Undirbúningur fyrir Landsmót á Hólum næsta sumar í fullum gangi

Erindið var að hitta fulltrúa Háskólans á Hólum og fulltrúa mannvirkjanefndar LH og skoða þær framkvæmdir sem gerðar hafa verið á væntanlegu mótssvæði í sumar.
„Óhætt er að segja að mótssvæðið líti mjög vel út og lofi góðu fyrir landsmótssumarið 2026. Búið er að byggja upp nýjan 250 metra langan upphitunarvöll og af honum nýja ferjuleið inn á skammhlið aðalvallarins. Þetta mun auka mjög flæði í keppni og gera alla aðstöðu knapa betri. Þá er búið að útbúa nýtt bílastæði fyrir fatlaða þaðan sem hægt er að fylgjast með keppni. Auk þessa er búið að bera nýtt vikurblandað efni ofan á allar brautir auk annarra smávægilegra lagfæringa. Átak í fegrun húsa og umhverfis á mótssvæðinu er hafið og því verður framhaldið næsta vor ásamt endurnýjun á gerðum við hesthús.“
Endurbætur á veginum heim að Hólum hefjast í næstu viku. Það er því ekkert sem mun koma í veg fyrir að öll aðstaða fyrir hesta, knapa og gesti verði í toppstandi á Landsmóti á Hólum 5.-12. júlí 2026. Mikil samstaða og gott samstarf hefur verið um þessar framkvæmdir þar sem Háskólinn á Hólum, sveitarfélagið Skagafjörður og fulltrúar úr atvinnulífinu í Skagafirði hafa lagt hönd á plóg, ásamt hestamannafélaginu Skagfirðingi.
Miðasala á mótið er hafin á vef mótsins, landsmot.is og fer vel af stað. Sérstakt forsölutilboð er í gangi til áramóta. Á heimasíðu mótsins eru líka upplýsingar fyrir þau sem gætu haft áhuga á að leigja frá sér herbergi/hús/hýsi eða eitthvað slíkt til landsmótsgesta, en slíkum erindum er svarað í netfanginu gisting@landsmot.is. Þá eru þau sem hafa áhuga á að starfa sem sjálfboðaliðar á mótinu bent á að senda tölvupóst á netfangið landsmot@landsmot.is.


