Veita efnilegum knöpum tækifæri til þess að bæta sig sem hestamenn

  • 20. janúar 2020
  • Fréttir

Haraldur Páll Bjarkarson varð bráðkvaddur á heimili sínu árið 2016, langt fyrir aldur fram. Halli, eins og hann var jafnan kallaður, var mikill áhugamaður um allt sem tengist hestamennsku og þá ekki síst velgengni yngri knapa. Hann var félagi í Hestamannafélaginu Sleipni og var mjög annt um snyrtilega og fagmannlega reiðmennsku. Það gladdi hann mjög að sjá efnileg og dugleg börn, unglinga eða ungmenni á útreiðum eða í keppni. Það var með þessa hugsjón að leiðarljósi sem Jötunn Vélar, í samvinnu við fjölskyldu Halla og Hestamannafélagið Sleipnir, tóku sig saman um að veita einu barni, ungling eða ungmenni  peningastyrk og á þann hátt auðvelda styrkþeganum að ná framförum í hestamennsku og leita sér þekkingar.

Verkefnið gengur út á það að styrkja einn af yngri félagsmönnum Sleipnis og þannig gefa þeim aðila tækifæri til þess að ná árangri. Ekki er einungis verið að leitast eftir þeim aðila sem sigrar öll mót, heldur þeim aðila sem sýnir mikinn dugnað, ástundun og vilja til þess að ná árangri og vill sækja sér aðstoð til þess að verða betri hestamaður. Valnefndina skipa einn fulltrúi frá Jötun Vélum, einn fjölskyldumeðlimur Halla, en sá aðili er einnig formaður nefndarinnar, einum Sleipnisfélaga og fulltrúa æskulýðsnefndar Sleipnis.

Sá aðili sem valinn er hlýtur styrk að upphæð 250.000 krónur. Styrkurinn er ekki greiddur beint til styrkþega heldur skal hann vera í formi þess að gera viðkomandi kleift að sækja námskeið, þjálfun, kennslu eða hvað það sem hann metur til að bæta sig sem hestamann. Allar ákvarðanir um slíkt eru teknar í samráði við valnefnd. Einstaklingurinn sem styrkinn hlýtur skal vera félagi í hestamannafélaginu Sleipni.

Forsendur valsins voru þeir þættir sem Haraldi þóttu mikilvægir í hestamennskunni en þeir eru: Ástundun, framkoma, árangur og þátttaka í starfi félagsins  ásamt framförum í reiðmennsku. Allir þessir þættir voru hafðir til hliðsjónar við val á þeim sem hlutu styrkinn.

Árið 2019 hlaut styrkinn Dagbjört Skúladóttir en hún flutti á Stokkseyri fjögurra ára gömu og gerðist fljótlega Sleipnisfélagi. Það sumar fékk hún undanþágu, sökum aldurs, þá 4 ára á reiðnámskeið hjá Háfeta í Þorlákshöfn og má segja að hún hafi verið í hnakknum síðan. Dagbjört hefur með mikilli elju, ástundun og dugnaði náð langt sem hestamaður og hefur stundað hestamennsku af miklum móð. Dagbjört hefur verið virk í félagsstarfi Sleipnis og var nú í vor að ljúka hestabrautinni í FSu og stefnir á nám við Háskólann á Hólum næsta haust. Dagbjört Skúladóttir fékk afhentan farandbikar og skjöld til eignar ásamt styrk upp á 250 þúsund krónur frá Jötunn Vélum.

Þakklæti efst í huga

Eiðfaxi hafði samband við Dagbjörtu og spurði hana út í það hvaða þýðingu styrkurinn hefði fyrir hana „Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa hlotið þessi hvatningar verðlaun. Ég hef alltaf reynt að vera mjög virk og jákvæð í öllu félagsstarfi Sleipnis, síðan ég man eftir mér. Styrkurinn hefur þá þýðingu fyrir mig að þetta sé ákveðin viðurkenning á því að ég hafi staðið mig vel árið 2019. því mun ég halda áfram og reyna að bæta mig enn frekar sem hestakonu.“ En hver er stefnan að nota þennan glæsilega styrk í? „Styrkurinn er hugsaður til þess að gera mér kleift að bæta mig sem knapa með því t.d. að sækja námskeið eða slíkt. Ég stefni á að fara í nám við Háskólann á Hólum næsta haust og ætla mér að nota styrkinn að einhverju leiti við nám að Hólum og fyrir reiðkennslu. Ég stefni á það að starfa við hestamennsku á einn eða annan hátt í framtíðinni og þessi styrkur hjálpar mér við að gera þann draum að veruleika.“

Fyrri styrkþegar eru þær Unnur Lilja Gísladóttir, sem hlaut styrkinn árið 2017 og Stefanía Stefánsdóttir sem hlaut styrkinn árið 2018.

Ljósmynd: Dagbjört Skúladóttir tekur við styrknum, með henni á myndinni eru Guðmundur Þór Guðjónsson fjármálastjóri Jötunn Véla og Hulda Björk  dóttir Haralds.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<