Vakri-Skjóni – Kristín Eir Holaker Hauksdóttir

  • 19. október 2020
  • Fréttir

Með breyttri útgáfu Eiðfaxa í ár var ákveðið að endurjárna gamlan vin en það er hann Vakri-Skjóni sem um árabil gladdi yngri lesendur blaðsins með ýmsum fróðleik.

Umsjónarmaður hans í tímaritum okkar er Marta Gunnarsdóttir sem hefur gott auga fyrir skemmtilegu efni sem hentar krökkum sem áhuga hafa á öllu því sem viðkemur hestum. Þá hefur Marta einnig tekið viðtöl við unga efnilega hestakrakka. Í Eiðfaxa Vetur var viðtal við Kristínu Eir Holaker Hauksdóttur. Hér fyrir neðan birtist það viðtal en þess má til gamans geta að Kristín Eir varð í sumar Íslandsmeistari í fimi barna en viðtal sem blaðamaður Eiðfaxa tók af því tilefni má nálgast hér.

Kristín Eir er 10 ára áhugasöm hestastelpa sem á heima á Skáney í Borgarfirði. Skáney er eitt elsta hrossaræktarbú landsins en þar hefur verið stunduð markviss hrossarækt í tæp 70 ár. Fyrst af langafa Kristínar, svo afa hennar og ömmu, Bjarna og Birnu og núna eru foreldrar hennar Randi og Haukur orðnir virkir þáttakendur í ræktuninni. Á Skáney eru ekki bara hestar, heldur líka kindur, kýr, hundar og kettir og því í mörgu að snúast fyrir Kristínu og fjölskyldu.

Kristín man ekki eftir sér öðruvísi en að vera á hestbaki enda var hún komin mjög ung í hnakkinn með mömmu sinni og pabba og um leið og hún var orðin nógu stór var hún fljótt farin að stelast ein út í reiðtúra.

Á Skáney er líka reiðskóli og mikið um að krakkar komi víða að og sæki námskeið hjá foreldrum Kristínar. Það eru margir skólahestar sem eru á staðnum og hjálpar Kristín til með því að þjálfa þá á milli námskeiða ásamt því að vera til staðar og hjálpa til ef þarf á námskeiðunum. Kristínu finnst mjög gaman að keppa og stefnir á að keppa í KB mótaröðinni í Borgarnesi í vetur en hlakkar mest til sumarsins þar sem draumurinn er að komast inn á Landsmót sem haldið verður á Hellu í sumar. Það er ljóst að Kristín Eir er ótrúlega dugleg stelpa sem hefur gaman að lífinu í sveitinni. 

 

Afmælisdagur: 29. júlí

Stjörnumerki: Ljón

Aldur: 10 ára

Heimili: Skáney, Borgarfirði

Skóli: Grunnskóli Borgarfjarðar, Kleppjárnsreykjum

Hestamannafélag: Borgfirðingur

Önnur áhugamál: Körfubolti, Karate og svo æfi ég á píanó

Hvað er skemmtilegast að gera á hestbaki:

Keppa, fara í hestaferðir og ríða berbakt

Uppáhaldsgangtegund: Stökk og skeið.

Skemmtilegasti hesturinn á húsi: Dama frá Skáney, 5 gangs hryssa.

Uppáhaldsstóðhestur: Sólon frá Skáney og Ellert frá Baldurshaga

Fyrsti hesturinn þinn: Sól frá Skáney. Fékk hana í skírnargjöf frá ömmu og afa. Hún er jafn gömul og ég.

Skemmtilegasta minningin tengd hestum:

Landsmótið á Hólum 2016. Það var mjög skemmtilegt. Mamma var ólétt af Söru systur minni og við sváfum í pallhýsinu, en það finnst mér alltaf mjög skemmtilegt. Það var  gaman að fá að sjá Háskólann á Hólum og vera með vinkonum mínum. Við lékum okkur í skemmtigarði, sáum leikrit og fórum á ball.

Fyrirmynd í hestum:

Mamma, pabbi og Jakob Svavar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar