Vakri-Skjóni – Dagur Stefnisson

  • 27. október 2020
  • Fréttir

Með breyttri útgáfu Eiðfaxa í ár var ákveðið að endurjárna gamlan vin en það er hann Vakri-Skjóni sem um árabil gladdi yngri lesendur blaðsins með ýmsum fróðleik.

Umsjónarmaður hans í tímaritum okkar er Marta Gunnarsdóttir sem hefur gott auga fyrir skemmtilegu efni sem hentar krökkum sem áhuga hafa á öllu því sem viðkemur hestum. Þá hefur Marta einnig tekið viðtöl við unga efnilega hestakrakka. Í Eiðfaxa Sumar var viðtal við ungan og efnilegan hestamann, Dag Stefnisson. Hér fyrir neðan birtist viðtal við hann.

Dagur er 7 ára sveitastrákur sem býr í Austvaðsholti í Landsveit ásamt fjölskyldu sinni. Þar hefur um árabil verið rekin hestatengd ferðaþjónusta þar sem boðið er upp á styttri og lengri hestaferðir um hálendið í nálægð við eldfjallið Heklu. Fyrirtækið Hekluhestar var stofnað af ömmu hans og afa árið 1981 og er nú rekið af foreldrum hans, Anítu Jónsdóttur og Stefni Gíslasyni og rækta þau og temja flest hrossin fyrir ferðirnar sjálf.

Undanfarin sumur hefur Dagur og litla systir hans Bjartey, 3ja ára, fengið að fara með í ferðirnar og riðið um hálendið á hestum sínum yfir ár, hraun, fjöll og firnindi.

Degi finnst mjög skemmtilegt að fara í hestaferðir en einnig að fara í reiðtúra meðfram Ytri-Rangánni sem rennur nálægt heimili hans. Í sumar slóst hann m.a. í för með hóp og reið upp í Kerlingafjöll þar sem honum þótti landslagið stórbrotið. Hestaferðirnar upp í Landmannahelli eru þó í miklu uppáhaldi þar sem venjan er að pabbi hans grípur í harmonikkuna og spilar fyrir gesti við mikla lukku.

Dagur man ekki eftir sér öðruvísi en að hafa hesta í kringum sig. Nótt frá Austvaðsholti var fyrsta hrossið sem hann eignaðist og fæddist hún sama ár og í sama mánuði og hann sjálfur, í apríl 2013 og er því  7 vetra líkt og hann. Nótt er í miklu uppáhaldi hjá Degi ásamt hinum leirljósa Bjarti frá Austvaðsholti.

En í Austvaðsholti eru ekki bara hestar heldur líka hundarnir Spói og Lóa, íslenskar landnáms hænur, kindur og heimalingar. Dagur hefur einstaklega gaman að heimalingunum og í sumar hefur það verið hún Freyja sem vappar um garðinn og er mikill leikfélagi krakkanna. Dagur er virkur í öllu því sem við kemur sveitinni og hefur sérstaklega gaman af gamla Deutz traktornum og tækjunum á bænum. Draumurinn er að verða bóndi í Austvaðsholti þegar að hann verður stór, fara í hestaferðir með ferðamenn og sjá um kindurnar og túnin – og tók það sérstaklega fram að nota bara gamla Deutz-inn þegar að því kemur.

Dagur vildi segja það að lokum að hans mati mætti kenna meira um rollur og hesta í skólanum því þá væri hann miklu skemmtilegri. Við þökkum Degi fyrir frábært spjall og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Viðtal við fleiri klára krakka

Kristín Eir Holaker Hauksdóttir

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar