekki fínlegri vera. Hannibal er heilsteyptur hestur, fallega byggður, mjög heill í hausnum og með sterkar gangtegundir,“ segir Lára Kristín Gísladóttir eigandi og ræktandi Stiklu.

Hildur frá Fákshólum hlaut 8,91 í aðaleinkunn sem er næst hæsti dómur sem hryssa hefur hlotið frá upphafi. Hún er hæst dæmda sjö vetra hryssan og er hún undan Gnýpu frá Leirulæk og Ölni frá Akranesi. Hildur á eitt afkvæmi sem fæddist í sumar undan Þráni frá Flagbjarnarholti en Hildi var haldið undir Safír frá Laugardælum sem er næst hæsti fimm vetra stóðhesturinn í ár með 8,81 í aðaleinkunn. „Okkur langaði í alhliða hest með fjaðurmagn. Safír hefur ansi mikið við sig sem við fílum,“ segir Helga Una Björnsdóttir, annar ræktandi Hildar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar